04.12.1987
Efri deild: 15. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1485 í B-deild Alþingistíðinda. (1082)

Fundarboð og fjarvera þingmanna

Forseti (Karl Steinar Guðnason):

Ég vil í tilefni af þessum umræðum benda á að hér verður fundargerð ekki afgreidd og engar atkvæðagreiðslur verða. Ég tel að samkvæmt fundarsköpum sé ekki rangt að farið. Hins vegar finnst mér mjög miður að það skuli ekki fást meiri hluti deildarmanna til að sækja fundinn. En á því eru skýringar. T.d. eru allir þm. Reykjaness á ferðalagi í dag með sveitarstjórnarmönnum, sem löngu var ákveðið, og ég gaf þeim leyfi til að halda því ferðalagi áfram, taldi víst að meiri hluti næðist. Auk þess er einn hv. deildarmanna erlendis og þrír aðrir hafa beðið um fjarvistarleyfi. Ég vona að þessi óvenjulegi háttur nú verði ekki til að valda misklíð. Ég taldi rétt að frv. um stjórn fiskveiða yrði lagt fram nú þannig að menn fengju umþóttunartíma, stjórnarsinnum og stjórnarandstöðu til umþóttunar, og vænti ég þess að þessi gjörð verði ekki misvirt sem slík og tek ég orð hv. þingdeildarmanna ekki á þann veg heldur.