04.12.1987
Efri deild: 15. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1486 í B-deild Alþingistíðinda. (1083)

Fundarboð og fjarvera þingmanna

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Það er í fyrsta lagi svo að það er óvenjulegt að boða fund í deildum án samráðs við forustumenn þingflokka. Það er óvenjulegt. Sérstaklega þegar þess er gætt að það var haldinn hér mikill fundur í gær, er mér sagt af formanni míns þingflokks, þar sem farið var yfir þingstörfin á komandi vikum, og aðeins nokkrum klukkustundum síðar var svo þessi fundur boðaður.

Hv. 4. þm. Vestf. ber því við að það hafi komið upp óvænt atvik í millitíðinni. Hvert var hið óvænta atvik? Það var nokkuð sem mátti koma þjóðinni allri og þingheimi gjörsamlega á óvart og hæstv. forseti Sþ. hefur greinilega orðið mjög undrandi á. Það var að stjórnin kom sér saman um að leggja fram stjfrv. um stjórn fiskveiða. Og hæstv. forseti Sþ. var svo undrandi yfir þessari niðurstöðu að hann taldi ástæðu til að víkja frá því sem um hafði verið rætt á fundi fyrr um daginn með forustumönnum þingflokkanna og ráðherranum og efna til fundar á þessum degi án samráðs við forustumenn þingflokkanna. Þetta er óvenjulegt. Hvort það er hins vegar ólöglegt eða jafnvel siðlaust, það voru ekki mín orð og dettur mér ekki í hug að hafa uppi.

En það vekur athygli mína hvað þetta hefur komið forseta Sþ. á óvart, þessi undur að stjórnin skyldi koma frá sér frv. um stjórn fiskveiða. Það er vissulega ekki neitt óvenjulegt heldur að það komi þjóðinni á óvart, en það er athyglisvert að hæstv. forseti Sþ. skuli einnig vera í þeim hópi sem undrast það svo mjög að stjórnin skuli koma frá sér frv. til l. um stjórn fiskveiða.

Í öðru lagi er óvenjulegt að setja fund án þess að meiri hluti eða helmingur deildarmanna sé viðstaddur. Það er óvenjulegt og ég fer fram á að stjórn þessarar virðulegu deildar verði hagað með þeim hætti, enda heyrði ég það á hæstv. forseta áðan, að það verði ekki regla að setja fundi án þess að meiri hluti deildarmanna sé kominn. Það gengur ekki. Það verður að vera alveg á tæru að það er ætlunin að haga þingstörfum með venjulegum hætti og að fundir séu settir með því að meiri hluti deildarmanna sé mættur.

En í þriðja lagi, hæstv. forseti, og þar tekur alveg steininn úr, er óþarfi að útbýta málunum á þessum degi vegna þess að deildarfundir hafa ekki verið áformaðir fyrr en á þriðjudag. Þess vegna hefði verið nóg að útbýta málinu á mánudag í Sþ.

Málið er því óvenjulegt frá tveimur hliðum séð og auk þess óþarfi frá þeirri þriðju skoðað, herra forseti.