07.12.1987
Sameinað þing: 27. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1492 í B-deild Alþingistíðinda. (1089)

111. mál, mælingar á geislavirkni í sjávarafurðum og umhverfi

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Ég vil ekki láta hjá líða að taka undir efni þessarar þáltill. um mælingar á geislavirkni í sjávarafurðum og umhverfi. Hér er mikilsvert mál á ferðinni, hluti af stóru máli sem ítrekað hefur borið á góma hér á Alþingi síðustu vikur, og það er engin tilviljun vegna þess að menn gera sér æ ljósar hvaða þýðingu það hefur, ekki aðeins fyrir heilbrigði okkar hér, heldur ekki síður fyrir útflutningsafurðir okkar og verndun íslenskra sjávarauðlinda að við stöndum gegn geislamengun í umhverfi og fylgjumst sem nánast með öllum þeim þáttum sem þar að lúta.

Það verður að treysta því að hv. fjvn. sjái til þess að þær fjárveitingar sem hér er um að ræða, sem reyndar eru ekki háar miðað við þýðingu málsins, verði tryggðar á fjárlögum komandi árs. Það er í rauninni ekki forsvaranlegt að taka við aðstoð erlendis frá og láta síðan okkar hlut eftir liggja eins og yrði ef ekki yrði tryggt að þau tæki, sem notuð eru til þessara mælinga og hafa verið fengin frá Alþjóðakjarnorkumálastofnuninni í þessu skyni, geti verið hér áfram og Geislavarnir ríkisins geti annast þessa starfsemi. Ég vil í þessu sambandi minna á till. til þál. sem flutt er af þm. úr fimm þingflokkum varðandi hættuna á kjarnorkugeislamengun frá endurvinnslustöðinni í Dounreay í Skotlandi. Sú till. er nú til meðferðar í hv. utanrmn. og ég vænti þess að það líði ekki á löngu áður en nefndin tekur afstöðu til þess máls. Það er hluti af því máli sem við erum í rauninni að fjalla hér um, að verja okkar umhverfi gegn geislamengun, tryggja að Ísland verði í reynd og íslenskt umhverfi mengunarlítið, mengunarlaust helst, og að við höldum uppi sem bestum orðstír í þessu efni. Það mun áreiðanlega margborga sig þegar tímar líða.