07.12.1987
Efri deild: 16. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1493 í B-deild Alþingistíðinda. (1095)

Frumvarp um stjórn fiskveiða

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Ég verð að lýsa svolítilli furðu á ósk hv. 4. þm. Vesturl. varðandi meðferð þessa máls. Ég veit ekki hvernig hann ætlast til að þessi umræða fari fram eigi hún alltaf að vera samfelld. Ég held að það hljóti að taka töluvert langan tíma að ræða þessi mál í þessari hv. deild, og ég held að óhjákvæmilegt sé, hvort sem okkur líkar það betur eða verr, að umræðan slitni eitthvað í sundur. Síðan veit hv. þm. það jafnvel og við öll hin að um þetta mál er auðvitað búið að fjalla mjög ítarlega á ýmsum vettvangi. Hann hefur sjálfur átt sæti í svokallaðri samráðsnefnd sem hefur haldið marga fundi og ég verð að segja það að hafi þingflokkur Alþb. ekki enn þá fjallað um þetta mál kemur það mér afar mikið á óvart. Ef það er notað nú til þess að tefja málið enn frekar að þingflokkur Alþb. þurfi að ræða málið sérstaklega kemur það mér afskaplega spánskt fyrir sjónir. Ég heyrði í fjölmiðlum um helgina að Alþb. væri nýbúið að gera miklar ályktanir um fiskveiðistefnu. Og ég held að það sé ekki nokkur leið, með nokkrum rökum, að fallast á þessar óskir. Ég held að öllum sé fyrir bestu að þessu máli sé flýtt og umræða um það hefjist nú í dag. En umræðunni þarf auðvitað ekki að ljúka í dag. Það þarf ekki að afgreiða málið til nefndar í dag. Og ég stóð satt að segja í þeirri meiningu að um það hefði verið gert óformlegt samkomulag að ósk stjórnarandstöðunnar. Ég átta mig því hreint ekki á þessum beiðnum. Þegar það er sagt að ekki megi ræða málið í dag vegna þess að það þurfi að ræða það í þingflokkunum finnst mér það satt best að segja alveg óskiljanlegt.