07.12.1987
Efri deild: 16. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1494 í B-deild Alþingistíðinda. (1097)

Frumvarp um stjórn fiskveiða

Júlíus Sólnes:

Herra forseti. Ég vil fyrir mitt leyti taka undir skoðun hv. 4. þm. Vesturl. um að þetta mál ber að með mjög óvenjulegum hætti. Það er rétt sem kom fram í máli hans að það er búið að eyða ómældum tíma í að vinna að frv. í Stjórnarráðinu og í sérstakri ráðgjafanefnd um mótun fiskveiðistefnu. Það var hins vegar ekki fyrr en á fimmtudaginn var og raunverulega ekki fyrr en á föstudaginn að frv. var lagt fram. Þá fyrst gafst þm. kostur á að fara að kynna sér efnisinnihald þess. Þá voru margir þm. farnir í helgarfrí og það er fyrst í morgun að þm. hafa komið saman til þess að ræða um sameiginlega afstöðu í þingflokkunum til þessa frv. Því hefði verið eðlilegra að leyfa þm. að ræða þetta á þingflokksfundum í eftirmiðdag og taka málið fyrst á dagskrá á morgun. Ég vil heils hugar taka undir orð hv. 4. þm. Vesturl. hvað þetta varðar.

Ég var á fundi rétt eftir hádegið með forsetum þings og þingflokksformönnum. Ég varð því miður að víkja af þeim fundi, þannig að ég vissi ekki hvernig málið var leitt til lykta þar. Það kann að vera að gert hafi verið samkomulag um að umræðunni skyldi ekki ljúka í dag, en mér kemur það spánskt fyrir sjónir að sjútvn. skuli engu að síður byrja að fjalla um frv. strax í fyrramálið. Ég tel að eðlilegast væri nú að fresta þessari umræðu til morguns og hefja hana þá sem fyrsta mál á dagskrá.