07.12.1987
Efri deild: 16. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1511 í B-deild Alþingistíðinda. (1100)

181. mál, stjórn fiskveiða

Skúli Alexandersson:

Herra forseti. Ég taldi mig hafa beðið um orðið fyrstan, en það kom athugasemd frá fulltrúa Kvennalistans um að verið gæti að form minnar óskar hefði kannski ekki verið alveg í það fullkomnasta. Forseti sagði mér að hann mundi veita mér orðið fyrstum á eftir ráðherra, en þegar ég hugsaði málið svolítið betur fannst mér sjálfsagt að verða við þeirri ósk fulltrúa Kvennalistans að vera á undan mér, ekki síst vegna þess, svo sem kom fram í máli fulltrúa Kvennalistans, að Kvennalistinn var eini stjórnarandstöðuflokkurinn á hv. Alþingi haustið 1985 sem studdi þá fiskveiðistefnu sem við höfum búið við og búum við til áramóta. Ég fagna því að það hafa orðið breytingar. Það eru komnar upp aðrar skoðanir hjá fulltrúum Kvennalistans og þær voru kynntar í ræðu hv. 6. þm. Vesturl.

Ég tel ástæðu til að taka undir gagnrýni hv. þm. um fréttaþjónustu í sambandi við fiskveiðimálin og ýmislegt fleira á hv. Alþingi. Það er mjög sérstakt hvað skoðun ráðherra er yfirleitt haldið vel fram og aðrir þm., stjórnarandstöðuþm. sem halda uppi gagnrýni á stefnu ríkisstjórnar og ráðherra, fá lítið að láta ljós sitt skína í fjölmiðlum. Ég held að það sé alveg ástæðulaust af hv. þm. að öfundast yfir því þó að í eitt sinn hafi komið fréttir frá Alþb. smávegis um fiskveiðistefnuna. Ég hef ekki orðið var við það á undanförnum árum að við höfum verið kallaðir til að fjalla um það mál, a.m.k. ekki hjá ríkisfjölmiðlunum. Ég hef verið á Alþingi og rætt þau mál í hvert skipti sem þau hafa komið hér til umræðu frá því haustið 1979 og ríkisfjölmiðlarnir hafa ekki séð ástæðu til þess allan tímann að spyrja mig einu orði um þær skoðanir sem ég hef á þessu máli þótt á sama tíma hafi í síbylju verið haldið fram skoðunum ráðuneytisins og skoðanir ráðuneytisins studdar sí og æ af álitsgerðum hinna og þessara aðila sem ráðuneytið hefur fengið sér til stuðnings til að styrkja afstöðuna gagnvart fiskveiðistjórnuninni. (KP: Þetta er nú að breytast.) Ja, það væri gott, hv. þm., ef þetta breyttist, en ég hef ekki mikla trú á því að þeir hressist mikið, a.m.k. ekki hjá ríkisfjölmiðlunum.

Einnig vil ég benda á að hv. 6. þm. Vesturl. nefndi það, það mun hafa verið eftir því sem ég tók best eftir úr grein hv. þm. Kristínar Halldórsdóttur, að aukning hefði orðið í fiskiflotanum á undanförnum árum og þó sérstaklega og mest í minnstu flokkunum. Hvaðan skyldi hv. þm. hafa fengið þessar upplýsingar? Ég held að fyrst þessi fullyrðing kemur strax fram í upphafi umræðu sé rétt að óska eftir því við hæstv. sjútvrh. að hann gefi sjávarútvegsnefndum þingsins um það upplýsingar hver þróunin hefur verið í stækkun fiskveiðiflotans. Hvað hefur mörgum skipum verið breytt úr venjulegum bátum í allt að því fullkomin trollskip og hvað má búast við að sóknargeta þessara skipa hafi aukist og hve mikið af nýjum skipum hefur komið inn í fiskveiðiflotann íslenska á síðustu við skulum segja tveimur árum? (Gripið fram í: Það er alltaf verið að lengja skipin.) Alltaf er verið að lengja skipin og alltaf verið að stækka þau. Það er lítið talað um það, en lon og don talað um að það fjölgi trillum, það fjölgi smábátum, þessi óskaplegi skaði, á sama tíma og flotinn hefur verið að stækka með ótrúlegum hraða. Við höfum heyrt það núna í fréttum, þegar hefur verið talað um gjaldeyrisstöðuna, að stór hluti af gjaldeyriseyðslu undanfarinna mánaða hefur farið til nýbyggingar og endurbyggingarskipa.

Einnig nefndi hv. þm. að meðferð fisks hefði batnað á undanförnum árum á þessu tímabili. Ég held að sé full ástæða til þess að efast um það. Það eru engar sannanir fyrir því að svo sé. Mín tilfinning er mikið frekar á þann veg að það hafi farið á hinn veginn. Kraftasóknin hefur verið næstum því ótakmörkuð, komið hefur verið með meira og minna gallaðan fisk að landi og því miður hefur hann skemmst í vinnslunni oft og tíðum. Ég vildi benda á þetta í upphafi umræðunnar til þess að við færum ekki af stað með fullyrðingar sem raunverulega ekkert liggur fyrir um og jafnvel fullyrðingar sem ekki standast eins og að mínu mati í sambandi við flotann.

Hv. þm. las upp tillögur Kvennalistans um nýja fiskveiðistefnu. Þessi stefna birtist í grein Kristínar Halldórsdóttur 17. nóv. og var líka dreift í þeim nefndum sem voru að vinna í undirbúningi að fiskveiðistefnunni á vegum ráðuneytisins. Það er alveg rétt sem þm. segir. Þessar tillögur hafa fengið litla umfjöllun. Ég segi fyrir mitt leyti, ég er ekki að tala þar og vil ekki lýsa því yfir í nafni Alþb., að mér finnast tillögurnar um seldan veiðikvóta alveg fráleitar og mér finnst miður að það skuli vera komin fram tillaga hér á hv. Alþingi um að selja skuli þessa náttúruauðlind okkar og nota hana sem tekjustofn til að standa undir ýmsum samfélagslegum þörfum. Við þurfum að fá annars staðar peninga til hafnargerða og til menntunar sjávarútvegsfólks og annarra þeirra góðu mála sem nefnd eru í tillögunum, við þurfum að fá þá annars staðar frá en þeir séu beinir skattar á landsbyggðina og þá aðra aðila sem eru að framleiða þessa undirstöðuframleiðsluvöru okkar. Ég vil því undirstrika að þær tillögur kvennalistakvenna sem hér koma fram eru í engum tengslum við tillögur þær sem Alþb. hefur lagt hér fram og ekki í neinum tengslum eða í einu eða neinu líkar þeim.

Herra forseti. Undirbúningur að því frv. sem hér liggur fyrir hefur verið, eða a.m.k. býst maður við því að svo sé, í gangi allar götur frá því 8. júlí sl., en þann dag sendi ríkisstjórnin frá sér stefnuyfirlýsingu sína og starfsáætlun. Í þeirri starfsáætlun stendur, með leyfi hæstv. forseta:

„Fiskveiðistefnan verði tekin til endurskoðunar og stefna mörkuð sem taki gildi þegar í upphafi næsta árs. Endurskoðunin verður falin sérstakri nefnd sem hafi samráð við helstu hagsmunaaðila í sjávarútvegi og fiskiðnaði, svo sem fulltrúa útgerðar, fiskvinnslu, sjómanna og fiskvinnslufólks, og sérfræðinga Hafrannsóknastofnunar. Nefndin mun m.a. taka afstöðu til eftirfarandi atriða:

Hvernig og hverjum veiðiheimildir skuli veittar. M.a. verði athugað hvort veiðiheimildir verði einvörðungu bundnar við skip. Hvernig taka megi meira tillit til byggðasjónarmiða við mótun fiskveiðistefnu, auka athafnafrelsi og svigrúm til endurnýjunar í sjávarútvegi. Hvers konar reglur skuli setja um færslu veiðiheimilda milli aðila. Hve lengi meginreglur um stjórn fiskveiða skuli gilda.

Aðrir mikilvægir þættir í sjávarútvegsstefnu ríkisstjórnarinnar eru:

Verðjöfnunarsjóður fiskiðnaðarins taki til alls útflutnings á fiski og fiskafurðum. Verðlagsráði sjávarútvegsins verði heimilað að gefa fiskverð frjálst með yfirnefndarákvörðunum náist ekki samkomulag í ráðinu. Undirbúnar verði reglur til frambúðar um starfsemi fiskmarkaða hér á landi til að leysa af hólmi þær sem nú eru og gilda til loka næsta árs. Rannsóknar- og þróunarstarf í sjávarútvegi, þar á meðal á sviði fiskeldis í og við sjó, verður aukið. Eftirlit hins opinbera með fyrirtækjum í sjávarútvegi verður einfaldað og samræmt.“

Ekki er það neitt lítið sem hæstv. ríkisstjórn ætlar sér fyrir á þessum vettvangi og hefði mátt gera ráð fyrir því að þar sem sami ráðherrann settist í ráðherrastól og var fyrir yrði hafist handa um að undirbúa stefnu í fiskveiðimálunum þar sem vitað var að fiskveiðistefnan gilti ekki nema til næstu áramóta. En svo var aldeilis ekki. Það var látið eiga sig að hreyfa þessu máli. Það getur verið að ráðherrarnir hafi eitthvað talað saman um málið, en það var látið eiga sig að hreyfa þessu máli á þeim vettvangi sem hér er lagt til þar til 2. september. Þá er sent út bréf til hagsmunaaðila og þingflokka með ósk um að tilnefndir yrðu menn í samráðsnefnd til að undirbúa væntanlegt frv. og koma með tillögur þar um, eins og þar stóð. Sú nefnd er kölluð saman og mun fyrsti fundur hennar hafa verið 16. september. Þetta var hraðinn við að undirbúa frv. sem hér liggur fyrir.

Það kom fljótt í ljós að í nefndinni voru dálitlar mismeiningar um að hverju skyldi stefna og kom meira að segja fljótlega fram í nefndinni að þeir ríkisstjórnarmenn sem þar sátu voru alls ekki sammála um hvernig skyldi vinna. Það liðu ekki margir dagar eða margir fundir, ég held að það hafi verið á öðrum fundinum, uns fulltrúi Alþfl. í samráðsnefndinni benti á að þessi nefnd væri ekki sú nefnd sem gæti komist að neinni niðurstöðu eða unnið í þessu máli, það þyrfti að búa til aðra nefnd. Það hefði alltaf verið meiningin. Upp á það sem síðar kemur fram í þessari umræðu er nauðsynlegt að muna eftir þeirri yfirlýsingu hv. 3. þm. Vesturl. að samráðsnefndin mundi ekki duga til að vinna að þessu máli og undirbúa það.

Hæstv. ráðherra varð við þessari ósk og eftir stuttan tíma skipaði hann aðra nefnd. — Það er kannski ekki hægt að segja eftir stuttan tíma. Það var ekki fyrr en 2. nóv. sem hann skipar þingmannanefnd til að ræða málið. Þá er málið fyrst komið í þann farveg sem ríkisstjórnarflokkarnir töldu að ætti að vera.

Það gerðist dálítið merkilegt í sambandi við skipun þeirrar nefndar og varð til þess að það kom aldrei neinn fulltrúi frá Borgarafl. í þá nefnd. Ráðherra taldi sig á því stigi hafa ástæðu til að takmarka ráð hvers flokks um hvaða menn skyldu settir í undirbúningsnefndina. Það var gert að skilyrði að það væru fulltrúar úr sjávarútvegsnefndum þingsins sem í nefndina kæmu. Þar af leiðandi birtist í þessari nefnd, þá fáu fundi sem hún sat, aldrei fulltrúi frá Borgarafl.

Það munu hafa verið ýmsar ástæður fyrir því að það var ekki byrjað að starfa, undirbúa og vinna samkvæmt fyrirheiti stjórnarsáttmálans fyrr en um miðjan september. Það vantaði dálítið til til þess að ráðuneytið gæti farið að leggja málin fyrir á þann veg sem það taldi æskilegast. Það hafði sett í gang á tímabilinu frá 8. júlí fram til 2. sept. könnun á því hvað þeir þættir, sem ráðuneytið taldi að hefðu tekist í þessari fiskveiðistefnu, hefðu gefið af sér og hvernig útkoman væri gagnvart þeim þáttum. Og það var ekki nóg með að þeir fengju hina vitrustu menn til að staðfesta og reikna út stöðuna í þessum þáttum, sem ráðuneytið hafði aðallega hampað að hefðu tekist í fiskveiðistefnunni, heldur var sóttur enn á ný til Noregs ágætur prófessor, sem hafði ekki komið hingað til Íslands, a.m.k. ekki í opinberum erindagerðum eða til að láta ljós sitt skína, síðan haustið 1985 að verið var að ræða um fiskveiðistefnuna á hv. Alþingi. Þá var talin nauðsyn að fá þennan prófessor, prófessor Rögnvald Hannesson frá Bergensháskóla held ég að ég fari rétt með, til þess að hafa áhrif á skoðanamyndun hér, gat ekki verið til annarra hluta, og nú, þegar aftur er farið að hreyfa þessu máli, var talin nauðsyn að fá þennan sama prófessor og láta hann flytja svipaðan fyrirlestur bæði við Háskólann og yfir okkur nefndarmönnum sem fjölluðum um þetta mál.

Það var ekki nóg með að við fengjum sæmilega góða kennslustund, við sem sátum í samráðsnefndinni og hlýddum á prófessorinn. Það var kominn tími til fyrir suma að hlusta á prófessor. Sumir hafa aldrei setið á háskólabekk og átt þess kost að njóta slíkra fræða og upplýsinga. En það var ekki nóg með að okkur væri boðið upp á þetta heldur fengum við líka, það sem er meginhluti þess plaggs sem dreift hefur verið til hv. þm., álitsgerðir frá Raunvísindastofnun Háskólans, Þjóðhagsstofnun og viðskiptadeild Háskólans. Allir þessir pappírar eru lofsöngur um ágæti þessa kerfis og það eru teknir út, eins og ég sagði áðan, þeir þættir sem ráðuneytið hefur talið að hafi að einhverju leyti sýnt sig að hafi komið vel út. Það er ekki reynt að kanna aðra þætti, jafnvel þá þætti sem hæstv. ráðherra nefndi í framsöguræðu sinni, vandræði í sambandi við verðþróun skipa, vandræði í sambandi við flutning kvóta á milli byggða, hvað það hafi kostað þetta og þetta byggðarlagið og hvað það hafi kostað þjóðina og hvað kraftasóknin hefur kostað þjóðina og annað eftir því. Nei, takk. Það var ekki það sem var eðlilegt að fjallað væri um og lagt hlutlægt mat á, heldur voru það aðeins þeir þættir sem ráðuneytið taldi sig geta bent á að að einhverju leyti hefðu sýnt árangur.

Það kom náttúrlega fljótt í ljós með starf samráðsnefndarinnar, þó það væri tilgreint í skipunarbréfinu að hún ætti að semja tillögur og skila áliti, að það var ekki flötur til þess. Ráðuneytisstjóri, sem var formaður nefndarinnar, lýsti því yfir á fundi nefndarinnar að hann sæi ekki þann möguleika að hægt væri að leysa þetta mál innan nefndarinnar á þann veg að hún skilaði tillögu. Og ég held að það hafi verið alveg rétt. Það var ekki hægt að búast við því að þarna yrði samkomulag og atkvæðagreiðsla innan þessarar nefndar var náttúrlega ekkert annað en grín vegna þess að þar voru ákveðnir hópar. Það hefði getað verið meiri hluti fyrir þessu þó að alls ekki hefði verið raunverulegur meiri hluti í þjóðfélaginu og ekki stuðningur hagsmunaaðila, eins og talað er um.

Útkoman var sú að viðraðar voru ýmsar skoðanir í þessari nefnd, en út úr nefndinni kom sáralítið. Það er vitaskuld ekki hægt að segja það að skoðanaskipti, eins og áttu sér stað í nefndinni, hafi ekki skilað einhverju. Vitaskuld skila þau einhverju, en það varð ekki til þess að hafa nein marktæk áhrif á uppbyggingu frumvarpsins. Það komu reyndar fram tillögur í nefndinni frá svokölluðum hagsmunaaðilum, bæði frá fulltrúa Verkamannasambands Íslands og Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna um það að breyta ætti kvótagerðinni, en það kom fljótt í ljós að fylgnin með þessari tillögu var sáralítil. Þeir sem höfðu lagt hana fram höfðu ekki útfært hana á þann veg að henni væri stillt upp sem möguleika. Um hana var spjallað aftur á bak og áfram, en henni var aldrei stillt upp sem raunverulegum kosti í staðinn fyrir beinan bátakvóta. Ég held að þetta hafi verið sú aðaltillaga sem þarna kom inn um einhverjar breytingar. Svo var heilmikið rætt um smábátana. Stór hluti funda fór í umræðu um það og nokkur umræða átti sér stað í sambandi við rækjuveiðina og umfjöllun um það hvernig haga skyldi stjórnun í rækjuveiðistofninn. Ekki skal ég gleyma því, og ég vil þakka fyrir það, að við fengum ágætis upplýsingar frá Hafrannsóknastofnun. Það er reyndar alltaf hinn góði skammtur í sambandi við þessar umræður að við fáum gagnmerkar og mjög góðar upplýsingar frá Hafrannsóknastofnun sem reyndar allir þm. fá líka með hinni ágætu skýrslu stofnunarinnar sem núna var miklu fyrr á ferð en áður hefur verið. Það er líka sjálfsagt að þakka fyrir það.

Ég held að rétt sá að fjalla næst lítillega um reynsluna af því kerfi sem við höfum búið við síðustu tvö árin — og reyndar fjögur — en fyrst og fremst er það að ræða um reynslu þess tímabils sem nú er að renna út. Það er nú svo að okkur var sagt, og við urðum öll sammála um það, að tilætlun fiskveiðistjórnar væri fyrst og fremst sú að við hagnýttum fiskistofna okkar á sem hagkvæmastan máta og forðuðum því að gengið sé á þessa stofna þannig að við séum ekki að skemma fyrir framtíðinni. Það er líka og verður að vera og á að vera markmið fiskveiðistefnu — og ráðherra hefur nefnt það, nefndi það hér haustið 1985 — að það þarf að stefna að auknum gæðum og ná hámarksverðmæti út úr aflanum. Við þurfum að stefna að hagkvæmum rekstri flotans okkar og alls sjávarútvegsgeirans. Hvernig skyldi þetta nú hafa tekist undir þeirri fiskveiðistjórn sem við höfum búið við?

Fyrsta atriðið sem ég nefndi, sóknin í fiskistofnana og þó sérstaklega þorskstofninn, hefur ekki farið svo sem lagt var til. Við stöndum frammi fyrir því í dag, og sjútvrh. hefur nefnt það og forsrh. hefur nefnt það í sambandi við efnahagsstöðu þjóðarinnar að við blasi, að við verðum að skerða sóknina í þorskinn um allt að 10%. Eftir þessa fiskveiðistjórn, sem hefur verið hælt og talin hinn besti kostur sem við getum valið, stöndum við frammi fyrir því að við höfum verið að skerða fiskstofninn á þann veg að við verðum að minnka sóknina, draga úr sókninni. Ef nokkuð getur undirstrikað það að hér hafi átt sér stað mistök í fiskveiðistjórn, þá er það þetta dæmi. Og ekki þarf meira til en það eitt til þess að fullyrða að sú fiskveiðistjórn, sem skilar af sér þannig árangri, hefur mistekist.

Það er gert ráð fyrir því að í ár verði heildarþorskaflinn upp undir 400 þús. tonn. Það var tillaga Hafrannsóknastofnunar að hann væri 300 þús. tonn, en tillaga ráðuneytisins 330 þús. tonn. Það er farið fram úr afla í ár um 100 þús. tonn, 70–100 þús. tonn eftir því við hvað er miðað. Það er ekki hægt að fullyrða það eða segja að við búum við eina eða neina fiskveiðistjórn þegar þannig fer. Og hvernig réttlætir ráðuneytið, hæstv. ráðherra, þessa stöðu? Hann segir að það sé vegna þess að þetta kerfi, sem hann og hans menn hafa byggt upp, sé svo sveigjanlegt. Það hafi verið svo mikil teygja og sveigjanleiki í því. En af hverju er þessi sveigjanleiki og teygja? Hún er vegna þess að þessi sami hæstv. ráðherra lagði það til hér haustið 1985 að breyta í stórum atriðum sinni fyrri stefnu og taldi það vera nauðsynlegt til að betrumbæta kerfið þá, þ.e. hann jók við sóknarmarkið, bætti inn möguleikum til þess að hægt væri að vinna sér inn nýjan rétt með sóknarmarki með því að það mátti sækja 20% umfram afla í sóknarmarki og 10% af því færðist sjálfkrafa yfir á aflamark. Og þar sem ekki var tekið mið af þessu í úthlutuninni varð þetta þess valdandi að sóknarþunginn hefur beinlínis aukist eftir þeim reglum sem ráðherra setti sjálfur. Inni í kerfinu sjálfu var þetta innbyggt og nú hefur ráðherra sagt að þetta sé ein mesta lagfæringin sem gerð er á kerfinu núna, þ.e. að breyta þessu aftur. Slík er nú stefnufestan. Við skulum hugsa okkur það að ráðherra hefði orðið að ósk sinni, þegar þetta var samþykkt hér 1985, að hafa kerfið bundið til fjögurra ára. Hann fékk þó ekki nema tvö ár. Þá hefði teygjan haldið áfram og teygjan hefði aukist ár frá ári. Við hefðum staðið frammi fyrir því núna að þau sóknarmarksskip, sem hafa aflað 20% umfram sitt sóknarmark, ættu rétt á því að bæta 10% við aflamark sitt eða sóknarmark, en vegna þess að lögin gilda ekki nema til áramóta í ár hefur ráðherra gripið það ráð að segja: Lögin eru ómark árið 1987. Þau gilda ekki nema til áramóta ársins 1987 og við tökum þennan rétt af mönnum. Þetta er vitaskuld hártoganlegt en ég tel að það hafi verið nauðvörn hjá ráðherra að gera þetta við þær aðstæður sem hann var sjálfur búinn skapa.

Ég hef trú á því að í upphafi árs 1987 hafi menn búist við því að menn væru að afla sér þessa réttar, að ef svipað kerfi væri við lýði á árinu 1988, þá mundu menn afla sér nýrrar reynslu. En yfir það er strikað. Nú er það sagt að einn af bestu punktunum í leiðréttingunum sé að hverfa að nokkru frá þessu sem var aðalatriðið 1985.

Það hefur verið mikið skeggrætt um stærð flotans. Ekki ætla ég að bera á móti því að flotinn er stór og við þetta kerfi verður að hafa mjög strangt eftirlit með því að hann stækki ekki. Ég undirstrika: Við þetta kerfi. Með þessu kraftakerfi sem við búum við, þar sem mönnum er leyft að sækja án nokkurrar raunverulegrar skipulagningar, bara með kraftinum, án nokkurs eftirlits um það hvernig farið er með fisk, hvernig komið er með hann að landi o.s.frv., þá er mjög nauðsynlegt að flotinn verði ekki stækkaður. Þá verða bara fleiri legudagarnir hjá þessu eða hinu skipinu og eins og sagt er, óhagkvæmur rekstur á þessum eða hinum staðnum. En við aðrar aðstæður og við aðra fiskveiðistjórn — og ég ætla ekki að fara að fjalla um það hér — tel ég að flotinn sé alls ekki of stór. Ef við færum öðruvísi að því að sækja aflann í sjóinn, ef við hyrfum frá þessari kraftasókn og legðum allt kapp á að koma með aukin gæði, betri fisk að landi, þá er þessi floti ekki of stór. Ef við féllum frá því að þessi sérstaki hópur, sjómennirnir okkar, og þessi sérstöku atvinnufyrirtæki, þessi sérstaka fjárfesting, fiskiskipin, þurfi endilega, þvert á öll önnur atvinnufyrirtæki, að vera í gangi allan ársins hring, megi helst aldrei stoppa einn einasta dag og á þessum skipum og í fiskvinnslunni sjálfri sé meira og minna haldið uppi atvinnuþunga sem samræmist ekki venjulegu menningarlífi, menningarþjóðfélagi. Þetta er annar þáttur sem ég gæti fjallað mikið um og geri það kannski einhvern tíma á öðrum vettvangi.

En í tengslum við sóknina hefur fleira gerst en það að dregin hafi verið að landi þessi mörgu tonn og þess umframtonn. Það hefur líka gerst að fiskurinn er alltaf að smækka. Núna fyrir nokkrum dögum landaði togari hér í Hafnarfirði og mig minnir að meðalþyngdin úr þeim farmi hafi verið um 11/2 kg. Það er ekki nóg með það að hægt sé að benda á dæmi um eitt og eitt skip sem komi með slíkan afla að landi, heldur er þetta því miður þannig að meðalþyngdin yfir árið er alltaf að lækka.

Jakob Jakobsson fiskifræðingur flutti þeim LÍÚ-mönnum ádrepu á þingi þess nú í haust þar sem hann sagði þeim að 130 millj. þorska, sem núna væri líklegt að yrðu drepnir, gæfu 380 þús. tonn. Sami fjöldi gaf af sér 538 þús. tonn árið 1955. Vera má að Jakob hafi tekið þarna tölu um afgerandi góðan stofn sem veiddur var 1955. Ég veit það ekki. En þetta er hrikaleg mynd. Það munar 158 þús. tonnum. Þetta er hrikaleg mynd og sýnir að hverju við stefnum. Hvað mundi gerast miðað við þann þorskstofn sem við eigum eftir í hafinu ef koma erfið ár, köld ár eins og árin 1981, 1982 og 1983? Hvað mundi gerast ef þorskstofninn hætti að stækka eins og þá gerðist? Hver væri staðan? Hún er hrikaleg og það er varla hægt að velta vöngum yfir því hvað gæti skeð. Og hvað er að gerast með þessu? Það er að gerast að smáfiskurinn, sem heldur sig að meginhluta til við norðausturströndina og út af Vestfjörðum. Hvaða svæði er það? Það er það svæði sem er viðkvæmast í sambandi við hitasveiflur og við getum því miður fengið á okkur slíkar sveiflur með litlum fyrirvara. Ef við værum með öðruvísi fisk, ættum dálítið af stærri fiski, sem vigtaði 5–8 og upp í 10 kg kannski, þá er nokkurn veginn vitað mál að sá fiskur væri á annarri slóð og þó að harðindi kæmu í hafið fyrir norðan, þá er ekki víst að það komi niður á öllum stofninum. Þannig að hættan á svona höggi er vitaskuld miklu minni og ekki ógnvænleg ef við byggjum stofninn upp.

Við erum búin að búa við þetta kerfi í fjögur ár. Í upphafi tímabilsins virtist sem við værum að byggja þorskstofninn upp og ég held að það hafi verið von flestra að innan jafnvel fjögurra, fimm ára stæðum við frammi fyrir því að veiðiþorskstofninn væri kominn í þá stöðu sem fiskifræðingar telja líklega að við getum veitt ar frá ári úr stofninum, þ.e. rúmlega 400 þús. tonn, 380 upp í 450 þús. tonn á ári hverju. En staðan er eins og ég sagði hér áðan, því miður, í mesta góðærinu bæði til lands og sjávar stöndum við frammi fyrir því að þessi stefna sjútvrh. og hans stuðningsmanna hefur orðið til þess að við horfum fram á það að við verðum að veiða minna á næsta ári en við gerðum í ár. Við erum að snúa til baka í einhverju mesta góðæri sem hefur komið við strendur landsins og við erum líka að ofveiða stofnana okkar í því mesta góðæri sem að öðru leyti hefur gengið yfir landið. Er það nú ríkisstjórn og er það nú fiskveiðistjórn sem þannig heldur á málum og skilar til næsta árs og næstu ára þannig lagaðri stöðu!

Virðulegi forseti. Ég ætla að reyna að stytta mál mitt þannig að fleiri komist að í umræðunni áður en fundi verður frestað. En ég á bæði eftir að fjalla nokkuð um frv. sjálft og einnig um brtt. okkar alþýðubandalagsmanna hér í hv. deild sem við höfum þegar lagt fram við 1. umr. málsins. Ætli ég verði ekki að velja mér þann kost að láta í nokkru verða eftir að ræða ýmsa þætti í frv. á annan máta en þann að ég ætla að nota þær mínútur sem ég hef til þess að fara yfir þær brtt. sem við flytjum. Þeim hefur verið dreift hér fjölrituðum til hv. þm.

Tillögurnar voru ræddar á miðstjórnarfundi Alþb. sem var um síðustu helgi og einnig á fiskveiðiráðstefnu sem við héldum og þær höfðu verið ræddar og undirbúnar og unnar í þingflokki okkar á undanförnum dögum og vikum. Þær eru fyrst og fremst breyting á því frv. sem hér liggur fyrir þó að þær séu í veigamiklum atriðum þannig að þær breyti grundvelli frv. Við tökum fyrir þætti og leggjum til að breytt verði þáttum eins og eignarrétti á kvótanum. Við leggjum til að því verði breytt að eignarréttur kvótans eða aflamarksins verði bundinn við skip, heldur verði ákveðinn hluti aflamarksins fluttur á byggðarlögin en síðan deilt út frá byggðarlögunum til skipanna þannig að veiðiréttur skipanna haldist óbreyttur. Þetta er að því leyti alveg grundvallaratriði að þá breytist það að hægt sé að selja skip og fá af því sérstakan gróða.

Ég fer þá yfir tillögur okkar. Þá er í fyrsta lagi að við ítrekum 1. gr. frv., útfærum hana nokkuð öðruvísi en hún er og við fögnum sérstaklega að þessi grein sé komin í frumvarpið, en stuðningsmenn þeirrar fiskveiðistefnu, sem við höfum búið við á undanförnum árum, létu sig hafa það í tvígang að fella svipaða tillögu fyrir okkur alþýðubandalagsmönnum. Þeir hafa sem sagt horfið frá villu síns vegar og við hljótum auðvitað að fagna því alveg sérstaklega.

1. gr. í okkar tillögum orðast þannig:

„Auðlindir innan fiskveiðilandhelgi Íslands eru þjóðareign, sameign allra Íslendinga. Öll stjórn á nýtingu þeirra skal taka mið af því. Markmið laga þessara er að stuðla að verndun og hagkvæmri nýtingu þessara sameiginlegu auðlinda og stuðla með því að traustri atvinnu og byggð í landinu.“

Þessi grein okkar er nokkuð meira útfærð en 1. gr. frv.

2. gr.: „Á eftir 4. gr. komi tvær nýjar greinar svohljóðandi:

a. (5. gr.) Veiðiheimildum á botnfiski, til fiskiskipa sem eru 10 brl. eða stærri, skal skipta í tvo flokka. 1/3 hluta skal úthluta til útgerðar (á skip, skipamark) og 2/3 hlutum til byggðarlaga (byggðarmark).

Sá þriðjungur, sem kemur í hlut skipa, skal reiknaður út með sama hætti og ákveðið var með reglugerð nr. 518 frá 22. des. 1986 fyrir árið 1987, sbr. 8. og 10. gr. laga þessara.“— Það er að segja að hluti skipanna verður reiknaður út frá sama grunni og ætlast er til í sambandi við frv. (Gripið fram í: Þetta er svolítið óljóst.) Nei, þetta er alveg hreint ef menn bera þetta saman við eldri plögg. En skiptingin sjálf er á þann veg, eins og ég sagði hér áður, að við leggjum til að 2/3 hlutum verði úthlutað til byggða en 1/3 hluta til skipa. Og það þýðir að ráðstöfun kvótans er ekki lengur fyrir hendi í sambandi við sölu á milli byggða.

Þá kemur að því hvernig hluti byggðarlaga skal reiknaður út.

„Hluti byggðarlaga skal reiknaður að 1/4 út frá úthlutuðu afla- og sóknarmarki skipa í byggðarlögunum eins og sú úthlutun var að meðaltali árin 1984–1986 og að 3/4 hlutum út frá úthlutuðu afla- og sóknarmarki skipa í byggðarlögunum í árslok 1987.“ — Þarna reynum við að taka aðeins mið af því að tilfærsla hefur átt sér stað á milli byggðarlaga. Með því að leggja saman árin 1984–1986 og nota það sem hluta af viðmiðuninni með árinu 1987, þá getur þarna færst frá þeim sem hafa aflað sér aukakvóta á undanförnum árum nokkur hluti aftur heim til þeirra sem hafa misst kvóta. Við teljum þetta vera mjög mikið réttlætismál. En vitaskuld er mjög erfitt að gera þarna nokkuð afgerandi, en aðeins er sýndur þarna litur sem gæti verið, miðað við það sem við höfum reiknað út, á bilinu svona 5–8% tilfærsla.

„Eftir að aflahluti byggðarlags hefur verið reiknaður út og ákveðinn skal honum deilt á milli þeirra skipa sem fá úthlutað skipamarki í því byggðarlagi, í hlutfalli við veiðiheimildir þeirra.“ — Eins og ég hef sagt áður.

„Við sölu skipa úr byggðarlagi fylgir þeim einungis sá aflahluti sem úthlutað var til útgerðar, skipamark. Þeim aflahluta, sem eftir verður í byggðarlagi við söluna, byggðarmarki, skal ráðstafa til að bæta upp afla skipa er keypt verða í byggðarlagið nái þær veiðiheimildir, er þau færa með sér, ekki meðaltali á því svæði eða til að auka veiðiheimildir skipa í byggðarlaginu samkvæmt nánari reglum er settar verði af sjávarútvegsráðuneytinu í samráði við sjávarútvegsnefndir Alþingis.“ — Þetta er grundvallaratriði að um leið og búið er að selja skip sé þessu ráðstafað á þann veg. Ef um nýtt skip er að ræða í staðinn fyrir það skip sem hefur verið selt nýtur það þess að fá af þeim kvóta sem eftir er það magn sem skapar því sambærilega stöðu og öðrum í byggðarlaginu og ef sá kostur er ekki fyrir hendi, og einnig ef um aukahlut er að ræða, þá skal honum deilt niður á aðila á heimavettvangi.

„Á sama hátt skal ráðuneytið setja sérstakar reglur um skiptingu aflahluta milli byggðarlaga ef seld eru skip sem hafa landað til vinnslu innan lands frá árinu 1984 að meðaltali meira en 40% afla síns utan heimabyggðar.“ — Þessi punktur er vegna þess að við vitum að það eru nokkuð mörg fiskiskip sem hafa verið gerð út frá öðrum stöðum en heimabyggð. Við getum t.d. bent á Grenivíkurbátana sem hafa líkast til verið í Garðinum. Það er ekki eðlilegt að sú útgerð, sem hefur verið undirstaða atvinnu á einum stað, að vegna skráningar skipanna á öðrum stað en ekki vegna þess að þau hafi verið þar atvinnutæki, þá flytjist sjálfkrafa allur kvóti þeirra til þess byggðarlags.

Og b. liður (6. gr.) hljóðar svo:

„Við úthlutun veiðiheimilda til skipa og byggðarlaga skv. 5. gr. er frá og með árinu 1989 heimilt að halda eftir allt að 5% þess afla helstu botnfisktegunda sem ákveðinn er skv. 2. gr. Skal þeim hluta þá ráðstafað sérstaklega í því skyni

a. að auka hlut þeirra byggðarlaga sem erfiðleikar steðja að,

b. til að opna möguleika fyrir nýja rekstraraðila í greininni,

c. til að reyna nýjar stjórnaraðferðir við fiskveiðar,

d. til annarra lagfæringa sem sérstakar ástæður mæla með í samræmi við reglur sem undirbúnar verða á árinu 1988 af sjávarútvegsraðherra í samráði við sjávarútvegsnefndir Alþingis.

Heimilt er að hækka það hlutfall, sem um getur í fyrri mgr., í allt að 10% ef aðstæður á næstu árum, að mati sjávarútvegsnefnda Alþingis og ráðherra, mæla með því.“

Hér erum við að leggja til að opnaðir verði möguleikar bæði til þess að lagfæra, ef einhver sérstök óhöpp verða, og færa til svo og líka að bjóða upp á möguleika þess sé brýn nauðsyn til þess að stofnsetja ný fyrirtæki í sjávarútvegi þá sé möguleiki til þess og svo að öðru leyti til þess að kanna aðrar stjórnaraðferðir á þessum vettvangi. Ég held að það sé mjög mikið atriði að teygjanleikinn í þessum málum sé frekar á þessu sviði en sá teygjanleiki sem ráðherrann mælti svo mjög stíft fyrir hér árið 1985 en hefur reyndar fallið frá og segir að sé hvað mestur ókostur stefnunnar hingað til.

Þá er það 3. gr.:

„Við 5. gr. (sem verður 7. gr.). Á eftir 4. mgr. komi ný mgr. og orðist svo:

Heimilt er að leggja sérstakt gjald, útflutningsgjald, á fisk sem fluttur er út óunninn og komi gjaldið þá að einhverju eða öllu leyti í stað þeirra álagsákvæða sem um getur í 4. mgr. þessarar greinar. Útflutningsgjaldið verði sérstaklega ákvarðað með hliðsjón af stefnu helstu viðskiptalanda okkar í tollamálum. Öllum tekjum af gjaldi þessu skal varið til aukinnar rannsókna- og þróunarstarfsemi á vegum rannsóknastofnana, fyrirtækja og samtaka innan sjávarútvegsins. Gjald þetta má mest nema 5% af söluandvirði ísfisks sem fluttur er út óunninn og verði lagt á, innheimt og ráðstafað samkvæmt sérstökum lögum þar um.“

Hér er um að ræða tillögu í stað þeirra tillagna sem eru í frv. um það að skerða beint aflakvóta þeirra skipa sem sigla með afla á erlendan markað eða fluttur er út í gámum. Við teljum miklu eðlilegra að þeirra leiða sé leitað að leggja á sérstakt útflutningsgjald til þessara hluta og jafna þar með ákveðið stöðu útgerðar og sjómanna og fiskvinnslu í landinu, með því að lagður sé skattur á útflutninginn á svipaðan máta og viðskiptalönd okkar leggja skatt á þann innflutning sem fluttur er frá fiskvinnslu okkar til þessara landa.

Um tillögur ráðherra er hægt að segja ýmislegt en ég held að gallar þeirra tillagna séu það miklir að mjög erfitt verði að framkvæma þær. T.d. vigtun og eftirlit verður ábyggilega mjög erfitt bæði frá fiskvinnslustöðvum þaðan sem meira og minna er flutt út í gámum og svo einnig, sem við getum ekki lokað augum fyrir, að markaðirnir taka sjálfsagt ákveðinn hluta af þeim afla sem að landi berst, og að í gegnum markaðina verður meira og minna flutt út ferskt. Hvernig í ósköpunum á að setja þær kvaðir á þá sem fara með fiskinn sinn á markað? „Ja, þú verður að búa þig undir það að þessi fiskur verði tekinn á þann veg að aflakvótinn þinn verði rýrður um þessi ákveðnu prósent.“ — Ég held að þetta sé erfitt. Okkar tillaga er miklu einfaldari. Auk þess er hún á þann veg að þar er verið að jafna stöðuna, beint peningalega stöðu, á milli vinnslu og sjómanna og útgerðar með því að leggja á útflutningsgjald beint til jöfnunar á móti þeim tollum sem lagðir eru á okkar framleiðsluvörur í viðskiptalöndunum.

4. gr. brtt. okkar hljóðar svo:

„Við 10. gr. (er verður 12. gr.). Greinin orðist svo:

Botnfiskveiðar báta minni en 10 brl. eru háðar eftirgreindum takmörkunum:" — Ég veit nú ekki í tímaskorti hvort ég á að fara að lesa þessa grein upp. Hún er öll tekin upp úr núverandi lögum. Við erum að standa undir stefnu hæstv. sjútvrh. frá fyrra tímabili. (Gripið fram í: Fyrri lögum. Gildandi lögum.) Gildandi lögum. Og við leggjum til að stefnan verði óbreytt. Við finnum engin sérstök rök fyrir því að eingöngu á þessum vettvangi þurfi að fara að breyta sérstaklega grundvelli stefnunnar. Stefnan er byggð upp af hæstv. sjútvrh. og hans stuðningsmönnum og hún var flutt hér og talin ágæt haustið 1985. Hvernig í ósköpunum stendur á því að þetta hefur breyst svona voðalega mikið á þessum árum? Ég get ekki skilið það. Og við föllumst ekki á þau rök að það þurfi að skerða sóknarmöguleika þessa fólks í landinu á meðan engu er breytt í stefnunni gagnvart öðrum.

Öll sú umræða sem ég nefndi hér áðan að verið hefði um það að smábátaflotinn sé að stækka — ekki er það trillukörlunum að kenna í sjálfu sér. Það var innbyggt í kerfið eins og ráðherra viðurkenndi hér áðan. Það er ekki hægt að hegna þeim mönnum sem hafa verið að byggja upp smábátaútgerð á undanförnum árum fyrir það að sjútvrh. leyfði þessa uppbyggingu. Það er af og frá að hægt sé að taka undir slíkar skoðanir. Og það er vitaskuld bara ranglæti ef á að ganga þannig fram í þessu máli vegna þess að uppbygging smábátanna er fyrst og fremst verk fiskveiðistefnunnar eins og ráðherrann sagði hér áðan. Þetta var eina leiðin fyrir þá sem höfðu áhuga fyrir því að skapa sér aðstöðu til að sækja fisk í sjó, utan við hreina og beina skömmtun, eina leiðin var að fá sér trillu. Ég held að það hafi fyrst og fremst átt sér stað núna síðustu mánuðina, ja, kannski síðasta missirið, að það hefur orðið mjög mikil aukning í þessu. Gæti verið kannski fyrst og fremst vegna þess að það var ógnað með því að það ætti að fara að stoppa þetta. Það ætti að fara að koma með bönn þarna. Það er oft og tíðum hægt að liðka til í ýmsum viðskiptum með því að segja það að núna standi til að fara að banna þetta eða hitt. Má ekki vera að sú mikla aukning, sem hefur orðið á smábátunum, hafi m.a. verið vegna þess?

Að tala um það, þegar aflinn fer fram úr áætlun fiskifræðinga um 100 þús. tonn og fram úr aflatillögu ráðuneytisins um kannski 70 þús. tonn, að þessi aukning hjá trillunum í því mesta góðæri sem yfir okkur hefur komið — ég held að menn séu alveg sammála um það að frá síðustu áramótum og fram á 7. des. hafi ekki önnur eins blíðviðri yfir okkur gengið og hagstæð tíð fyrir smábáta til að stunda sjó — að tala þá um að afli þessara smábáta verði kannski 40 þús. tonn. Og aukning frá síðasta ári, ég er nú bara því miður ekki með það. Ætli það séu ekki 10 þús. tonn hámarkið eða ekki það. Var aflinn ekki bara svipaður á árinu 1986 og hann líklega verður í ár? Svona er þessi hætta mikil og það á sérstaklega að taka þennan hóp og fara að breyta í grundvallaratriðum hans möguleikum. Ef það hefði nú verið að sturta öllu kerfinu til, þá gat það nú verið. Þá gátu verið rök fyrir því að þarna ætti að breyta. En það er ekki verið að gera með því frv. sem hér liggur fyrir.

Við leggjum til að settar verði hömlur á það að smáfiskibátum fjölgi. Þá kemur sjálfsagt að því að það verður að finna einhverja leið til þess að „kontrólera“ þetta vel. En annað eins hefur nú ráðuneytið tekið að sér að fylgjast með og stjórna og gefa út reglugerðir um. Að það sé ekki hægt að finna leið til þess að fylgjast með endurnýjun eða því að smábátum fjölgi ekki eru ekki frambærileg rök. Hitt er jafnvitað að það verður aldrei hægt á Íslandi að banna það að menn eignist smábát. Að menn eignist smábát til þess að skjótast fram fyrir landsteinana og fá sér í soðið, jafnt grásleppu sem þorsk, og fara á skyttirí. Það er náttúrlega alveg fráleitt. Við megum ekki láta finna fyrir því að þegar við erum að ræða um það að draga eitthvað úr fjölgun smáfiskibáta að við séum að fara inn á þann vettvang. Nóg er nú af bönnunum og stjórnuninni þó að það verði nú ekki tekið frá okkur að hinn íslenski borgari geti átt sér skektu til að fara á í sportróðra.

Við leggjum til að þau skip sem frysta afla sinn um borð skuli svo fljótt sem við verður komið koma fyrir nauðsynlegum búnaði til að fullnýta allan afla sem þau fá um borð með því að færa hann að landi eða vinna í meltu, mjöl eða frystingu eða með öðrum fullnægjandi hætti. Við erum að leggja til að verksmiðjutogararnir og önnur skip hætti að kasta þessum verðmætum og gefi sér tíma til að sinna því að koma með þessi verðmæti að landi, jafnvel þó að stundum sé ekki hægt að reikna út krónufjöldann sem það gefi í arð fyrir skipið. Slík verðmæti sem flutt eru að landi hljóta að gefa og munu alltaf gefa arð í þjóðarbúið.

Uppbygging verksmiðjutogaranna er kapítuli út af fyrir sig. Ef það fer að verða þannig að við byggjum upp fleiri og fleiri verksmiðjuskip og hættum að nota eyjuna okkar sem reglulega útgerðarstöð erum við meira og minna að hverfa frá því að hafa trú á því að landið okkar sé byggilegt. Fyrst og fremst er það byggilegt vegna þess að það er útgerðarstöð og nýtir þau mið sem eru í kringum landið og vinnur úr sjávarfangi í sjávarþorpum og byggðum hringinn í kringum landið.

Við leggjum til að lögin verði samþykkt eins og venjuleg lög, ekki með sólarlagsákvæði eins og lagt er til hjá ráðherra. Við leggjum til að þau taki gildi 1. jan. 1988 og það falli burt að þau gildi til 31. des. 1991 og úr fyrirsögninni falli brott 1988–1991.

Á lög sem þessi, sem við erum að samþykkja, fiskveiðistjórn, er komin nokkur reynsla og með tillögum okkar hér erum við að viðurkenna það með því að flytja brtt. við frv. að við ætlum að fella okkur við þessa stefnu í meginatriðum ef henni verður breytt á þann veg sem við leggjum til, aflakvótastefnunni. Við teljum að það hafi sýnt sig á síðustu tveimur árum að rangt sé að binda þetta í ákveðinn tíma. Ég nefndi áðan hvað hefði þurft að gera ef við hefðum verið með fjögurra ára tímabil núna bundið og með sóknarmarkið eins og það er í lögunum. Við hefðum orðið að taka þessi lög upp og breyta þeim. Hvað gátu þá þeir sagt sem höfðu búið sig undir að nýta þessi ákvæði laganna? Ég hef tilfinningu fyrir því að þeir hafi haft ákveðinn kröfurétt. Með því að binda þetta í ákveðinn tíma í fjögur ár erum við að búa til vandamál frekar en hitt. Þess vegna leggjum við til að lögin verði eins og hver önnur lög án nokkurra tímamarka og að það sé hægt að breyta lögunum hvenær sem er.

Það á að búa til nefnd sem á að endurskoða og fylgjast með framkvæmd þeirra, nefnd sem er nákvæmlega eins og nefndin sem ég var að lýsa hérna áðan, samráðsnefnd hagsmunaaðila, sömu nefndina og ráðuneytisstjóri lýsti yfir að ekki væri hægt að nota til að taka ákvörðun, svipaða nefnd og orðið hefur samkomulag um milli Alþfl. og sjútvrh. að sett skuli á laggirnar til þess að fylgjast með framkvæmdinni og koma með nýjar tillögur. (KP: Er hv. þm. viss um þetta?) Að kratarnir hafi verið með? Nei, það er ég ekki alveg viss um. Það er eitt af því sem þið teljið upp í Alþýðublaðinu að hafi verið hinn stóri vinningur við tillögugerðina. (KP: Já, já, ég hef séð þetta.)

Ég undirstrika að ég tel að gallarnir á fjögurra ára tímabili hljóti að vera miklir og það sé erfitt fyrir mann, sem byggir sig upp miðað við bundna fiskveiðistefnu í fjögur ár, að fá það svo yfir sig að ákveðnu tímabili liðnu að þessi stefna sé ómark. Það hlyti að verða ef eitthvað sérstakt kæmi upp, eins og t.d. þróunin með sóknarmarkið. Sama er um það að verði ríkisstjórnarskipti á þessu tímabili, sem gæti orðið, er allerfitt fyrir nýja ríkisstjórn að standa frammi fyrir því að það séu lög í landinu um fiskveiðistefnu sem eigi að gilda áfram innan þess tamabils sem sú ríkisstjórn sæti. Þetta er að mínu mati alveg fráleitt.

Ég nefndi aðeins áðan að einn af göllum þess kerfis sem við höfum búið við væri sá að verðmæti skipa hefði aukist, það hefði komið verðmætisauki með kvótanum. Við vitum dæmi um að skip hafa verið seld á allt að tvöföldu tryggingarmatsverði og er hægt að slá því föstu að verðgildi flotans hefur allt að því tvöfaldast með þeirri fiskveiðistefnu sem við búum við. Ég fór fram á það við Þjóðhagsstofnun að hún reiknaði fyrir mig hvað kæmi upp í sambandi við fjármagnskostnað ef við tækjum þessa stöðu inn í dæmið með útveg á Íslandi, ef við viðurkenndum þá staðreynd, sem hér er orðin, að verðgildi fiskiskipaflotans á Íslandi hafi tvöfaldast. Núna rétt áður en fundur var settur í hv. deild barst mér útreikningur Þjóðhagsstofnunar. Og hvernig skyldi hann vera og hvaða áhrif skyldi fiskveiðistefna hæstv. sjútvrh. hafa á rekstrargrundvöll útgerðarinnar? Hvernig skyldi útkoman vera og hvaða breyting skyldi eiga sér stað ef við tökum mið af þessu miðað við það sem hefur verið „presenterað“ fyrir þjóðinni á undanförnum dögum? Hún er á þann veg að miðað við það versnar afkoma botnfiskveiðanna um 12,8%, úr 3,5% hagnaði í 9,3% rekstrarhalla. Þetta er það sem hæstv. sjútvrh. segir að sé hagstæð uppbygging fyrir sjávarútveginn. — Ég var að upplýsa, ráðherra, um útreikninga Þjóðhagsstofnunar um áhrif verðmætisaukans á rekstursafkomu fiskveiðanna.

Þetta er staðan. Það var ekki minna. Enda vita allir að þegar tvöfaldast verðgildi atvinnufyrirtækisins hlýtur það að segja til sín. Sumir segja reyndar: Ja, það hefur ekki átt sér stað. Togararnir hjá Granda hafa ekkert hækkað í verði. Grandi er með þetta enn þá. — En ef Grandi setti málið einfaldlega upp svona: Við hljótum að reikna arð af þeirri fjárfestingu eins og söluverð hennar er. Á undanförnum missirum hafa verið í sölu skip og þetta hefur verið þannig. Gauturinn var nærri því 100% yfir tryggingamati og Dagstjarnan 120%. Þannig er staðan. Hver og einn sem er með slík verðmæti milli handanna hlýtur að gera það upp við sig: Á ég að selja eða á ég ekki að selja? Ef sá hinn sami ætlar að tryggja að hann verði með eðlilegan arð af því fjármagni sem hann hefur bundið í slíkri fjárfestingu hlýtur hann að reikna með því og verður að reikna með því. Annars er allt plat í þjóðfélaginu.

Það er að koma að því að fundartími sé búinn. Hér er að hefjast umræða um mikilsvert mal. Mér sýnist margt benda til þess að það verði lagst á, nú sem stundum áður, að umræðan verði sem minnst, að við reynum að flýta þessu máli í gegnum deildir og við reynum að flýta þessu máli í gegnum nefndir. Það gefur auga leið að við verðum að taka tillit til þeirra óska. Það er kominn 7. des. og við verðum að vera búin að afgreiða frv., hvernig sem það verður þá, áður en við förum í jólafrí. Ellegar þá að koma hingað á milli jóla og nýárs og ganga frá samþykkt þess. Þetta frv. verður að afgreiða fyrir áramót því annars verða mikil vandamál uppi ef ekki verður fyrir hendi fiskveiðistefna.

Það er fróðlegt að sjá að okkar stærsta blað, Morgunblaðið, hefur í leiðurum sínum að undanförnu, og núna síðast líkast til á fimmtudag eða föstudag, lagt höfuðáherslu á að enn gerist það ekki að þetta mál fari í gegnum hv. Alþingi án þess að það fái eðlilega umfjöllun og eðlilega umræðu. Það er ákveðin tilætlun í því, sem maður hefur heyrt sí og æ, að hagsmunaaðilar séu búnir að samþykkja þetta og samþykkja hitt og þar af leiðandi standi Alþingi frammi fyrir því að samþykkja þetta frv. nærri því sem gerðan hlut. Það er líka, eins og við höfum heyrt, sagt við okkur: Það er búið að afhenda ykkur þetta frv. fyrir löngu. Því hefur lítið verið breytt í meðförum nefndanna sem hafa verið að fjalla um frv. og þess vegna ættu hv. alþingismenn að vera tilbúnir að taka afstöðu til málsins. Ég held að þetta séu mestu öfugmæli. Alþingi á alveg eftir að fjalla um þetta mál, bæði hér í hv. deild og einnig í Nd., og við eigum og verðum að taka okkur dálítið góðan tíma til þess. Við eigum ekkert að hika við, ef á þarf að halda, að halda morgunfundi, og þá frekar morgunfundi en kvöldfundi, jafnvel ef mikið liggur við að fara svolítið fram á kvöldið. Ég skora á hv. þm. að fjalla um þetta mál núna og ræða það vel, setja sig inn í þá stöðu sem við stöndum frammi fyrir. Við stöndum frammi fyrir því að sú fiskveiðistefna sem við höfum búið við hefur meira og minna mistekist. Við erum reyndar að fara í gang enn með svipað kerfi, en ef við stöndum saman og vinnum vel þessa daga sem eftir eru getum við kannski lagað frv. á þann veg að það boði okkur betri tíð og betri fiskveiðistefnu en við höfum búið við undanfarin ár.