07.12.1987
Neðri deild: 18. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1526 í B-deild Alþingistíðinda. (1103)

54. mál, útflutningsleyfi

Frsm. 1. minni hl. fjh.- og viðskn. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Ég hef gefið út sérnefndarálit og langar til að gera þetta mál nokkuð að umræðuefni. Tilefni frv. um útflutningsleyfi og sömuleiðis næsta máls hér á dagskránni um Útflutningsráð Íslands er sú ákvörðun núv. ríkisstjórnar að flytja málefni varðandi útflutningsverslunina frá viðskrn. til utanrrn. Er eðlilegt að útgáfa útflutningsleyfa fari þangað ef fallist er á þá breytingu. Hins vegar hef ég verið mótfallinn þessari ráðstöfun og lýst yfir þeirri skoðun minni, áður en núv. ríkisstjórn var mynduð, að ég væri mótfallinn þessari breytingu.

Ég tel ástæðu til þess að gera nokkra grein fyrir þessari afstöðu minni.

Viðskrn. hefur í áratugi fjallað um utanríkisviðskipti í góðu samráði við sendiráðin og utanríkisráðuneytið. Það má segja að þeir sem til þekkja séu sammála um að starfsemi viðskrn. á þessu sviði hafi verið farsæl og árangursrík. Þessu til staðfestingar vísa ég til yfirlýsingar sem fulltrúar helstu útflutningssamtaka gáfu 26. október 1983 þegar stjórnsýslunefnd hafði lagt til að utanríkisviðskiptin yrðu lögð undir utanríkisráðuneytið og er sú yfirlýsing prentuð með nál. mínu.

Þessi yfirlýsing átti eflaust sinn þátt í að fallið var frá breytingum á verkaskiptingu á milli ráðuneyta í tíð fyrri ríkisstjórnar. Aftur á móti var svo samið um þessa breytingu, eins og ég sagði áðan, við myndun þeirrar ríkisstjórnar sem nú situr, enda þótt reglugerðin um breytingu á reglugerð nr. 96 frá 31. des. 1969, um Stjórnarráð Íslands, sem er dagsett 8. júlí á þessu ári, hafi verið gefin út af hæstv. þáv. forsrh., Steingrími Hermannssyni, og það þrátt fyrir yfirlýsta andstöðu tveggja ráðherra í þeirri ríkisstjórn sem malið varðaði sérstaklega, utanrrh. og viðskrh. Helsta skýringin sem hefur verið gefin á þessari ákvörðun er að með því móti mætti nýta utanríkisþjónustuna betur.

Þessi rök, um betri nýtingu sendiráða í þágu útflutnings- og markaðsmála, eru haldlítil og gefa til kynna að menn þekki ekki nógu vel hvernig hefur verið unnið að þessum málum í áratugi af viðskrn. í samstarfi við sendiráðin. Í viðskiptamálum og málefnum varðandi alþjóðaviðskipti og viðskipta- og efnahagsstofnanir, svo sem OECD, EFTA, GATT og Evrópubandalagið, hefur viðskrn. ætíð haft beint samband við viðkomandi íslenskt sendiráð en utanrrn. hefur fylgst með þeim samskiptum þar eð afrit af bréfum, skeytum og skýrslum sem farið hafa á milli ráðuneytisins og sendiráðanna hafa verið send utanrrn. Þannig hefur verið náið og gott samband milli þessara þriggja aðila og verður ekki annað sagt en að utanríkisþjónustan hafi verið vel nýtt eftir því sem starfskraftar hennar og aðstaða hafa leyft á hverjum tíma.

Ég vil sérstaklega benda á árangursríkt samstarf við sendiráðin í Genf og Brussel varðandi fríverslunarsamstarf EFTA og við Efnahagsbandalagið og þýðingarmikið hlutverk sendiráðsins í Moskvu í sambandi við viðskiptin við Sovétríkin. Sem fyrrv. viðskrh. er mér vel kunnugt um að sendiráðin hafa yfirleitt sýnt mikinn áhuga á að greiða fyrir íslenskum viðskiptum erlendis eftir því sem óskað hefur verið. En á það skal bent að sendiráðin íslensku eru ekki fær um að sinna markaðsmálum að neinu verulegu gagni, enda ekki til þess ætlast af útflytjendum. Í fyrsta lagi er starfslið sendiráðanna mjög fáliðað og eru flest sendiráðin aðeins með tvo embættismenn auk rifara. Þá hafa sendiráðsstarfsmenn ekki verið valdir með hliðsjón af reynslu og sérþekkingu þeirra á markaðsstarfsemi. Það er því að mínum dómi vanhugsað að ætlast til þess að sendiráðið taki að sér hlutverk markaðs- og sölustofnunar erlendis, en það hefur verið talin ein helsta ástæðan fyrir flutningi á utanríkisviðskiptunum til utanríkisráðuneytisins.

Á sl. ári samþykkti Alþingi frv. til laga um Útflutningsráð Íslands sem ég lagði fram og viðurkenndi þar með að markaðsstarfsemi erlendis skyldi fyrst og fremst vera unnin af sjálfstæðri stofnun sem hefði það hlutverk að efla útflutning á vörum og þjónustu með samstarfi stjórnvalda og útflytjenda. Útflutningsráð Íslands hefur nú starfað í rúmt ár. Það hefur skipað þrjá viðskiptafulltrúa sem starfa sjálfstætt undir stjórn Útflutningsráðs, en eru aðeins formlega tengdir sendiráðum. Áður hafa embættismenn starfað sem viðskiptafulltrúar við aðalræðismannsskrifstofuna í New York og sendiráðin í París og London. Með þessu nýja fyrirkomulagi er hins vegar annar háttur hafður á. Viðskiptafulltrúarnir eru lausráðnir til nokkurra ára í senn og heyra beint undir Útflutningsráð. Það er því ekki talið til fyrirstöðu fyrir árangri af starfsemi viðskiptafulltrúa að þeir starfi með sendiráðum en óháðir utanrrn. á sama hatt og viðskrn. hefur gert.

Í marga áratugi hafa viðskiptamál heyrt undir eitt ráðuneyti, viðskrn., og hafa starfsmenn þess lengi starfað að þessum málum og þannig fengið reynslu og þekkingu sem er ómetanleg. Hins vegar eru starfsmenn utanríkisþjónustunnar háðir flutningsskyldu og starfa því fá ár í senn í utanrrn. sem er tvímælalaust ókostur við afgreiðslu viðskiptamála. Samkvæmt reglugerðinni sem nú gildir fer viðskrn. áfram með verslun og viðskipti, önnur en útflutningsverslun, en utanrrn. fer með útflutningsverslun. Hér er stigið skref aftur á bak. Útflutningsverslun er aðeins einn þáttur viðskiptamála. Innflutningsverslunin, verslun innan lands, og yfirstjórn gjaldeyrismála eru einnig þýðingarmiklir þættir viðskiptamála. Þessir málaflokkar, ásamt bankamálum, heyra áfram undir viðskrn. Að mínum dómi eiga öll viðskiptamál, bæði út á við og inn á við, að vera undir sama ráðuneyti svo að hægt sé að tryggja heilsteypta stjórn viðskiptamála.

Þetta eru höfuðástæðurnar fyrir því að ég er andvígur þessari breytingu. Hins vegar er mér það ljóst að um þetta var samið af núverandi stjórnarflokkum, en ég tók þá strax fram í mínum flokki að ég væri andvígur þessari breytingu, svo að mínar skoðanir eru ekkert að koma fram nú um leið og þetta frv. er lagt fyrir.

Á fund fjh.- og viðskn. komu, eins og frsm. meiri hl. gat um, m.a. fulltrúar Félags ísi. stórkaupmanna sem gerðu nokkrar athugasemdir við frv. En það er fyrirkomulag á útflutningsleyfum sem þeir vilja gjarnan breyta og fara með á þann veg að þar sé um algjört frjálsræði að ræða. Í sjálfu sér er það eðlilegt sjónarmið hjá mönnum að þeir vilji hafa frjálsræði í þessum efnum eins og í innflutningi. En ég vil þá vekja athygli á því að frjálsræði í útflutningi og útflutningsleyfum hefur sífellt verið að aukast á liðnum árum. Það er mikið frjálsræði í sambandi við útflutningsleyfi á Evrópumarkaði, en aftur hefur meginhluti útflutningsins á frystum fiski verið háður leyfum og hefur verið veitt leyfi til tveggja fyrirtækja að verulegu leyti, Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna og Sambands ísl. samvinnufélaga. Á Evrópumarkaði má hins vegar segja að saltfiskútflytjandi sé aðallega einn, Sölusamband ísl. fiskframleiðenda.

Það eru uppi tvær skoðanir í þessum efnum. Annars vegar, á að vera algjört frelsi í útflutningi og á að leyfa hverjum og einum að flytja út þær vörur, eða eigum við að taka tillit til samstarfs sem útflytjendur eiga hér heima?

Það má segja að á sviði frysta fisksins sé samstarfið annars vegar frystihús innan Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna og hins vegar frystihús innan Sambands ísl. samvinnufélaga. Í saltfiskinum má segja að velflestir eða allir útflytjendur séu innan vébanda Sölusambands ísl. fiskframleiðenda og í síldarsölu og síldarsöltun er öll sú starfsemi undir stjórn Síldarútvegsnefndar. Hef ég ekki heyrt athugasemd frá neinum síldarútgerðarmanni, síldarsaltanda eða öðrum um annað en að það fyrirkomulag hafi reynst vel og það hafi verið til góðs fyrir íslenska síldarframleiðendur að hafa það á einni hendi.

Ef við lítum nánar á hvað þessi stóru samtök hafa gert að verkum til þess að byggja upp markaði hef ég fengið upplýsingar frá Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna þar sem segir að á fjögurra ára bili, 1984–1987, hafi samtals verið lagðar 260 millj. kr. í þá starfsemi að vinna að þróun afurða og vinnslutækni. Á verðlagi hvers árs námu þessi útgjöld 1984 31,6 millj. kr., 1985 51,2 millj. kr., 1986 56,9 millj. kr. og á þessu ári eru áætlaðar 65 millj. kr.

Kostnaður Coldwater Seafood Corporation við vörukynningar, þróun, auglýsingar og gæðastjórn hefur verið þessi á þessum sama tíma, í milljónum dollara: Árið 1984 3,7 millj., 1985 4,4 millj., 1986 4,9 millj. og áætlað er að hann verði á þessu ári 5 millj

Hjá Sambandi ísl. samvinnufélaga er sagt að þessi sömu útgjöld hafi verið á fjórum árum, í dollurum, sem hér segir: Árið 1984 1 millj. 736 þús. dollarar, 1985 2 millj. 842 þús. dollarar, 1986 3 millj. 257 þús. dollarar og á þessu ári er áætlað að þau verði 3 millj. 573 þús. dollarar.

En inni í þessum tölum öllum er að sjálfsögðu ekki beinn sölukostnaður. Hins vegar er þarna meðtalinn kostnaður við þróun nýrra afurða.

Í sambandi við gæðaeftirlit og vöruþróun hjá Sambandinu eru upphæðirnar miðað við verðlag hvers árs á þessu sama tímabili 22,6 millj. kr. 1984, 31,7 1985 og 1986 44,7 og áætlað að það verði 54 millj. kr. á þessu ári. Hvað snertir tölurnar frá Sambandinu eru þetta heildartölurnar í útflutningi, en það er áætlað af þeim að 96–98% af þessum kostnaði sé vegna frystra afurða.

Í upplýsingum þeim sem ég hef fengið frá Sölusambandi ísl. fiskframleiðenda segir að að meðaltali hafi SÍF á síðustu fimm árum fjárfest í sölu- og markaðsmálum upphæð sem nemur um 40 millj. kr. á ári á núvirði eða um 1 millj. dollara. Til viðbótar þessum upphæðum hefur SÍF fjárfest í rannsóknarverkefnum, rannsóknarstofum og ýmsum vöruþróunarverkefnum upphæð sem nemur um 20 millj. kr. á ári síðustu tvö ár svo að dæmi sé tekið.

Á síðasta ári tók stjórn SÍF þá ákvörðun að fjárfesta í vélum og tækjum til tilraunapökkunar á saltfiski og saltfiskafurðum í neytendapakkningar. Þessi tilraunaverksmiðja tók til starfa á miðju þessu ári. Væntanlegur útflutningur saltfisks í neytendapakkningum mun nema að verðmæti rúmlega 1 millj. dollara á þessu ári, þ.e. tilraunaframleiðsla þessara sex mánaða. Heildarfjárfesting SÍF í þessari tilraun einni mun nema um 40 millj. á árunum 1987 og 1988. Samhliða rannsóknar- og vöruþróunarverkefnum rekur SÍF gæðaeftirlit með ærnum kostnaði á ári hverju og er jafnframt ábyrgt fyrir ýmsum þjónustuverkefnum á vegum framleiðenda, svo sem að fylgjast með launasamningum, úttektum á bónusstöðlum, hringormanefnd og rekstri tæknideildar sem hefur frumkvæði að tæknilegum nýjungum í þróun saltfiskverslunar.

Í SÍF eru um 360 saltfiskframleiðendur og á árinu 1986 flutti SÍF út saltfisk fyrir um það bil 6 milljarða. Til fróðleiks má geta þess að á síðasta ári tapaði SÍF ekki einni einustu krónu í þessum viðskiptum þótt SÍF verði að öllu jöfnu fyrir skakkaföllum sem og önnur fyrirtæki í slíkum viðskiptum. Er þessi árangur nokkur vottur um þau traustu viðskiptasambönd sem þessi samtök hafa haft á síðustu 55 árum.

Ég rek þessar upplýsingar vegna þess að ég tel að þær eigi hér heima vegna þeirra athugasemda sem fram hafa komið. Þá er valið á milli þess að gefa allan útflutning frjálsan eða svo gott sem og þar með að eiga á hættu að þessi samtök útflytjenda liðist í sundur og þá spyr ég: Hver á þá að byggja upp markaðinn? Gera það einstaklingar sem eru að byrja í þessum útflutningi eða gera hinir það betur þar sem útflytjendur reyna að sameinast sem flestir á hverjum tíma? Hitt er annað mál að nauðsynlegt er að þessir stóru útflutningsaðilar hafi einhverja samkeppni. Ekki er því skynsamlegt að loka algjörlega fyrir alla aðra því að nauðsynlegt er að hafa einhverja viðmiðun. En það má ekki ganga svo langt að löggjafinn eða stjórnvöld vinni svo gegn þessum samtökum að kippt sé stoðum undan þeim. Þá hygg ég að við munum bíða margfalt meiri skaða ef breyting verður. En þessi málefni útflutningsatvinnuveganna verða eðlilega að vera í endurskoðun því að aldrei er svo fullkomlega frá hlutum gengið að það geti gengið í nokkur ár hvað þá heldur lengri tíma.