07.12.1987
Neðri deild: 18. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1544 í B-deild Alþingistíðinda. (1109)

54. mál, útflutningsleyfi

Dómsmálaráðherra (Jón Sigurðsson):

Herra forseti. Ég hef hlýtt með athygli á frsm. gera grein fyrir nefndarálitunum þremur og á umræðurnar sem á eftir fylgdu. Nefndarálitin og umræðurnar, sem hér hafa farið fram í dag, hafa staðfest það, sem reyndar lá í augum uppi, að þessi breyting orkar tvímælis á ýmsa lund. En ég vildi þó draga það fram sem er kjarni málsins að mínum dómi og svarar að nokkru þeirri spurningu sem fram kom hjá hv. 4. þm. Norðurl. e. þegar hann spyr: Hver eru meginrökin fyrir þessari tillögu? Meginrökin eru þessi: Það er með þessu frv. verið að leggja til — og þá á ég við í senn það frv. sem við nú ræðum og frv. um að færa Útflutningsráðið eða forræði þess til utanrrn. — að framkvæma þá meginreglu stjórnarráðslaganna frá 1969 að samstæð verkefni falli til eins og sama ráðuneytis, að því leyti að utanrrn. fer, að aðalreglu, með samninga Íslands við önnur lönd. Með þessari tillögu er aðallega verið að færa viðskiptasamninga Íslands við Evrópuríki, EFTA og Evrópubandalagið til utanrrn. vegna þess að það er á næstunni eitt mikilvægasta utanríkispólitískt verkefni Íslendinga að ná þarna góðum samningum, góðu samstarfi. Þetta er kjarni málsins eins og ég lít á það. En það má til sanns vegar færa að um þá breytingu, sem hér er rædd, að flytja veitingu útflutningsleyfa þarna með, megi deila og er enda gert eins og fram hefur komið í þessu máli. En ég vil líka leggja áherslu á það, eins og fram hefur komið í máli margra, bæði hv. 4. þm. Norðurl. e., hv. 17. þm. Reykv. og hv. 4. þm. Reykn., að það er mikilvægt að menn blandi ekki saman leyfisveitingunum og flutningi forræðis á þessari grein stjórnsýslu til utanrrn. Við eigum ekki að þessu sinni að taka upp umræður um efnisþátt málsins heldur eingöngu um stjórnarfarsþáttinn. Ég get, úr því að á hann er minnst, þ.e. efnisþáttinn, tekið undir mjög margt af því sem fram kom í ræðu hv. 17. þm. Reykv. og hv. 4. þm. Reykn. Það er vissulega þörf á því að auka frjálsræði í útflutningi þar sem því verður við komið og markaðsaðstæður erlendis leyfa, eins og reyndar er á stefnuskrá þeirrar ríkisstjórnar sem nú situr og eins og kom mjög glöggt fram í í 1. umr. um frv. sem hér liggur fyrir hv. þingdeild.

Ég vildi líka vekja athygli á því að það var mjög margt umhugsunarvert í því sem kom fram í máli hv. 1. þm. Vestf., hæstv. fyrrv. viðsk.- og samgrh., þegar hann rakti rök fyrir því að breyta ekki í verulegum greinum því skipulagi sem hér hefur ríkt. Ég tel að núna séu fyrir þessu frv. fyrst og fremst þau pólitísku rök að skrifstofa ráðherra, ráðuneytið, er starfstæki hans, og þar sem að eitt mikilvægasta utanríkispólitíska viðfangsefnið á næstunni eru samskiptin við þau Evrópulönd, sem við höfum gert við viðskiptasamninga, eiga þau samskipti að sjálfsögðu að vera á hendi þess manns sem ber ábyrgð á utanríkisstefnunni.

Að öðru leyti get ég tekið undir margt af því sem fram kom í máli hv. þm. sem hafa skilað minnihlutaálitum, að það þurfi að tryggja utanríkisviðskiptunum sem sjálfstæðasta stöðu. Þar er ekki neinn skoðanaágreiningur, að því er ég heyri, heldur eingöngu spurning um tíma og aðstæður. Menn skyldu ekki gleyma því að það sem við ræðum hér í dag er eingöngu fyrirkomulagsatriðið, það er stjórnaraðferðin, en ekki innihaldið eða inntakið í stjórnuninni. Það er erfitt og reyndar ástæðulaust að vísa til algildra meginreglna eða hugsjónamála þegar svona skrifstofufyrirkomulag er rætt. Einmitt á þeim forsendum tel ég að þetta frv. eigi að verða að lögum sem allra fyrst.