07.12.1987
Neðri deild: 18. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1547 í B-deild Alþingistíðinda. (1111)

54. mál, útflutningsleyfi

Óli Þ. Guðbjartsson:

Hæstv. forseti. Þessi umræða er fyrir margra hluta sakir nokkuð merkileg. Hér er á ferðinni mál sem er í rauninni stórmál, en þó er lögð á það nokkur áhersla að menn fjalli einungis um formið en ekki innihaldið, ekki efni þess. Ég er þeirrar skoðunar og ætla að leyfa mér að fjalla aðeins um innihaldið engu að síður. Ég tel að það skipti hér verulegu máli. Hvaða skoðun sem menn annars hafa á forminu eru menn þó alltént, ef þetta frv. verður samþykkt, að staðfesta þá sömu stefnu og verið hefur hvað innihaldið varðar.

Ég sagði að þetta væri stórmál. Það hefur víða komið fram í þessari umræðu og það er það frá mörgu sjónarhorni. Hér er verið að fjalla um mál sem tekur til mikils hluta þjóðartekna okkar og auðvitað skiptir verulegu máli hvernig á þeim hlutum er tekið. Í annan stað er líka verið að fjalla um nánast stjórnskipunarmál eða lög um Stjórnarráðið sjálft og það er í sjálfu sér ekkert smámál. Þess vegna held ég að almennt séð ætti það að vera meginregla að mál af slíku tagi bæri hér að með öðrum hætti en hefur orðið raunin.

Hvaða raka sem menn grípa til um samnýtingu og annað því um líkt fer það ekkert á milli mála að tilefnið til þessa málflutnings og þessa tillöguflutnings hér eru ákveðnar aðstæður sem skópust við myndun núverandi ríkisstjórnar. Það er kjarni þessa máls og ég held að það sé engin ástæða til að draga yfir það fjöður. Auðvitað er það þess vegna sem málið er rekið af nokkrum þjósti í gegnum þingið af álíka miklum krafti og aðrar veigamiklar ráðstafanir sem eru á döfinni.

En ég sagði að ég vildi gjarnan fjalla aðeins um efni málsins. Þar er um að ræða fyrst og fremst 1. gr. Ég er almennt þeirrar skoðunar að það eigi að vera svipað frjálsræði í útflutningsverslun og innflutningsverslun og það dylst engum að hvor tveggja þessara þátta skiptir þjóðarbú okkar miklu. Það segir í 1. gr. þessa stutta frv., með leyfi hæstv. forseta:

„Utanrrn. er heimilt að ákveða að ekki megi bjóða, selja né flytja vörur til útlanda nema að fengnu leyfi.“

Út af fyrir sig má segja að þarna sé frjálsræði staðfest í þessari löggjöf sem er í rauninni hér í gildi, að því undanskildu að þar er rætt náttúrlega um viðskrn. En það sem mér finnst skipta máli er það að utanrrn. eða viðskrn. eins og það er getur synjað um leyfi á þessum þýðingarmikla þætti án þess að taka á einn eða neinn hátt fram hvers vegna leyfinu er synjað.

Ég tel að snörp vinnubrögð, eins og hæstv. viðskrh. sýndi nýlega á þessum vettvangi, séu eftirbreytni verð. Það skiptir miklu máli, eins og hefur komið fram í umræðunni, viðhorf viðkomandi einstaklings sem með málaflokkinn fer. En mér finnst hins vegar skipta töluverðu að löggjöfinni, ef á að breyta henni, verði breytt á þann veg að í henni sé a.m.k. krafa um að það liggi fyrir rökstuddar ástæður sem knýi viðkomandi ráðuneyti til að veita ekki það leyfi sem hér er um að ræða, að það geti sem sagt ekki verið geðþóttaákvörðun ráðherra hvort leyfi er veitt eða ekki. Ég vil í rauninni ganga svo langt að synjun á slíku leyfi eigi ekki að geta orðið raunin nema almannaheill krefji.