07.12.1987
Neðri deild: 18. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1548 í B-deild Alþingistíðinda. (1112)

54. mál, útflutningsleyfi

Hreggviður Jónsson:

Hæstv. forseti. Hér liggur fyrir frv. til l. um útflutningsleyfi o.fl. Í þessum lögum er kveðið á um að það þurfi sérstakt leyfi til að flytja út vörur. Við í Borgarafl. erum alfarið á móti því. Við teljum að útflutningur eigi að vera frjáls. Það er þannig að ef mönnum er treystandi til að framleiða vöru á annað borð hljóta þeir að vera hæfir til að flytja vöruna út. Það er einnig svo að ef menn eru hæfir til að flytja vörur inn í landið liggur í augum uppi að þeir eru hæfir til að flytja vörur úr landi.

Í yfirgripsmiklu yfirliti sem hv. 1. þm. Vestf. flutti dró hann skýra mynd af því hvernig þessum málum er nú háttað í meginatriðum. Hann færði sín rök fyrir því að það megi ekki gefa útflutning alveg frjálsan, nefndi rök þar að lútandi. Allt er það gott svo langt sem það nær. Á sinni tíð þegar SH var sett á laggirnar og hafinn var útflutningur til Bandaríkjanna er ekki nokkur vafi á því að það var stórt framfaraspor og heillaspor fyrir útflutning á Íslandi. Í þann tíð voru ekki margir Íslendingar sem höfðu att við útflutning og voru lærðir á því sviði eða höfðu reynslu til að flytja út og versla með vörur á öðrum mörkuðum. Í dag er þessu allt öðruvísi farið. Við höfum útskrifað úr Háskóla Íslands fjölda hæfra manna á viðskiptasviðum sem hafa lært sérstaklega til þessara hluta og eru sérstaklega hæfir til að selja og koma vörum á markað erlendis. Við höfum líka marga mjög hæfa kaupmenn sem starfa mest að innflutningi vegna þess að þeir hafa ekki möguleika til að flytja út eins og vert væri. Við getum litið til þess að á undanförnum árum hefur þó útflutningur verið gefinn frjálsari í áföngum. Allt er það til bóta. Það er nokkuð ljóst að sú stefna hefur skilað okkur góðum árangri. Við höfum náð ágætri verslun við útlönd og skilað góðum gjaldeyristekjum inn í landið:

Það er líka ljóst að þótt útflutningur yrði gefinn frjáls mundi það ekki koma niður á stórum samtökum eins og SH, SÍS, SÍ F og Síldarútvegsnefnd því að það er auðvitað svo að stór sölusamtök eru ávallt sterk og geta staðið með meiri styrkleika að sínum málum. Þessir aðilar hafa einmitt haldið því fram að þeir hafi náð frábærum árangri með útflutning. Ég efast ekki um að þeir hafi gert það. Það er þess vegna nokkuð ljóst að það mun ekki valda þeim neinum truflunum í útflutningi. Hins vegar tel ég að það væri til bóta, bæði hvað varðar sjávarafurðir og landbúnaðarvörur, að litlir útflytjendur gætu flutt á sérhæfðari minni markaði því að það er svo að það er kornið sem fyllir mælinn. Ég tel að það sé nokkuð ljóst að með frjálsum útflutningi væri stigið stórt framfaraspor í okkar verslun og kannski lokaskrefið sem við byrjuðum að taka fyrir nokkrum árum.

Ég tek undir það sem hv. 17. þm. Reykv. sagði um þessi mál og tel mjög mikilvægt að útflutningur sé frjáls. En hér er raunverulega ekki verið að fjalla aðallega um frjálsan útflutning heldur um kerfisbreytingu til að flytja þennan málaflokk yfir í utanrrn. úr viðskrn.

Í máli manna hefur komið margt fram sem bendir til þess að þetta muni orka tvímælis, en það hefur líka komið margt fram sem bendir til þess að það sé til bóta. Það er svo að vafalaust er hér ekki um neinn sparnað að ræða, eins og hæstv. forsrh. kom réttilega að í sínu máli, heldur það sem menn hafa talið líklegt, að afl utanríkisþjónustunnar væri meira og meiri orka í henni til að sinna þessum málum en ef þessi málaflokkur heyrði áfram undir viðskrn. Það er því held ég til bóta að þessi málaflokkur sé fluttur sem slíkur undir utanrrn.

En þegar við lítum á að flytja skal einn málaflokk yfir í annað ráðuneyti er margt annað sem við verðum að huga að. Það er t.d. að við eigum vöruskipti við nokkur lönd og þá er það svo að innflutningurinn heyrir undir viðskrn. en útflutningurinn heyrir undir utanrrn. Og nú spyr ég: Væri ekki heppilegra að báðir þessir málaflokkar heyrðu þá undir annað hvort ráðuneytið? Hér er greinilega um það að ræða að erfitt getur verið að samræma málið.

Það eru líka ýmis rök sem benda til þess að viðskipti eigi ekki að falla undir utanrrn. Það hafa margir viljað halda því fram að það eigi ekki að blanda saman viðskiptum og utanríkismálum. Það getur oft orkað tvímælis, en þó hefur þetta verið gert margoft og sýnist sitt hverjum. Ég legg áherslu á að við eigum að stefna að því að gefa allan útflutninginn frjálsan. Það væri í raun mjög mikilvægt að við skoðum betur þennan flutning yfir í utanrrn. en gert hefur verið.

Það kom fram í máli hv. 4. þm. Norðurl. e. að samkvæmt umsögn helstu útflutningsaðila frá 1983 hafa þeir lagst gegn þessum flutningi. Þeirra afstaða liggur hins vegar ekki fyrir í dag, sem hefði verið mjög æskilegt. Má vel vera að þeir hafi breytt afstöðu sinni og fallist nú á að það sé hagkvæmt að láta þennan málaflokk heyra undir utanrrn.

Ég vil að öðru leyti ekki lengja mál mitt öllu meira, en tek að lokum skýrt fram að við í Borgarafl. munum flytja, annaðhvort í þessari deild eða Ed. nú eða þá síðar á þinginu, tillögu um að þessum lögum verði breytt þannig að útflutningur verði gefinn frjáls.