07.12.1987
Neðri deild: 18. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1550 í B-deild Alþingistíðinda. (1113)

54. mál, útflutningsleyfi

Frsm. meiri hl. fjh.- og viðskn. (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ég tel nauðsynlegt að það komi fram að þetta mál hefur ekki verið rekið með neinu ofríki eða með einum óeðlilegum hætti hér í þinginu. Þetta mál var rætt á mörgum fundum fjh.- og viðskn. og fékk þar mjög ítarlega meðferð. Við kvöddum á fund nefndarinnar hóp manna og ræddum málið við þá. Það lágu ekki fyrir veruleg andmæli gegn frv. og ekki gerðar mjög veigamiklar athugasemdir við það. Einn nefndarmanna óskaði eftir því að gestirnir beittu sér fyrir því að þeirra stofnanir sendu skrifleg svör þegar þeirra hentugleikar leyfðu. Það varð ekki úr því eða mér hafa ekki borist slík svör nema frá Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna og ég mun lesa það hér á eftir. Fulltrúar stórkaupmanna vildu vissar breytingar á frv. í frjálsræðisátt, eins og þeir sögðu, og einnig breytingu á sektarákvæðum frv. Aðrir gestir höfðu ekki uppi alvarleg andmæli.

Mér finnst að niðurstaða Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna sé ágætur þverskurður af því sjónarmiði sem þarna kom fram. Ég ætla að leyfa mér að lesa það, með leyfi forseta:

„Stjórn SH hefur borist frv. til l. um útflutningsleyfi o.fl. til umsagnar. Frv. leggur til að veiting útflutningsleyfa flytjist úr viðskrn. í utanrrn. og byggir það á ákvæði þar um í málefnasamningi ríkisstjórnarinnar. Á stjórnarfundi SH í dag var fjallað um málið og eftirfarandi samþykkt gerð:

„Undanfarna áratugi hefur viðskrn. gegnt farsælu forustuhlutverki í ýmsum veigamiklum atriðum í útflutningi sjávarafurða. Vill stjórnin sérstaklega nefna samninga við EB, bókun 6, og mikilvæga samninga við ríki Austur-Evrópu. Telji stjórnvöld hins vegar að þau geti með hagkvæmari hætti stuðlað að eflingu útflutnings og bættri skipulagningu með breytingunni sér stjórn SH ekki ástæðu til að gera skoðanaágreining um það og vonast eftir jafngóðu samstarfi við þá starfsmenn utanrrn., sem með útflutningsmálin munu fara, sem verið hefur við þá sem með þau hafa farið hingað til.“

Undir þetta ritar fyrir hönd Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna Jón Ingvarsson, formaður.

Ég tel að þau rök sem liggja að baki frv. eða mæla með samþykkt þessa frv. séu nægilega gild til að réttlæta þessa skipulagsbreytingu. Ég held að við séum að stíga spor í rétta átt með skipulagsbreytingunni og getum fengið skilvirkara og enn þá betra skipulag á okkar útflutningsmál með því að stíga þetta skref.

Ég sé ekki ástæðu til að fresta afgreiðslu málsins eða draga það meira á langinn né að lengja þessar umræður. Ég vek athygli á því að þetta er fyrsta mál sem hv. þingdeild tekur til 2. umr. á þessu þingi og er það ekki vonum fyrr því að núna er kominn 7. des. og tel ég að óhætt sé að ljúka þessari umræðu senn hvað líður.