08.12.1987
Efri deild: 17. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1556 í B-deild Alþingistíðinda. (1122)

181. mál, stjórn fiskveiða

Guðmundur H. Garðarsson:

Herra forseti. Hæstv. sjútvrh. hefur lagt fram í deildinni frv. til l. um stjórn fiskveiða 1988–1991. Hér er á ferðinni eitt viðamesta málið sem hv. Alþingi fær til meðferðar á yfirstandandi þingi. Núgildandi lög um stjórn fiskveiða renna út um næstu áramót og er því brýnt að tekin verði afstaða til þess fyrir þann tíma hvort nauðsynlegt sé að setja ný lög um fiskveiðar Íslendinga í íslenskri fiskveiðilögsögu með þeim hætti sem framlagt frv. gerir ráð fyrir eða ekki.

Með setningu laga um stjórn fiskveiða í desember 1983 var mörkuð sú stefna, sem gilt hefur svo til óbreytt síðan, að upp skyldi tekið kvótakerfi í veiðum. Var sú ákvörðun fyrst og fremst tekin á grundvelli mats fiskifræðinga um að helstu fiskistofnar á Íslandsmiðum væru komnir í hættu vegna ofveiði. Á sama tíma fjölgaði fiskiskipum, sérstaklega hátæknivæddum og afkastamiklum togurum, meira en góðu hófi gegndi. Á þessum tíma ríkti einnig mikil óvissa um stöðu og þróun loðnu- og síldarstofna.

Nú voru góð ráð því dýr. Ekki var um marga kosti að ræða í vondri stöðu. Átti að fækka skipum, þ.e. leggja ákveðnum hluta flotans, eða átti að taka upp kvótakerfi, þ.e. skömmtun á því hversu mikinn fisk mætti draga úr sjó og með hvaða hætti? Hér stóðu Íslendingar frammi fyrir áður lítt þekktu viðhorfi í sjávarútvegsmálum því þótt ákveðnar takmarkanir hefðu áður þekkst í útgerð og veiðum stóðu landsmenn nú í fyrsta skiptið frammi fyrir þeirri nöturlegu staðreynd að það varð að takmarka frelsi einna mestu atorkumanna íslensku þjóðarinnar til að sækja björg í bú úr greipum hafsins. Setja þurfti útgerðarmönnum og sjómönnum þröngar takmarkandi reglur varðandi athafnir þeirra í fiskveiðum samfara verulegum hömlum á möguleikum nýrra aðila til þátttöku í útgerð í nánustu framtíð.

Til þessa hafði svo til ótakmarkað athafnafrelsi ríkt í fiskveiðum Íslendinga. Af skiljanlegum ástæðum mætti því hugmyndin um kvótakerfi víða mikilli andstöðu þegar hún kom fram síðla árs 1983. Með lögum var verið að takmarka athafnafrelsið í mikilvægustu atvinnugrein landsmanna, atvinnugrein þar sem höfuðmáli skiptir að frelsi ríki til þess að framsæknir dugnaðarforkar fái notið sín við mjög erfiðar aðstæður.

Það gleymist því miður allt of oft í hita umræðunnar hversu mikillar hörku og áræðni það krefst að stunda fiskveiðar við Ísland. Á þessum slóðum eru veður oft válynd, vetrarhörkur og fárviðri gera veiðarnar oft erfiðar og hættulegar. Stundum þarf að tefla á tæpasta vaðið ef árangur á að nást og þrátt fyrir nýleg og góð fiskiskip útbúin fullkomnustu tækjum verður hættunni aldrei bægt fullkomlega frá.

Fiskveiðarnar eru áhætta bæði fyrir fiskimennina sem og útgerðina. Vinnuskilyrði eru erfið, hin erfiðustu sem þekkjast. Afkoman er ótrygg, háð veiðum og veðri því þrátt fyrir fullkomin tæki er aldrei unnt að ganga að fiskinum í sjónum sem sjálfsögðum og öruggum hlut frá degi til dags. Að halda öðru fram ber vott um vanþekkingu á fiskveiðum eða óstjórnlega óskhyggju um öryggi sem ekki er fyrir hendi í þessari atvinnugrein.

Nauðsynlegt er að hafa þetta í huga nú þegar rætt er um að takmarka aðgang aðila, útgerðarmanna og sjómanna, að fiskveiðum. Sérstaklega skal það gert með tilliti til þeirrar umræðu, sem virðist nú í tísku, þess efnis að þeir sem stunda þessa atvinnu, fiskveiðar, skuli greiða fyrir þær ákveðið gjald, gjald fyrir réttinn til fiskveiða. Í því sambandi er rétt að hafa hugfast að stór hluti heildartekna útgerðar eru launagreiðslur til sjómanna. Gjaldtaka fyrir það að fá að veiða undir ófrelsi og takmörkunum mundi koma harðast niður á sjómannastéttinni og stórlega rýra tekjumöguleika hennar í nútíð og framtíð. Slík kjararýrnun kæmi til viðbótar við þá skerðingu sem felst í kvótafyrirkomulaginu því að við hljótum að gera ráð fyrir að fullt frelsi til veiða mundi skila hærri hámarkstekjum ef fiskistofnar þyldu ótakmarkaðar veiðar.

Þetta skyldu menn hafa ríkt í huga, sérstaklega þeir sem sitja inni í hlýjunni og reikna sér og þjóðarbúinu tugi ef ekki hundruð millj. kr. tekjur í hugsanlegum kvótaskatti, skattlagningu á vinnu, atvinnustarfsemi sem byggist á mesta vinnustriti sem þekkist á Íslandi, en það eru fiskveiðar á erfiðustu fiskimiðum heimsins. Það er nóg að skammta útgerðar- og sjómönnum takmarkaðan veiðikvóta þótt þeir séu ekki einnig skattlagðir sérstaklega. Enginn biður þeim vægðar í því að þeir eins og aðrir þegnar greiði sömu skatta og hafi sömu skyldur í þeim efnum og aðrir Íslendingar í samræmi við heildartekjur. Það er sjálfsagður hlutur. En látum það aldrei henda að þessir útverðir á fyrsta og mikilvægasta stigi tekjumyndunar í þeirri atvinnugrein sem skilar mestum erlendum gjaldeyri verði með neikvæðri gjaldtöku flæmdir úr þessum mikilvægu störfum eða dregið úr athafnalöngun þeirra.

Það er auðvelt að setja lög og reglur. Það er auðvelt að búa til reiknilíkön, tölvurit, töflur og dæmi. Það er auðvelt að gera sér upp ímyndaða veröld. Tæknin, sjónvarpið, tölvurnar og jafnvel menntunin o.fl. þessu skylt, allt auðveldar það okkur að sjá umhverfið með þeim hætti að ákveðinn raunveruleiki hverfur eða réttara sagt verður ekki eins áþreifanlegur og ella. Fiskveiðar og sjómennska eru í vissum skilningi harður raunveruleiki fyrir þá sem taka þátt í útgerð og veiðum. Því miður gera allt of fáir Íslendingar sér grein fyrir þessu. Velgengni í nokkur ár má ekki villa mönnum sýn. Þetta er erfið og hættuleg starfsemi.

Mannlegi þátturinn skiptir miklu máli í umræðunni um stjórn fiskveiða. Þetta mál, þ.e. framkvæmdin, snertir ekki aðeins nokkur hundruð útgerðarmenn heldur þúsundir sjómanna sem eru í fremstu víglínu úti á miðunum sjálfum allt árið um kring. Sjómennirnir verða að búa við sættanlegar kringumstæður. Útgerðarmennirnir, framkvæmdaaðilarnir, verða að tryggja rétt þeirra og sjá til þess að starfsmenn búi við góða afkomu og rekstrarlegt öryggi. Fiskiðnaðurinn verður að fá efni, fisk í vinnslu. Þjóðin, Íslendingar, verður að fá miklar heildartekjur vegna útflutnings og vinnslu sjávarafurða. Skylda hv. Alþingis er að vega og meta aðstæður í ljósi þeirra staðreynda sem við blasa um ástand fiskistofna og nýtingu þeirra með tilliti til þjóðarhags í bráð og lengd. Okkur ber einnig að tryggja eins og kostur er að til starfa í útgerð og sjómennsku veljist hinir hæfustu menn sem duga í þeirri hörðu glímu sem fylgir þessum áhætturekstri. Kvóti eða skömmtun er ekki hvetjandi. Það eflir menn ekki til dáða.

Sjálfstfl. er flokkur athafnafrelsis og lítur því á það sem algera neyðarráðstöfun að þurfa að taka þátt í setningu laga sem fela í sér skerðingu á athafnafrelsi manna. En fyrir liggur að enn er talið nauðsynlegt að takmarka veiðarnar með tilliti til ástands fiskistofna. Óvefengjanleg rök liggja fyrir um þetta efni. Því hefur Sjálfstfl. fyrir sitt leyti mælt með því að þetta frv. til l. um stjórn fiskveiða 1988–1991 verði lagt fyrir hv. Alþingi til umræðu og afgreiðslu fyrir næstu áramót.

Athygli skal vakin á því að Sjálfstfl. leggur áherslu á að svo fljótt sem unnt er verði reynt að þróa sig út úr kvótakerfi í fiskveiðum og að athafnafrelsi fái notið sín á ný í sjávarútvegi. Í því felst besta tryggingin fyrir hámarksárangri í útgerð landsmanna.

Um einstök atriði frv. vil ég segja þetta:

1. Æskilegt hefði verið að kvótinn hefði getað verið rýmri, en því miður leyfir ástand fiskistofna það ekki.

2. Það hefði verið æskilegt að reyna að samræma betur veiðar og vinnslu en ráð er fyrir gert í þeirri fiskveiðistefnu sem birtist í þessu frv. En hér er um afar flókið og viðkvæmt atriði að ræða og fátt algilt um hið æskilegasta fyrirkomulag þessara mála. Hins vegar er augljóst að tryggja verður hag fiskvinnslunnar betur en verið hefur. Staðreynd er að fjölbreytt nýting aflans með þar af leiðandi markaðssetningu skilar þjóðarbúinu mestu í aðra hönd. Heildarafli Íslendinga er mikill og krefst það mikillar fyrirhyggju og framsýni að nýta þennan afla sem best. Lengri tíma sjónarmið verða að gilda í þessum efnum.

3. Gildistími laganna hefði þurft að vera styttri. Það er ríkjandi skoðun hjá mörgum, þar á meðal sjálfstæðismönnum, að hann þyrfti að vera styttri en ráð er fyrir gert í frv. Ástæðan er fyrst og fremst sú að við lítum á kvótafyrirkomulagið sem illa bráðabirgðaráðstöfun sem við verðum að komast út úr hið fyrsta. Með framlagningu frv. samþykkti þingflokkur Sjálfstfl. að það skyldi lagt fram m.a. á grundvelli þess sem segir í ákvæði til bráðabirgða um endurskoðun þessara mála og vísa ég sérstaklega til þess hluta er lýtur að endurskoðun, en í ákvæði til bráðabirgða segir, með leyfi forseta:

"Sjútvrh. skal skipa nefnd samkvæmt tilnefningu þingflokka og helstu hagsmunaaðila í sjávarútvegi til að undirbúa tillögur um fyrirkomulag fiskveiðistjórnar að loknum gildistíma laga þessara. Jafnframt skal nefndin móta tillögur um breytingar á lögum þessum á gildistíma þeirra eftir því sem tilefni verður til. Nefndin skal meðal annars kanna áhrif laganna á afkomu og hagkvæmni í sjávarútvegi og skynsamlega nýtingu fiskistofna. Einnig skal hún athuga tilhögun veiðiheimilda, m.a. heimilda sem ekki séu bundnar við skip. Nefndin skal hefja störf hið allra fyrsta og starfa á gildistíma laganna. Skal hún skila fyrsta áliti eigi síðar en haustið 1989.“

Þá segir enn fremur: "Sjútvrh. skal við lok hvers árs setja reglugerð um meginþætti stjórnar botnfiskveiða á komandi ári og hafa við það samráð við sjávarútvegsnefndir Alþingis og samtök helstu hagsmunaaðila í sjávarútvegi.“

Á þessu stigi mun ekki verða farið frekar út í einstakar greinar frv. Frv. mun fara að lokinni umræðu til sjútvn. Ed. og fá þar ítarlega umfjöllun og mun ég þar sem einn nefndarmanna fjalla ítarlegar um einstakar greinar.

Að lokum, herra forseti. Við lausn vandasamra mála er óhjákvæmilegt að leitað sé til hinna hæfustu manna um ráðgjöf og ábendingar er að gagni geta komið. Að sjálfsögðu ber að skoða hugmyndir manna með ákveðinni gagnrýni í huga. En góðar ráðleggingar byggðar á reynslu og þekkingu skaða aldrei. Við mótun fiskveiðistefnunnar hefur verið leitað til fulltrúa allra helstu aðila sem koma við sögu í útgerð, vinnslu og sölu sjávarafurða auk mikils fjölda opinberra sérfræðinga, svo sem fiskifræðinga, haffræðinga o.s.frv. Um hefur verið að ræða hina hæfustu menn hverja á sínu sviði í þessum efnum og að baki þeim standa þúsundir sjómanna, útgerðarmenn, framleiðendur, verkafólk o.s.frv.

Meirihlutaskoðun þessara aðila er að miðað við ríkjandi aðstæður sé óumflýjanlegt að halda stjórn fiskveiða áfram í samræmi við framlagt frv, til laga. Að sjálfsögðu eru hv. alþm. ekki bundnir af skoðunum sérfræðinga eða fulltrúa hagsmunahópa og eiga ekki að vera það. Hv. alþm. eiga að vega og meta efnisatriði og komast að niðurstöðu sem er þjóðinni í heild hagkvæmust. En fáar stéttir hafa reynst íslensku þjóðinni betur en sjómannastéttin. Þetta er ekki sagt til að mæla upp í eyru sjómannsins. Þetta er staðreynd sem oftar má halda á lofti, ekki hvað síst í sölum Alþingis. Íslenskir sjómenn leggja áherslu á að kvótakerfinu verði haldið áfram um sinn á grundvelli helstu atriða þessa frv. en þó með nokkrum athugasemdum. Við skulum treysta þessu mati. Sjómennirnir sem og útgerðarmenn eru nær þeim raunveruleika sem felst í framkvæmd fiskveiða á Íslandi en flestir aðrir Íslendingar. Að hafna skoðunum þeirra og fiskifræðinga um framkvæmd fiskveiðimála á Íslandi er afar vafasamt svo að ekki sé sterkar kveðið að orði.

Aðrir sem vilja koma við sögu þessa máls eru ekki í sömu nálægð við framkvæmd þessara mála. Það fólk sem ég vísaði til áðan eru hinir raunverulegu sérfræðingar Íslands í sjávarútvegsmálum. Þessir sérfræðingar skipta þúsundum og þeir eru dreifðir um allt land. Starf þessa fólks til sjós og í landi er raunveruleg byggðastefna í framkvæmd, starfsemi sem skapar verðmæti og skilar árangri og er forsenda velmegunar og blómlegs atvinnulífs.

Ég veit að hv. alþm. sem og ég virða störf þessa fólks og mat á því hvað er þjóðinni fyrir bestu í hagnýtingu fiskistofnanna á næstu árum við erfiðar aðstæður. Samkvæmt þessu munu ég og Sjálfstfl. vinna að framgangi þessa frv. þannig að þjóðin búi við festu og öryggi í sjávarútvegi á næstu árum. Með skynsamlegri stjórn fiskveiða tekst okkur væntanlega að byggja upp fiskistofnana að nýju og vinna okkur út úr kvótakerfinu. Frelsi verður að ríkja í sjávarútvegi hið fyrsta.