08.12.1987
Efri deild: 17. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1564 í B-deild Alþingistíðinda. (1124)

181. mál, stjórn fiskveiða

Júlíus Sólnes:

Herra forseti. Nú er röðin komin að okkur borgaraflokksmönnum að lýsa áliti okkar á því frv. sem hæstv. sjútvrh. hefur lagt fram um mörkun fiskveiðistefnu, kvótafrv. Ég geri ráð fyrir að marga fýsi þess að vita hver er okkar stefna og hvert er okkar álit á fiskveiðimálum þjóðarinnar. Í raun og veru er hún mjög skýr. Það kom bæði fram í kosningabaráttunni sl. vor og eins í þeim gögnum sem lágu fyrir eftir landsfundinn okkar í september. Við höfum dreift þeim og kynnt bæði í ráðgjafarnefnd um mótun fiskveiðistefnu, sem hefur haft með undirbúning frv. að gera í allt haust, og þeim var einnig dreift hér á hv. Alþingi fyrir um mánuði. Þar kemur mjög skýrt fram að Borgarafl. er algerlega á móti því skömmtunarkerfi sem hér hefur verið tekið upp undir ríkisforsjá. Ég held að ekkert lýsi betur þessu skömmtunarkerfi en þegar maður les frv. sem ráðherra hefur lagt fram og telur í frv. hve oft kemur fyrir „ráðherra ákveður“, „ráðherra er heimilt“, „ráðherra setur reglugerð“. Þetta kemur 20 sinnum fyrir í frv. Í raun hefði verið miklu einfaldara að setja lögin með þessum hætti: 1. gr.: Sjútvrh. er einráður um stjórn fiskveiða. 2. gr.: Þessi lög öðlast þegar gildi. Þetta hefði sparað okkur mikið málavafstur og þá vinnu sem hefur verið lögð í þetta frv. hæstv. ráðherra.

Þetta skömmtunarkerfi er nú búið að vera við lýði allar götur síðan áramótin 1983–1984. Og hver er forsaga málsins? Jú, forsagan er sú að það var talið að mikil ofveiði væri á botnfisktegundum, sérstaklega þorski, á árunum rétt á undan að kvótakerfið var tekið upp. Ef við rifjum upp hvernig ástandið var má minnast þess að frá því um miðjan áttunda áratuginn jókst þorskveiði hröðum skrefum og náði þorskveiði hámarki sínu í kringum 1981 þegar ársafli var kominn upp í u.þ.b. 460 000 tonn. Það er vissulega rétt að með kvótakerfinu tókst smám saman að draga niður þann mikla afla sem hafði verið á þorski, en engu að síður hefur algerlega mistekist að ná utan um stjórnun fiskveiða með kvótakerfinu þessi fjögur ár sem það hefur verið við lýði. Það er talið að á þessum fjórum árum sé nánast búið að veiða heilan árgang af þorski umfram það sem fiskifræðingar telja og hafa talið eðlilegt.

Skrapdagakerfið, sem var hér við lýði áður en kvótakerfið var formlega tekið í notkun áramótin 1983–1984, var mjög gagnrýni vert og að mörgu leyti voru á því ágallar. En ég tel, og það er stefna og skoðun Borgarafl., að skrapdagakerfið hafi haft marga ótvíræða kosti. Í ljósi reynslunnar getum við vel séð hvernig mætti haga stjórnun fiskveiða, byggðri á skrapdagakerfinu, með því að gera stýringu á fiskveiðunum miklu virkari en þá var. Við teljum að með því að gefa Hafrannsóknastofnun, fiskifræðingum í náinni samvinnu við útgerðarmenn og sjómenn, heimildir til að stýra fiskveiðum betur en gert var á dögum skrapdagakerfisins væri tiltölulega auðvelt að ná utan um heildarstjórnun fiskveiða. Ég tel að með því að beita ákvæðum um að loka veiðisvæðum þegar smáfiskagöngur gera vart við sig, hafa banndaga á sumrin þegar hrygningarstofninn er sem viðkvæmastur og stjórna þessu virkt og án ágreinings megi á miklu betri hátt stjórna fiskveiðum en með kvótakerfinu.

Næst skulum við aðeins velta fyrir okkur á hverju kvótakerfið var byggt þegar var verið að raða niður og ákveða hvernig ætti að deila kvótanum á milli skipa og milli landshluta. Viðmiðunarárin 1981–1983 voru þar lögð til grundvallar. Ég hef mikið velt því fyrir mér hvernig nokkrum dettur í hug að ætla að stjórna fiskveiðum Íslendinga byggt á þremur viðmiðunarárum þegar maður horfir til þess hve náttúra Íslands er fjölbreytileg og hvernig ástand bæði vegna veðurfars og sjávar og ótal annarra þátta er margbreytilegt á þessu landi.

Við skulum taka dæmi: Við skulum segja að það ætti að fara að taka upp kvóta á snjómokstur og síðan væru þrjú sl. ár notuð sem viðmiðunarár. Hvernig haldið þið að það færi þegar við fengjum svo þessa hefðbundnu íslensku vetur sem öllum eru í minni og allir þekkja? Hvað yrði þá um kvóta á snjómokstri sem væri byggður á síðustu þremur árum? Álíka er að tala um fiskveiðikvóta sem byggjast á þremur viðmiðunarárum. Ætli það væri ekki nær að kanna fiskveiðar Íslendinga í heila öld ef ætti að fara að taka upp skömmtunarkerfi fyrir fiskveiðar sem ætti að byggjast á því hvernig afli hefði verið tiltekinn árafjölda?

Viðmiðunarárin 1981–1983 voru t.d. mjög óhagstæð smábátum norðanlands vegna þess hve fiskur lá djúpt. Þau voru einnig mjög óhagstæð Sunnlendingum vegna þess að sunnlensk fiskiskip voru þá fyrst og fremst á karfa- og ufsaveiðum sem stafaði af því að verðbætur á karfa og ufsa gerðu slíkar veiðar hagstæðar.

Hér á árum áður var þorskveiði fyrst og fremst hér sunnanlands. Þegar fiskurinn var orðinn kynþroska leitaði hann til Suðurlands og Suðvesturlands. Á vertíðum á Suðurlandi og Suðvesturlandi var fyrst og fremst veiddur þorskur. Sú ofveiði sem var á þorski seinni hluta áttunda áratugarins og fram yfir 1982–1983, þó svo ég haldi því ekki fram að það hafi ekki verið ofveiði á þorski allt tímabilið fram til dagsins í dag, hefur valdið því að kynþroska fiskur veiðist í miklum mun minna mæli á Suður- og Suðvesturlandi en gerðist á árum áður. Í dag er sótt í ungfiskinn sem liggur út af Vestfjörðum og Norðurlandi. Þetta eru aðalrökin fyrir því — af því að vegna ofveiðinnar hafði veiðst hlutfallslega miklu meiri þorskur á norðurmiðum og miðunum út af Vestfjörðum — að sett var svokölluð norður-suðurlína, að landinu var skipt í tvö fiskveiðisvæði og togskipum norðan þeirrar línu var gefinn meiri þorskveiðikvóti en togurum sunnan línunnar.

Þetta er eitt af því sem hefur valdið hvað mestum deilum í kvótakerfinu því að þetta hefur haft bein áhrif á verð fiskiskipa. Útgerðarmenn á norðursvæðinu hafa getað keypt fiskiskip af suðursvæðinu og nánast greitt þau með þeim umframkvóta sem skipið fær sjálfkrafa við að fara norður fyrir línuna. Þetta er einn af mörgum agnúum sem eru í núverandi kvótakerfi. Það má í raun og veru segja um kvótakerfið að það líkist höfði Medúsu. Í hvert skipti sem eitt vandamálið er höggvið burt koma upp þrjú vandamál í staðinn.

Með því að koma sér út úr þessu kvótakerfi og velta fyrir sér leiðum til að bæta gamla skrapdagakerfið, sem við teljum að gefi miklu hagstæðari stjórn á fiskveiðum en skömmtunarkerfið sem við búum við nú, mætti leysa margan vandann. Það mundi m.a. leysa deiluna milli útgerðarmanna norðan og sunnan línunnar. Það mundi koma í veg fyrir að bátar gangi kaupum og sölum á tvöföldu tryggingarverðmæti. Fyrst og fremst mundi það þó á nýjan leik opna þessa atvinnugrein þannig að einhver endurnýjun geti átt sér þar stað. Eins og málin standa er búið að verulegu leyti að fá ákveðnum hagsmunaaðilum í hendur umráðarétt yfir allri veiði botnfiskstegunda við Ísland og engir aðrir komast þar að. Það verður engin endurnýjun í þessari stétt lengur.

Ég vil taka heils hugar undir með hv. 14. þm. Reykv. að við eigum þeim duglegu mönnum sem hafa dregið fisk úr sjó í gegnum aldirnar mikið að þakka. Það er á herðum þeirra sem þetta þjóðfélag í raun og veru stendur og hefur alltaf gert. En hvernig ætlum við þá að fara að ef ungir dugnaðarmenn, sem vilja hasla sér völl í útgerð, komast hvergi að? Þeir koma alls staðar að lokuðum dyrum. Þeir hafa engan kvóta. Og þeir ráða ekki við að kaupa gömul fiskiskip með kvóta á uppsprengdu verði. Þetta er eitt af þeim mörgu vandamálum sem kvótakerfið hefur leitt af sér og sem gerir það að verkum að við verðum að taka höndum saman um að koma okkur út úr þessari vitleysu.

Við höfum kynnt okkur möguleika á að endurbæta skrapdagakerfið, eins og ég gat um áðan, og við viljum byggja það á því að hagsmunaaðilar, í nánu samráði við fiskifræðinga og Hafrannsóknastofnun, velti því betur fyrir sér með hvaða hætti stjórnun fiskveiða geti best farið fram. Ég er á því að flestir útgerðarmenn og sjómenn séu skilningsríkir þegar rætt er um að það þurfi að friða svæði þar sem er mikið af ungfiski. Þeir hafa einnig fullan skilning á því að það þurfi að banna fiskveiðar á sumrin þegar hrygningarstofninn er hvað viðkvæmastur. Ég er ekki í nokkrum vafa um að það er auðvelt að ná utan um þetta vandamál með því að hafa náið og gott samráð milli þessara aðila. Þetta eru þeir aðilar sem best þekkja til fiskveiða hér á landi. Við eigum að fela þeim stjórnunina með þessum hætti en ekki með þeim hætti, sem segir í frv. til laga um fiskveiðistefnu, að ráðherra ákveði, ráðherra heimili, ráðherra setji reglugerð.

Með því að vera með heildaraflakvóta og stýra fiskveiðunum, eins og ég gat um, með bannaðgerðum í samráði við viðkomandi aðila ætti að vera hægt að leysa ótalmörg vandamál. Það er auðveldara að fækka skipum, því þegar útgerðarmenn fá frjálsa sókn innan þessa ramma, sem ég lýsi hér, er mjög eðlilegt að það sé gert á þann hátt sem hagkvæmastur er. Það kann vel að vera að útgerð sem rekur fimm fiskiskip vegna þess að þau hafa kvóta geti náð sama afla með þremur fiskiskipum með því að beita þeirri tækni sem nú er komin til sögunnar í sambandi við fiskiskip og útgerð þeirra. Þá væri hægt að hugsa sér að þessu heildaraflamarki væri skipt niður, t.d. á ársfjórðunga, þannig að stýringin væri auðveldari. Einnig væri hægt að hugsa sér að lokanir á svæðum færu eftir landshlutum hverju sinni. En þetta þarf að gera í mjög nánu samráði við þá aðila sem málið er skyldast.

Ég vil aðeins koma inn á hugmynd um úreldingarsjóð. Eins og málin standa nú getur enginn hætt veiðum. Að vísu geta menn selt skip og kvóta, það er eflaust hægt, en í hinu kerfinu er spurningin hvernig á að hjálpa, við skulum segja eldri útgerðarmönnum, sem vilja hætta útgerð og leggja skipum sínum. Ég held að við séum öll sammála um að fiskiskipaflotinn er of stör. Það þarf að fylgjast náið með því með hvaða hætti væri hægt að fækka fiskiskipum. Það var áður fyrr til Úreldingarsjóður fiskiskipa. Ég held að það ætti að taka hann upp aftur og fara inn á að úrelda fiskiskip með því að greiða mönnum styrk til að leggja skipum.

Þá langar mig aðeins að fara inn á siglingaskattinn. Í þeim fiskveiðilögum sem voru í gildi og eru í gildi fram til áramóta er 10% siglingaskattur lagður á afla sem siglt er með og seldur á erlendum mörkuðum. Ég held að útgerðarmenn séu sæmilega sáttir við þennan skatt vegna þess að þetta er ekki meira en það sem fiskurinn rýrnar um á leiðinni. Ég held að menn séu yfirleitt sammála um að það megi reikna með því að fiskur sem siglt er með rýrni u.þ.b. 10% á leiðinni.

Meiri skattur á afla sem siglt er með er hins vegar óskiljanlegur vegna þess að ég fæ ekki séð hvernig hann t.d. gagnar fiskverkendum. Fiskverkendur, sem í flestum tilvikum, a.m.k. víða úti á landsbyggðinni, eru um leið útgerðaraðilar, fá aflatoppa sem þeir ráða ekki við að verka sjálfir. Þeim er þá þar með refsað fyrir að taka aflatoppinn og sigla með hann. Við skulum t.d. segja að það veiðist mikið magn af kola. Koli er mjög erfiður fiskur í verkun, óhagkvæmur í verkun, en hins vegar mjög verðmætur til útflutnings sem ferskur fiskur á mörkuðum erlendis og hægt að fá mjög hátt verð fyrir kola. Spurt er hvort hér sé verið að setja meiri skatt á afla sem siglt er með í þeirri von að það geti drepið fiskmarkaðina. Það er eins og það vakni hjá manni sá grunur að stærstu hagsmunaaðilar fiskverkenda, sem flytja út frosinn fisk, á t.d. Bandaríkjamarkað, hafi átt þátt í þessum hugmyndum í þeirri von og trú að það gæti e.t.v. eyðilagt fiskmarkaðina. Ég set þetta upp sem spurningu. Það er ekki gott að segja til um það.

Þá væri fróðlegt að vita hvort þetta útflutningsgjald, þessi siglingaskattur, sé í trássi við þá viðskiptasamninga sem við höfum gert við Fríverslunarbandalag Evrópu og Efnahagsbandalagið? Mér er ekki kunnugt um það, en ég vildi gjarnan fá svör ráðherrans við því hvort þetta brjóti í einhverju í bága við þá viðskiptasamninga sem við höfum við Fríverslunarbandalagið og Efnahagsbandalagið.

Smábátaeigendur hafa haft miklar áhyggjur af þeirri stefnu sem nú er verið að taka með frv. til laga um nýja fiskveiðistefnu. Undir þeim lögum sem eru nú í gildi hafa smábátaeigendur haft visst frjálsræði til útgerðar fyrir báta sem eru innan við 10 tonn á þyngd eða 10 rúmlestir. Þetta er öllum kunnugt. En það er eins og þetta hafi farið mjög fyrir brjóstið á skömmtunarstjórunum og nú á að reyna að gera út af við smábátaeigendurna, koma þeim fyrir kattarnef. Að vísu er ekki í því frv. til laga, sem hér hefur verið lagt fram, kveðið á um ákveðna kvóta til handa smábátum eins og var í frumvarpsdrögunum. Var það þó að vísu ekki sérlega björgulegt sem átti að skammta bátum sem voru 6 brúttólestir og stærri og sömuleiðis bátum undir 6 brúttólestum. Ég ætla ekki að rekja hvernig það var í frumvarpsdrögunum. En ég veit ekki hvort smábátaeigendur eru hressari með að í 10. gr. eins og hún er nú orðuð í frv. á ráðherra nánast að skammta þetta eftir eigin höfði þannig að þeir koma nú til með að eiga allt sitt undir því í hvaða skapi ráðherrann er þann daginn sem hann ætlar að fara að skammta smábátaeigendum kvóta. Ef hann hefur farið illa út úr rúminu þann morguninn býð ég ekki í framtíð smábátaeigenda.

Við munum því leggja til, þm. Borgarafl., vegna þess að við gerum okkur grein fyrir því að við munum ekki fá samþykkt hér á Alþingi brtt. þess efnis að kvótakerfinu verði alfarið hafnað, að greinin sem varðar botnfiskveiðar báta minni en 10 brúttólestir skuli vera eins og hún er í núgildandi lögum með þeirri breytingu þó að við föllumst á það með fulltrúum smábátaeigenda að rétt sé að taka upp þá takmörkun að ekki verði smíðaðir fleiri nýir bátar undir 10 tonnum nema bátur sé úreldur á móti.

Varðandi gildistíma laganna get ég tekið undir með þeim hv. þm. sem hafa talað á undan mér. Að ætla að binda þetta skömmtunarkerfi, þetta Medúsuhöfuð, til fjögurra ára er alveg fráleitt. Við teljum kappnóg að þessi lög hafi gildistíma eitt ár og að tíminn verði síðan notaður, árið 1988, til að vinna nú og taka á eins og menn við að reyna að koma okkur út úr þessum ófögnuði í eitt skipti fyrir öll.

Fiskistofnarnir í sjónum í kringum Ísland eru auðlind sem við eigum öll, allt fólkið í landinu, og því varðar okkur öll um það með hvaða hætti þessi auðlind er nýtt. Það er ekkert einkamál tiltölulega fárra hagsmunaaðila og ráðherrans að ráðskast með þetta eins og þeim þóknast. Við höfum öll eitthvað um þetta mál að segja. Ekki bara þm. hér á þingi heldur öll þjóðin. Hana varðar alla um hvernig þessum málum er ráðið og ég efast um það og leyfi mér að halda því fram af mikilli vissu að frv. sem hér er lagt fram er ekki til þess að þjóna hagsmunum allrar þjóðarinnar í heild.