08.12.1987
Efri deild: 17. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1597 í B-deild Alþingistíðinda. (1132)

181. mál, stjórn fiskveiða

Skúli Alexandersson:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessa umræðu mikið, en mér fannst ástæða til að benda á að útlistingar hæstv. ráðherra á brtt, okkar við frv. hans eru á nokkrum misskilningi byggðar.

Í fyrsta lagi eru brtt. okkar engin staðfesting á því að við teljum að fiskveiðistefnan þurfi og eigi að vera eftir því sem lagt er til í frv. ráðherrans þó við komum með brtt. og freistum þess að lagfæra þá stefnu. Við erum ekki þar með að viðurkenna að kvótaúthlutunin sé endilega það sem koma skal og sé hagkvæmast. Við viðurkennum þá staðreynd og við vitum um það að frv. ráðherrans eða frv. í svipaðri mynd muni verða samþykkt og það muni vera orðið samkomulag um það milli stjórnarflokkanna að á því verði ekki miklar breytingar, en við erum að freista þess að breyta því frv., reyndar í grundvallaratriðum og í veigamiklum atriðum, og breyta þeim þáttum sem er kannski auðveldast að breyta og hafa verið hvað mestir agnúarnir á þeirri fiskveiðistefnu sem við höfum búið við á undanförnum árum.

Hitt þótti mér líka afleitt að hæstv. ráðherra virtist ekki hafa lesið brtt. okkar nógu vel þannig að hann dró af þeim þær ályktanir að við værum með tillögum okkar að leggja til að fiskveiðistjórnin sjálf flyttist heim í byggðirnar eða að sveitarstjórnir eða byggðastjórnir færu að úthluta og ráðstafa fiskveiðikvótanum. Það er ekki svo. Það er beinlínis ætlast til þess að skiptingin eigi sér öll stað á svipaðan hátt og ráðherrann sjálfur leggur til. Það sem lagt er til í okkar tillögum er fyrst og fremst að það er tekinn ráðstöfunarréttur af útgerðum með því að færa ákveðinn hluta til byggðanna út frá ákveðnum reynslutíma eða kvótamagnið er ákveðið út frá ákveðnum reynslutíma þeirrar aflaúthlutunar sem hefur verið til byggðanna á undanförnum árum. Síðan er því deilt með sama hætti og áður út til skipanna. Veiðiréttur skipanna verður hinn sami en eignarréttur ekki nema á 1/3 eða ráðstöfunarréttur eins og verið hefur á undanförnum árum. Þeir geta ekki selt skip úr byggðinni með öllum þeim kvóta sem til þeirra hefur verið úthlutað áður. Aðeins 1/3 getur fylgt skipi á milli byggða í sölu eða í annarri ráðstöfun. Þetta er undirstöðuatriði og grundvallaratriði í tillögum okkar.

Hv. 6. þm. Vesturl. flutti brtt. við frv. Þær tillögur eru á þann veg að ég held að það sé nauðsynlegt að áður en við tökum þær til umfjöllunar í nefnd fáum við smávegis aukaupplýsingar um þær. Ég ætla ekki að taka afstöðu til þeirra á einn eða neinn máta, en mig langar til að spyrja hv. þm. um eitt. Sagt er í alið brtt. að 80% þess heildarafla sem ákveðinn er skv. 2. gr. skuli skipt milli byggðarlaga, útgerðarstaða með hliðsjón af lönduðum afla síðustu fimm ára. Nú er það svo að landaður afli er breytilegur. Landaður afli getur valdið mikilli skekkju á þeirri reynslu sem hefur verið byggt á á undanförnum árum. Við t.d. sem búum við Breiðafjörð njótum þess að fá þó nokkuð mikinn fisk frá Norðlendingum sem koma ákveðið tímabil til okkar við Breiðafjörð og landa afla þar. Eru hugmyndir þm. að afli sem landað er í Rifi verði lagður til grundvallar aflaúthlutunar á þeim stað? Meginhluti þess afla sem hefur kvótarétt hjá okkur heima skilar sér í höfnina á Rifi og til vinnslu þar. Til viðbótar fáum við þó nokkuð drjúgan skammt frá Norðlendingum. Er það hugmyndin að úthlutað verði á þann veg að við fáum þennan afla líka í okkar nýja kvóta og að um leið verði rýrður hluti þeirra Norðlendinga sem hafa landað hjá okkur?

Svo er það með sveitarstjórnirnar, hvað þeim er heimilt. Mig langar til að spyrja flm. brtt.: Er hugsanlegt eftir þessum tillögum að það verði önnur regla í þessu sveitarfélaginu en hinu? Ef sveitarfélögin eiga að fara að setja reglur um hvernig kvótanum sé úthlutað, er hugsanlegt að við úthlutum öðruvísi í Neshreppi utan Ennis en þeir Ólafsvíkingar eða verður einhver yfirstjórn til að samræma þessa úthlutun?

Ég held að þetta sé það sem skiptir miklu máli að við gerum okkur alveg grein fyrir áður en við förum að fjalla um þetta í nefndum og eðlilegt sé að þetta komi fram hér í umræðunum.