08.12.1987
Efri deild: 17. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1600 í B-deild Alþingistíðinda. (1135)

181. mál, stjórn fiskveiða

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Ég skal ekki teygja þessar umræður mikið lengur. Það eru aðeins örfá atriði sem mig langar til að koma inn á og kannski minna frekar á vegna þessarar umræðu.

Það er í fyrsta lagi út af hv. þm. Svavari Gestssyni. Það er meira valdið sem hv. þm. telur mig vera kominn að með því að vera orðinn formaður í sjútvn. Ed. Menn hafa séð formenn í nefndum, stjórnmálaflokkum og félögum falla býsna lágt þó að þeir teldu sig ráða þannig að ég hygg að menn vilji hafa sína skoðun, viðkomandi einstaklingar í viðkomandi nefnd. En ég þakka eigi að síður traustið, sem fram er borið, og væntanlega tekst að leiða eitthvað af þessu mali til betri vegar en það nú er á.

Það eru þrjú eða fjögur atriði sem ég vil minnast á. Það er í fyrsta lagi: Mér finnst að menn hafi lítið talað um smábátana. Það hefur lítið verið vikið að þeim. Þeir hafa margir að vísu, ekki hér í þingræðum heldur úti í þjóðfélaginu, talað um þennan gífurlega fjölda smábáta sem flykkst hefði inn á markaðinn undangengin ár og tekið til sín svo og svo mikinn afla. Samkvæmt upplýsingum sem ég hef hefur afli smábáta minnkað frá því sem hann var áður. Hann er tiltölulega lítill þegar verið er að tala um það sem tekið er af þorski úr sjónum. Ef við tökum árabilið 1985–1987 jókst hann um 0,93% árið 1985, jókst um 1% árið 1986, en minnkaði um 0,28% í ár. Ég held að þetta segi þá sögu að menn eigi ekkert að vera að amast út í þennan þátt fiskveiða. Þetta er víða mikil lífsbjörg, búbót hjá fjölda heimila og einstaklinga í landinu. Ég undirstrika að það er rangt í mínum huga að setja hömlur eða skorður á þennan þátt fiskveiða.

Ef við tölum um núgildandi kvótakerfi vil ég undirstrika að það er verið að þrengja sóknarmarkið með frv. sem nú liggur frammi. Það er verið að minnka möguleika þeirra sem með einhverjum hætti gætu skorið sig úr og sótt meira en lögin gera ráð fyrir. Þetta er skerðing að mínu viti til hins verra frá gildandi lögum og gæti kannski, af því að mönnum hefur orðið tíðrætt um Vestfirði, orðið til þess að þrengja kost þeirra enn frekar ef dregið er úr eða þrengt sóknarmarkið. Trúlega hafa velflestir togarar á Vestfjörðum verið á sóknarmarki þó að ég vilji ekkert um það fullyrða án þess að það hafi verið skoðað.

Ég tek undir ef það er rétt að ég hafi ekki haft réttar tölur hérna áðan. Ég hafði þær samkvæmt sömu upplýsingum og hv. þm. Svavar Gestsson. En auðvitað viljum við hafa það sem réttast er og það hlýtur þá að koma fram frekar í umræðunni.

Síðan eru tvö önnur mikilvæg malefni sem mér finnst að menn hljóti að gefa gaum. Hið fyrra er þá: Á að setja kvóta á úthafsrækju? Eru menn sammala því? Til þess er ætlast sem heimild til hæstv. ráðherra skv. þessu frv. Auðvitað verða menn að svara því hvað þeim finnst. Ég segi fyrir mig og hef sagt það hér áður: Ef það á að gerast verður það ekki með mínu samþykki gert nema því aðeins að það verði skipt á skip og vinnslu. Um þetta liggur fyrir, að ég best veit, fullt samkomulag vinnsluaðila í rækju. Ég veit ekki betur en að það liggi fyrir fullt samkomulag um það. Og ég lýsti því í dag hvernig þessum málum háttar að því er mitt kjördæmi varðar.

Svo er það auðvitað gildistíminn. Hann segir kannski ekki hvað minnst. Hæstv. forseti vor segir að hann vilji láta það gilda lengur en fjögur ár. Og eykst nú bilið milli mín og hans. Hins vegar má bæta því við að kannski fer mest eftir því hvað frv. innifelur þegar það verður samþykkt. Menn eru alltaf að tala um fjögur ár, heyrist mér. Frv. gerir ráð fyrir fjórum árum. Sumir vilja fara upp í fimm. En ég segi: Ef þetta frv. á að verða að lögum eins og það nú er er það mitt mat á því að það ætti ekki að gilda lengur en eitt ár og á því ári ætti að knýja fram breytingar sem stefna að bættari tækifærum og betri fyrir þá sem geta notið þeirra, hafa aðstöðuna til þess, hafa tækifærin. Og ég trúi því ekki, ef þm. fást til að hugsa um þessi mál, að menn séu andvígir því að gefa athafnamönnum tækifæri til að ná afla á hagkvæmari hátt og með minni tilkostnaði.

Þetta skulu vera lokaorð mín að þessu sinni, herra forseti. Væntanlega eiga menn eftir að tala um þetta meira áður en langt um líður.