08.12.1987
Neðri deild: 19. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1603 í B-deild Alþingistíðinda. (1141)

Fjarvistir þingmanna og afgreiðsla mála

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Við fáum þær upplýsingar í sambandi við þinghaldið að það standi til á morgun, miðvikudag, að þingflokksformenn beri sig saman um hvernig haga skuli þinghaldi dagana sem eftir eru af starfstíma Alþingis til jóla. Nú er engin trygging fyrir því að um það verði samkomulag, trúi ég. Það er áreiðanlegt að það mun margt liggja fyrir á þeim fundi þingflokksformanna á morgun, og þá er eftir einn dagur af starfstíma Alþingis í þessari viku. Ég hef fengið boð frá forseta Íslands m.a., eins og aðrir alþm., á föstudag. Ég geri því ekki ráð fyrir að hér verði langur starfstími á þeim degi til fundahalda, svoleiðis að við erum í rauninni að tala um það að afgreiða hér mál sem ríkisstjórnin kann að telja nauðsynlegt að knýja fram og hennar meiri hluti hér á Alþingi í komandi viku.

Það er því í rauninni aðeins ein starfsvika sem menn eru að tala um. Og ég verð að átelja það alveg sérstaklega að svona skuli vera staðið að málum af forustu þingsins. Ég geri kröfu til þess að upplýsingar fáist, áður en fundi lýkur í dag í þessari hv. deild, um hvað menn ætla sér og hvaða mál það eru sem ríkisstjórnin ætlar sér að fá afgreidd hér á Alþingi fyrir jól. (ÓÞÞ: Nema menn fresti jólunum.) Það vill svo til að hæstv. forsrh. er viðstaddur hér á þingfundi og það væri nú ágætt ef hann gæti upplýst þingheim um það hvaða mál það eru sem ríkisstjórnin ber sérstaklega fyrir brjósti og telur nauðsynlegt að koma fram fyrir jólahlé Alþingis.

Það hefur komið fram af hálfu stjórnarliða, sem taldir hafa verið, að það komi til greina að fresta jólunum, og það er ekkert undarlegt að spurt sé: Hvernig í ósköpunum ætla menn að haga hér starfstímanum fram að jólum? Og hver eru þau mál sem ríkisstjórnin leggur áherslu á að fá afgreidd?