08.12.1987
Neðri deild: 19. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1604 í B-deild Alþingistíðinda. (1142)

Fjarvistir þingmanna og afgreiðsla mála

Forsætisráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Það hafa verið haldnir fundir með forsetum þingsins og formönnum þingflokka hér á Alþingi um þau mál sem liggja fyrir og nauðsynlegt er að afgreiða fyrir jólaleyfi þm. Síðast í gær var haldinn slíkur fundur. Það hefur komið fram hér áður, og kom fram á þeim fundi, hvaða mál það eru sem höfuðáhersla er lögð á. Þar er fyrst og fremst um að ræða fjárlög fyrir næsta ár, þau frv. sem lögð hafa verið fram og sum hver eiga eftir að koma fram og tengjast fjárlagaafgreiðslunni, svo og frv. um stjórn fiskveiða og nokkur önnur mál sem þó eru ekki mörg, en höfuðmálin eru fjárlög, frv. þeim tengd og frv. um stjórn fiskveiða og nokkur önnur mál. Fyrir þessu hefur verið gerð grein á fundi með formönnum þingflokka og ég geri ráð fyrir að þeir hafi hver í sínum þingflokki gert grein fyrir þeim umræðum sem fram fóru ásamt með forsetum þingsins í gær.