08.12.1987
Neðri deild: 19. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1607 í B-deild Alþingistíðinda. (1155)

40. mál, Útflutningsráð Íslands

Benedikt Bogason:

Hæstv. forseti. Þar sem það frv. sem var verið að samþykkja áðan og þetta frv. sem nú liggur fyrir eru eiginlega nokkurn veginn sama málið þá langar mig að skjóta hér inn nokkrum atriðum sem alveg eins hefðu átt við fyrra frv. Eins og ég sagði í gær við 2. umr. um þetta mál, og kom fram í brtt. sem var verið að fella áðan, þá er það skýr stefna Borgarafl. að útflutningsverslunin verði gefin frjáls, en jafnframt því að tryggt sé að ávallt verði farið eftir reglum um gæðamat og gæðaeftirlit vegna útflutningsvöru okkar. Á þessum tímamótum sem væntanlega verða, að utanrrn. með nýju fólki tekur við þessari deild af viðskrn., vil ég koma á framfæri ábendingum sem skipta máli.

Ég lýsti því líka yfir í gær að ég væri einmitt hlynntur því að utanrrn. yfirtæki utanríkisverslunina. Þessi afstaða mín mótast af því að ég tel að í dag miðað við nánustu framtíð og kannski til lengri tíma þá kreppi skórinn helst að okkur í markaðs- og sölumálum afurða okkar. Hin ýmsu sölusamtök og samninganefndir hafa vissulega unnið gott starf í að koma vöru okkar á markað. Þau voru stofnuð á þeim tíma er Ísland var einangrað og markaðsþekking framleiðenda í landinu ekki yfirgripsmikil almennt. Nú er einangrunin rofin og komin ný samgöngutækni sem opnar leiðir inn á markaðina sjálfa, milliliðalaust í mörgum tilfellum, þannig að við höfum tækifæri til að nálgast neytendurna sjálfa af ungu, hressu, vel menntuðu fólki sem hefur lært list markaðssetningar og sölumennsku.

Einu sinni var ungur íslenskur verkfræðingur, sem starfaði að framkvæmdum í Bandaríkjunum, meðal fólks og kynntist vel venjum þeirra og siðum. Þessi maður, sem var hugmyndaríkur og stórhuga, kom til Íslands og hóf hér störf og tókst að byggja upp það stórveldi sem Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna er og opna nýjar leiðir með nýjum vinnsluaðferðum inn á Bandaríkjamarkað. Þessi maður hét Jón Gunnarsson. Skyldu nú ekki leynast margir slíkir Jónar meðal Íslendinga sem ekki komast að eða fá áheyrn hjá einokunarrisunum eða í ráðuneytunum? Ég fullyrði að þeir leynast ekki. Þeir eru til, með blóð víkingaþjóðarinnar í æðum, en kerfið, risarnir og ráðuneyti halda þeim kannski niðri. Þeir fá ekki leyfi. Og af hverju fá þeir ekki leyfi? Jú, þeir gætu undirboðið. Þeir gætu selt skemmda vöru og sett blett á viðskiptaheiður hinnar stoltu þjóðar í norðri. Málið er að við erum í fullum gangi í þróun sem leiðir af breyttum aðstæðum í heiminum, m.a. tilhneiging til aukins frjálsræðis og áðurnefnda nýja tækni í samgöngum sem tengist framförum í geymslutækni, auk nýjunga í verkun og pökkun afurða.

Það er víða til beint samband á milli framleiðenda á Íslandi og neytenda erlendis. Við verðum því að laga okkur að þeirri staðreynd, m.a. með nauðsynlegum lagabreytingum, að Ísland er ekki lengur útkjálki viðskiptalega séð. Þó að kannski hafi ekki tekist í þessum áfanga að stíga skrefið til fulls þá er ætlun mín hér með þessu að hvetja altént þá ungu starfsmenn í utanrrn., sem yfirtaka þennan þátt, að nota heimildina mjög varlega og að vera opnir fyrir framþróun í þessum málum. Við verðum að nýta okkur landfræðilega möguleika Íslands. Við erum staðsettir hérna mitt á milli stóru risanna, Efnahagsbandalagsins og Ameríkumarkaðarins. Þetta eigum við að nýta okkur en ekki skríða neins staðar undir pilsfald, eins og því miður virðist liggja í kollinum á ýmsum sjálfskipuðum spekingum nýfrjálshyggjunnar sem hér hefur riðið húsum.

Ég vil svo að lokum hvetja til þess, eins og ég hef sagt áður, að við virkilega opnum okkur fyrir þeim gífurlegu möguleikum sem þegar blasa við í markaðsmálum, möguleikum sem gera kröfu til þess að hver og einn nýtist, einstaklingarnir nýtist og að þeir séu ekki drepnir niður af einhverjum skrifuðum eða óskrifuðum reglum.