08.12.1987
Neðri deild: 19. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1608 í B-deild Alþingistíðinda. (1156)

40. mál, Útflutningsráð Íslands

Aðalheiður Bjarnfreðsdóttir:

Hæstv. forseti. Ég einsetti mér nú þegar ég fór hingað inn að tala bara þegar ég þyrfti en ekki að óþörfu eða þegar aðrir væru búnir að segja það sem ég hefði kannski gjarnan viljað segja. En ég verð að segja það eins og er að nú finnst mér ég verða að tala. Og hvort sem það mælist vel fyrir eða illa, þá verð ég að segja það að ég hef aldrei unnið á vinnustað eins og þessum. Hér virðist fólk ekkert hirða um að mæta, hvað sem verið er að gera. Hér er ágætur forseti sem áminnir fólk um að vera kyrrt og sinna málum deildarinnar. Hann hefur varla lokið málið sínu eða sá ræðumaður sem kemur á eftir honum þegar menn hlaupa út. Og þetta virðist ekkert gera til. Menn eru ekki látnir sæta neinni ábyrgð fyrir þetta. Hvað er gert við fólk á almennum vinnumarkaði? Ég hef unnið í ákaflega mörgum erfiðisstörfum og ég held að þið hljótið að vita það að ef fólk kemur t.d. fimm mínútum of seint í vinnu þá má draga af því kortér. Það er sjálfsagt ekkert dregið af þeim þm. sem ekki eyða nema sáralitlu af þeim tíma sem þeir eiga að sitja hér inni í þingsölunum. Mér finnst alveg ómögulegt að taka þessu þegjandi. Ég held að stjórnarandstaðan, sem hefur þó mætt miklu betur en stjórnarliðar, eigi að taka sig saman og hreinlega skipuleggja einhverjar aðgerðir gegn þessu. Mér finnst þetta fyrir neðan allar hellur og hv. alþm. til vansa.