20.10.1987
Sameinað þing: 5. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 172 í B-deild Alþingistíðinda. (116)

11. mál, kjarnorkuvopnalaust Ísland

Eyjólfur Konráð Jónsson:

Herra forseti. Ég vil aðeins geta þess, eins og hér kom raunar fram, að í þessu efni, sem hér er til umræðu, þ.e. kjarnorkuvopnaleysi Íslands, var engin stefnubreyting í ályktuninni frá 23. maí 1985. Þar sagði einungis það sem allir hafa hingað til sagt að Ísland sé og verði kjarnorkuvopnalaust land. Auðvitað er enginn að afsala neinu fullveldi í því efni. Stjórnvöld taka að sjálfsögðu á hverjum tíma afstöðu til þess ástands sem í heiminum býr. Og hitt liggur náttúrlega í augum uppi að ef til kjarnorkustyrjaldar kæmi þá ráðum við engu um eitt eða neitt í meðhöndlun þeirra vopna.

Við höldum vörð um okkar fullveldi. Það er engin stefnubreyting, engin stórtíðindi í einu eða neinu sem hérna hefur gerst, það er aðeins áréttuð sú stefna sem við alltaf höfum fylgt í þessari ályktun og það gerði hæstv. utanrrh. hér líka og ég er sammála honum en innilega ósammála skýringum hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar.