20.10.1987
Sameinað þing: 5. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 173 í B-deild Alþingistíðinda. (117)

12. mál, umhverfismál

Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Á þskj. 12 hef ég borið fram svofellda fsp. til hæstv. forsrh. um umhverfismál. „Hvernig hyggst ríkisstjórnin undirbúa framkvæmd á þeirri stefnu sinni „að sett verði almenn lög um umhverfismál og samræming þeirra falin einu ráðuneyti“?"

Þetta er orðrétt tilvitnun í stjórnarsáttmála og stefnuyfirlýsingu Þorsteins Pálssonar, að sett verði almenn lög um umhverfismál og samræming þeirra falin einu ráðuneyti.

„Hvenær er gert ráð fyrir að leggja frv. um umhverfismál fyrir Alþingi?

Hvaða ráðuneyti mun fá það hlutverk að samræma stjórn umhverfismála innan stjórnkerfisins?" Hér er spurt um mál sem lengi hefur verið beðið svara við af hálfu íslenskra stjórnvalda af þeim sem vinna að náttúruverndarmálum og umhverfismálum á Íslandi og þeim sem áhuga hafa fyrir framgangi þeirra mála. Ég tel mjög mikilsvert að fá skýr svör um þessi efni frá núv. hæstv. ríkisstjórn, m.a. í ljósi þess að fram undan er síðar í þessari viku náttúruverndarþing sem haldið er á þriggja ára fresti, þar sem þessi mál, staða Náttúruverndarráðs, m.a. í stjórnkerfinu, er eitt aðalmál þingsins. Það er liðinn hálfur annar áratugur frá því farið var að knýja á um þetta mál á vettvangi náttúruverndaraðila. Á fyrsta náttúruverndarþingi 1972 var flutt till. um þessi efni, en því miður hefur okkur miðað þarna undraseint og umhverfismál í landinu gjalda þess sárlega að þau eru dreifð vítt og breitt um stjórnkerfið. Í Stjórnarráðinu eru það ekki færri en sex ráðuneyti sem koma við sögu varðandi þýðingarmikla þætti þessa málaflokks. Fyrir tveimur árum síðan flutti þáv. ríkisstj. frv. til laga um Stjórnarráð Íslands og þar var ekki að finna neitt sem snerti þetta mál, tilfærslu eða samræmingu umhverfismála í stjórnkerfinu, því miður. En Alþb. hafði við undirbúning þess máls komið því á framfæri við þá nefnd sem að því stóð að það væri skoðun Alþb. að þessi mál ætti að færa undir eitt ráðuneyti sem bæri heiti umhverfismála.