08.12.1987
Neðri deild: 19. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1649 í B-deild Alþingistíðinda. (1173)

179. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég taldi víst að hæstv. fjmrh. hygðist taka aftur þátt í umræðu og svara einhverju af þeim fjölmörgu spurningum sem til hans var beint sérstaklega. Ég trúi því bara ekki að það eigi að ljúka þessari umræðu án þess að eitthvað komi frá hæstv. ráðherra af því tagi. Ég er ekki að lasta svör hv. þm. Kjartans Jóhannssonar, 4. þm. Reykn., en hann var aðþrengdur tímans vegna og hljóp einungis á nokkrum efnisatriðum af þeim fjölmörgu sem hér voru borin upp og spurt var um þannig að ég held að það sé allsendis ófullnægjandi og gangi ekki að hæstv. fjmrh. svari ekki einhverju til um þau fjölmörgu atriði sem hann var spurður um. Ég tel ekki viðunandi að hv. fjh.- og viðskn. deildarinnar fái ekki eitthvað meira vegarnesti en það sem þegar er komið. Þegar bornar eru upp beinar efnislegar spurningar við viðkomandi ráðherra við 1. umr. er það ekki síst gert til þess að nefndarmenn hafi í höndunum svör viðkomandi hæstv. ráðherra og skýringar á þeim hlutum sem þeim finnast ekki nægilega ljósir af framsöguræðu og af öðrum gögnum sem fylgja málinu. Ég vildi því spyrja hæstv. fjmrh.: Er það meining hans að koma í þessa umræðu og svara eður ei? Sé svo ekki mun ég engu að síður ítreka til hans þær spurningar þannig að það liggi þá ljóst fyrir að þeim var ósvarað viljandi þrátt fyrir nærveru ráðherrans.