20.10.1987
Sameinað þing: 5. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 174 í B-deild Alþingistíðinda. (118)

12. mál, umhverfismál

Forsætisráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Það eru orð að sönnu að skipan umhverfismála í stjórnkerfinu hafi verið óljós. Það er þess vegna ætlan og ásetningur ríkisstjórnarinnar að gera þar á bragarbót og fyrir því var það skrifað í stjórnarsáttmálann að sett yrðu lög, almenn lög um umhverfismál og samræming þeirra falin einu ráðuneyti.

Í samræmi við þessa yfirlýsingu skipaði forsrh. 3. sept. sl. nefnd til að gera drög að frv. til laga um samræmda yfirstjórn umhverfismála. Í þessari nefnd eiga sæti Sigurður M. Magnússon, sem er formaður nefndarinnar, Hermann Sveinbjörnsson og Alda Möller. Sérstakur starfsmaður og lögfræðilegur ráðunautur nefndarinnar er Ingimar Sigurðsson.

Nefndinni var falið að hafa samráð við þau ráðuneyti og samtök sem fara með verkefni á sviði umhverfismála. Henni var einnig falið að ljúka störfum það fljótt að unnt yrði að leggja frv. um þetta efni fyrir Alþingi fyrir nk. áramót. Nefndin hefur þegar hafið störf og það er ásetningur hennar að ljúka tillögum sínum á tilsettum tíma.

Eitt af verkefnum nefndarinnar er að gera tillögu um hvaða ráðuneyti verði falið það hlutverk að hafa samræmda stjórn umhverfismála með höndum og því hafa ekki verið teknar um það ákvarðanir á þessu stigi þar sem það er eitt af hlutverkum nefndarinnar.