20.10.1987
Sameinað þing: 5. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 174 í B-deild Alþingistíðinda. (119)

12. mál, umhverfismál

Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Ég lýsi ánægju minni með viðbrögð hæstv. ráðherra, varðandi efni þessarar fsp. þar sem fram kemur að nokkur skriður er kominn á málið og hér liggur fyrir yfirlýsing um það að nefnd sent skipuð hefur verið af ríkisstjórninni muni ljúka störfum fyrir áramót og skila frv. sem við þá væntanlega fáum að sjá fljótlega hér á hv. Alþingi.

Ég hafði vænst þess eða reiknað með því að ríkisstjórnin hefði þegar tekið stefnu um það hvernig ætti í meginatriðum að taka á þessu máli. Og ég verð að segja að í ljósi reynslu fyrri ára ber ég nokkurn ugg í brjósti um að þetta mál kunni að standa í hæstv. ríkisstjórn, eins og það gerði í síðustu ríkisstjórn, og raunar ríkisstjórnum þar áður, vegna þess að það reyndist svo t.d. í tíð síðustu ríkisstjórnar að menn voru mjög ófúsir, fyrst og fremst ráðherrar Sjálfstfl. í þeirri ríkisstjórn, ef ég hef skilið það rétt, að leggja mikið af mörkum eða mikið á sig til þess að færa mætti helstu þætti umhverfismála saman undir eina samræmda yfirstjórn. En við skulum vona að úr þessu rætist og það sé þá raunverulegur vilji þarna til staðar því að án þess gerist ekki mikið.

Ég minnist þess að í stjórnarmyndunarviðræðum í vor voru þessi mál á dagskrá, bæði þegar Alþb. ræddi þau efni við aðra flokka, þá kom það þeim sjónarmiðum á framfæri sem þýðingarmiklu atriði að stofnað yrði til umhverfisráðuneytis eða stjórn þeirra mála samræmd, og Kvennalistinn lagði einnig, man ég eftir, ríka áherslu á að á þessu máli væri tekið þegar við stjórnarmyndun. Ég held að það hefði verið heilladrýgra að leiða þetta mál stefnulega Til lykta við myndun ríkisstjórnarinnar vegna þess hversu þungt getur verið að flytja mál til milli ráðuneyta eftir að menn eru sestir í stóla, en ég ætla ekki að vera með neina svartsýni fyrir fram. Það verður fylgst með og eftir því tekið hvernig hæstv. ríkisstjórn leiðir þessi mál til lykta og við skulum vona að það takist á yfirstandandi þingi.