09.12.1987
Efri deild: 18. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1656 í B-deild Alþingistíðinda. (1195)

40. mál, Útflutningsráð Íslands

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Þetta mál, sem hæstv. ráðherra viðskiptamála hefur hér mælt fyrir, hefur fengið meðferð í hv. Nd. og þar kom fram að verulegur ágreiningur var um málið, bæði varðandi Útflutningsráð Íslands og sömuleiðis varðandi það mál sem er hér á dagskrá nr. 2 og heitir frv. til l. um útflutningsleyfi o.fl. Í Nd. gaf hv. 1. þm. Vestf., Matthías Bjarnason, út svohljóðandi nál. um síðarnefnda málið:

„Stjórnarflokkarnir gerðu samkomulag um nýja verkaskiptingu milli viðskrn. og utanrrn. um breytingu á reglugerð nr. 96 31. des. 1969, um Stjórnarráð Íslands. Þegar þetta samkomulag var borið undir þingflokk Sjálfstfl. lýsti ég andstöðu minni við þessa breytingu. Ég tel að þessi mál séu best komin í viðskrn., enda hafa flestir eða allir útflytjendur verið því fylgjandi að þessi mál heyri undir það ráðuneyti, eins og fram kemur í bréfi dags. 27. okt. 1983 til stjórnsýslunefndar og er birt sem fskj. með þessu nál.

Með tilliti til framanritaðs er ég andvígur þeirri breytingu sem frv. gerir ráð fyrir.“

Sami hv. þm. gaf út svohljóðandi nál. um frv. til l. um breytingu á lögum um Útflutningsráð Íslands, með leyfi hæstv. forseta:

„Ég er andvígur þeirri breytingu sem frumvarpið gerir ráð fyrir og tel ekkert það hafa gerst þann skamma tíma sem Útflutningsráð Íslands hefur starfað sem geri þessa breytingu nauðsynlega.“

Ég get og hafði hugsað mér að ræða þessi mál ítarlega undir umræðum um frv. til l. um breytingu á lögum um útflutningsleyfi og ætla þess vegna ekki að hafa þessi orð mikið fleiri í þessari umræðu, en vil spyrja: Er það viðskrh. sem á að flytja þetta mál hér eða er það utanrrh. eða staðgengill hans, sem er hæstv. sjútvrh.? Við söknuðum vinar í stað lengi vel þar sem er hæstv. viðskrh. (Dómsmrh.: Rangs vinar.) Mér sýnist að forseti hafi ekki feðrað málið rétt og það á kannski frekar heima undir umræðum um þingsköp, en það væri fróðlegt að fá á því nokkurt álit. Ég áskil mér rétt til að ræða málin ítarlegar undir umræðum um útflutningsleyfi þegar þær fara fram hvort sem það verður á þessum fundi eða síðar.