09.12.1987
Efri deild: 18. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1657 í B-deild Alþingistíðinda. (1196)

40. mál, Útflutningsráð Íslands

Sjávarútvegsráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Það hefur komið í ljós að það hefur verið mjög alvarlegur misskilningur í þessari deild. Og ekki nóg með að það hafi verið alvarlegur misskilningur í þessari deild, heldur einnig í Nd. því að meðan svo fór fram að hæstv. viðskrh. var ávíttur af nokkrum deildarmönnum fyrir að vera ekki hér var verið að reyna að fá hann til að mæla fyrir máli í Nd. sem ég átti að mæla fyrir þar. Þar af leiðandi er hér um mjög alvarlegan misskilning að ræða og í báðum tilvikum á ég sökina. Ég vildi koma því að þannig að það mætti vera ljóst í þingtíðindum að þær ávítur sem voru bornar fram á hæstv. viðskrh. áttu við sjútvrh. sem nú gegnir fyrir utanrrh. í fjarveru hans. Ég hafði hins vegar því miður ekki gert mér ljóst að ég átti að mæla fyrir þessu máli. Af einhverjum sökum hafði enginn rætt um það við mig og ég var þess allsendis óviðbúinn. Hér er því um margvísleg mistök að ræða og vildi ég leyfa mér, hæstv. forseti, að biðja forseta og deildina velvirðingar á þessum mistökum. Vildi ég leyfa mér að vona að deildarmenn væru tilbúnir að taka orð sín til baka að því er varðar viðskrh. því að þau eru öll byggð á alvarlegum misskilningi.