09.12.1987
Efri deild: 18. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1690 í B-deild Alþingistíðinda. (1211)

54. mál, útflutningsleyfi

Júlíus Sólnes:

Herra forseti. Hv. 14. þm. Reykv., Guðmundur H. Garðarsson, er búinn að flytja langa tölu og hefur fært rök sín fyrir því að útflutningsverslunin eigi að vera háð leyfum, eins og segir í frv. Ég hef heyrt öll þessi rök áður og hv. þm. hefur ekki tekist að sannfæra mig frekar en fyrri daginn. Ég er jafnsannfærður um það eftir sem áður að útflutningsverslunin eigi að vera frjáls. Hins vegar vil ég aðeins mótmæla ýmsum fullyrðingum hv. 14. þm. Reykv. um afstöðu mína sem hann lagði mér í munn í ræðu sinni áðan. Ég hef aldrei lagt til að hin stóru útflutningssamtök verði lögð niður. Þvert á móti ber ég mikla virðingu fyrir Sölusamtökunum. Ég ítreka að ég álít að þau hafi unnið mjög gott verk, hafi fært þjóðarbúinu ómældar tekjur og orðið okkur öllum til góðs. En ég fæ ekki skilið þá hræðslu þeirra aðila sem standa fyrir þessum sölusamtökum að útflutningsverslunin verði gefin frjáls. Hvað óttast þessir menn? Halda þeir að einhverjir smákarlar, einhver fiskverkandi í Njarðvík muni leggja Sölusamtökin í rúst og þá starfsemi sem þau hafa byggt upp í Bandaríkjunum? Er þetta þá svona valt að þau þoli ekki örlitla samkeppni frá einhverjum aðilum sem hugsanlega gætu fundið nýjar leiðir, fundið nýja viðskiptavini, selt annars konar tegundir af fiski en hinir eru að bjástra við? Ég geri mér grein fyrir því að útflutningssamtökin eins og þau eru í dag eru að selja gífurlegt magn af fiskafurðum Íslendinga á Bandaríkjamarkað og það er vel. En ég sé ekkert við það að athuga að einhverjir smærri fiskverkendur og útflytjendur fái tækifæri til að spreyta sig á því að selja annars konar fiskafurðir og leita uppi annars konar kaupendur en við höfum verið að reyna við fram til þessa. Þess vegna fagna ég því framtaki hæstv. viðskrh. að veita sex aðilum leyfi til að prófa sig áfram á Bandaríkjamarkaði og tel að þar sé stigið spor í rétta átt.