09.12.1987
Neðri deild: 20. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1697 í B-deild Alþingistíðinda. (1226)

188. mál, brunavarnir og brunamál

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Ég kem eingöngu upp í þennan ræðustól nú til að lýsa yfir stuðningi mínum við frv. Það vill svo til að ég þekki nokkuð inn á þessi mál. Það hefur verið hörmulega staðið að því að láta Brunamálastofnun ríkisins fá það fjármagn sem nauðsynlegt er til að halda námskeið og vera með fullkomið eftirlit með slökkviliðum á landinu.

Ég lít svo á að það þurfi að auka þessa starfsemi mjög, líka vegna þess að slökkviliðsmenn eru áhugamannahópar víða á landinu. Það eru ör skipti og þar af leiðir að það er enn þá meiri þörf á að hafa æfingar og fræða þá örar en annars væri ef þetta væru menn á föstum launum og væru þarna lengri tíma.

Ég ætla ekki að ræða um sjálfa slökkviliðsmennina. Ég held að reynslan sýni okkur að þetta á að vera fyrst og fremst í höndum Brunamálastofnunar, öll þessi fræðsla. Það hefur verið unnið gott starf í stofnuninni á undanförnum árum án þess að hafa raunar möguleika til að gera það sem gera þarf. Ég styð því þetta frv. heils hugar, en vildi spyrja hæstv. ráðherra að því hvað þetta mundi gefa. Ef ég hef skilið þetta rétt, ef á að borga skuldina sem þarna er, sem mér skilst vera um 7–8 millj., eitthvað svoleiðis, og ég veit ekki hvort hallinn á þessu ári er þarna tekinn inn í, er þarna í naumasta lagi miðað við það sem þyrfti að vera. Við vitum um að það hafa verið víða eldsvoðar sem hefði e.t.v. stundum verið hægt að koma í veg fyrir ef þessi mál væru í lagi. Það gerir ekki brunaeftirlitið. Það er ekki nema um þessa menn að ræða af ýmsum ástæðum. Ég gæti rætt það mál. Ég þekki það. Þess vegna held ég að við þyrftum að skoða þau mál. Og ég vildi ræða þessi mál við hv. 4. þm. Norðurl. e. undir fjögur augu en ekki í sölum Alþingis.