09.12.1987
Neðri deild: 20. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1698 í B-deild Alþingistíðinda. (1227)

188. mál, brunavarnir og brunamál

Ellert Eiríksson:

Herra forseti. Ég lýsi ánægju minni yfir því frv. til l. um breytingar á lögum nr. 74 frá 1982, um brunavarnir og brunamál, sem hæstv. félmrh. hefur lagt fram og kynnt í dag.

Það liggur ljóst fyrir að Brunamálastofnun ríkisins hefur á undanförnum árum, eins og glöggt má sjá í súluriti sem fylgir með sem fskj. í grg., orðið fyrir verulegri tekjuskerðingu og má ljóst vera að tekjur stofnunarinnar hafa langt frá því nægt fyrir útgjöldum eins og hún hefur verið rekin.

Það hefur mátt lesa í öllum blöðum undanfarnar vikur og ár um marga eldsvoða sem hafa leikið Íslendinga grátt. Mörg fyrirtæki, og þá sérstaklega í fiskiðnaði og frystihúsarekstri, hafa orðið fyrir þungum búsifjum og eldurinn hefur reitt þar hátt til höggs. Eigendur þessara fyrirtækja hafa orðið fyrir fjárhagslegu stórtjóni, verkafólk og þjónustuaðilar hafa einnig orðið fyrir tjóni og þar að auki hafa tryggingafélög orðið fyrir kannski því stærsta.

Slökkviliðið á Keflavíkurflugvelli hefur, eins og þið hafið oft séð, fengið verðlaun fyrir að vera jafnvel besta slökkvilið í heimi, alla vega innan þess geira sem það starfar í, þ.e. innan flota Bandaríkjahers, og hefur fengið mörg verðlaun fyrir. En slökkviliðið á Keflavíkurflugvelli, og nú tala ég sem „kollegi“ og af reynslu, hefur ekki fengið sérstök verðlaun fyrir að vera gott að slökkva eld því það er vont að meta það mál. Hins vegar hefur það fengið verðlaun fyrir langminnsta tjón í herstöðvum, sem bandaríski flotinn rekur, af völdum eldsvoða. Í því liggur þess meginkostur. Það er forvarnarstarfið og lítill skaði. Og með hvaða hætti nær það þessum árangri? Með því að reka gífurlega stíft eldvarnareftirlit og fyrirbyggjandi starf. Eins og hefur komið fram í dag er Brunamálastofnun ríkisins einmitt sams konar stofnun hér á landi sem notuð er til að hafa uppi forvarnarstarf, menntun slökkviliðsmanna, eftirlit með teikningum, breytingar á reglugerðum og lögum til bóta og eftirlit með byggingarefnum til að fyrirbyggja og koma í veg fyrir tjón. Það er grundvallartónninn í þessu.

Hér er lagt til að breyta tekjustofninum sem Brunamálastofnun hefur haft, þ.e. hluta af iðgjöldum úr 1,75% yfir í að verða 0,04% af vátryggingarupphæð mannvirkja og lausafjármuna. Það finnst mér mjög eðlilegt. Hvað snertir skattheimtu er alveg ljóst að það er eigandi fasteignarinnar og eignaraðilar sem eiga að bera uppi þetta starf. Það er engin skynsemi frá mínum bæjardyrum séð að leggja það á ríkissjóð, sem eru skattpeningar allrar þjóðarinnar, heldur verði það tekið af eigendum fasteigna. Þetta er raunverulega neysluskattur fasteignaeigenda. Og þeim mun stærri fasteignir og þeim mun fleiri fasteignir sem menn eiga, þeim mun hærra gjald bera þeir til Brunamálastofnunar ríkisins.

Brunamálastjóri hefur á undanförnum vikum, þegar hann hefur verið inntur eftir því hvernig á þeim miklu eldsvoðum sem gengið hafa yfir standi, kannski ekki haft mörg svör, en hann hefur þó bent á nokkur atriði og m.a. að stofnuninni væri þörf á að fá til sín rannsóknardeild til að kanna með hvaða hætti þessir eldsvoðar hafa orðið og hver upptök þeirra hafa verið.

Þegar komið er á brunastað og horft á hús brenna og þegar búið er að slökkva vill oft vefjast fyrir mönnum að gera sér grein fyrir hvers vegna kviknaði í. Frystihús Nesfisks hf. í Garði brann. Það kviknaði í því og var kallað út til þess að slökkva þar eld kl. 3 að nóttu. Það var mjög örðugt að gera sér grein fyrir hvernig á þessu stóð. Menn leiða líkur að ýmsu, en það er erfiðara að sanna.

En nýlega kviknaði í öðru fiskverkunarhúsi um miðjan dag þar sem starfsfólk var statt. Þar sprakk út rafmagnstafla. Allur straumur fór af húsinu og eftir örstutta stund var það fullt af eiturgufum og fólk átti fótum fjör að launa til að komast út. Þar lá ljóst fyrir hvernig þetta hafði gerst. Oft eru leiddar líkur að því að slíkt gerist, en því er yfirleitt neitað af fagmönnum þannig að rannsóknardeild við Brunamálastofnun ríkisins er nauðsynjaverk.

Það kemur hér fram að skv. fjárlagafrv. fyrir árið 1988 er ætlað að reksturskostnaður Brunamálastofnunar ríkisins verði 23 millj. kr., heildarútgjöld til rekstursins. Í einu tjóni, að vísu því stærsta sem hefur orðið á þessu ári hér á landi, hjá Nesfiski hf. í Garði, liggur fyrir að eigendur einir verða fyrir tjóni sem er ekki minna en 25 millj. Síðan tapa verkafólk og þjónustuaðilar einhverju. Tryggingafélögin tapa 60 millj. a.m.k. Aðeins tjón eignaraðila einna er því meira í þessum eina eldsvoða en allur rekstrarkostnaður Brunamálastofnunar ríkisins fyrir árið 1988 er áætlaður.

Herra forseti. Ég vil að lokum ítreka að frv. til l. sem hér er borið fram er hið þarfasta mál og efling Brunamálastofnunar ríkisins ætla ég að sé hin besta fjárfesting og arður af peningum þar í settum skilar sér örugglega hvergi betur en með forvarnarstarfi í þessum málaflokki.