09.12.1987
Neðri deild: 20. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1699 í B-deild Alþingistíðinda. (1228)

188. mál, brunavarnir og brunamál

Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Ég þakka þær undirtektir sem frv. hefur fengið sem sýnir ljóslega áhuga þeirra sem hér hafa talað á auknu brunavarnaeftirliti og að það verði verulega eflt, svo og að aukin verði þjálfun slökkviliðsmanna.

Ég vil reyna að svara þeim fyrirspurnum sem til mín hefur verið beint.

Hv. 6. þm. Norðurl. e., Stefán Valgeirsson, beindi þeirri spurningu til mín hvað þetta mundi gefa Brunamálastofnun mikið í tekjur. Þar er gert ráð fyrir að hvert prómill gefi um 6 millj. þannig að 0,04 prómill mundi gefa 24 millj. kr. Eins og kom fram í minni framsöguræðu hafði Brunamálastofnun á yfirstandandi ári um 10 millj. kr. í tekjur og þó að gert sé ráð fyrir að Brunamálastofnun greiði niður 5 millj. af skuld ríkissjóðs með þessari fjárhæð er samt sem áður gert ráð fyrir auknu svigrúmi Brunamálastofnunar frá því sem nú er og að þessar tekjur, sem hún mundi hafa miðað við breytt lög, ættu að duga vel fyrir rekstrinum og einnig til þess að hægt sé að auka nokkuð brunavarnaeftirlit þó að ég gæti tekið undir að það mætti vera meira sem hægt væri að auka eftirlitið, en til þess þarf auðvitað meira fjármagn en hér er lagt til.

Að því er varðar fyrirspurn hv. 4. þm. Norðurl. e., Steingríms J. Sigfússonar, vil ég svara þeim fyrirspurnum sem hann beindi til mín. Hann spurði um skuld Brunamálastofnunar við ríkissjóð, hvort ekki hefði komið til tals að fella hana niður, ef ég skildi spurningu hans rétt. Í því sambandi vil ég svara því til að þetta frv., eins og kemur fram í grg., var samið í félmrn. í samráði við Ingimund Sigurpálsson, formann stjórnar Brunamálastofnunar ríkisins, Bergstein Gizurarson brunamálastjóra og Magnús E. Guðjónsson framkvæmdastjóra Sambands ísl. sveitarfélaga og tillaga þeirra var lögð inn til mín með þeim hætti sem ég hef lagt hana fyrir Alþingi.

Enn fremur vil ég bæta við að í starfsáætlun ríkisstjórnarinnar er lögð áhersla á sjálfstæði og rekstrarábyrgð ýmissa stofnana ríkisins, að hún verði aukin og þeim gert að afla sér í auknum mæli tekna fyrir veitta þjónustu. Með þessu er að því stefnt að þeir sem njóti þjónustunnar greiði þann kostnað sem hún hefur í för með sér. Frv. því sem ég mæli fyrir er einmitt ætlað að stefna í þá átt sem ég hef hér lýst og fram kemur í starfsáætlun ríkisstjórnarinnar. Svo ég svari spurningunni beint kom það ekki til tals að ríkissjóður mundi greiða þessa skuld heldur var gert ráð fyrir að það mundi greiðast af þessum iðgjaldatekjum og gert ráð fyrir að þessi skuld, sem er 14 millj., greiðist niður á þremur árum, þ.e. 5 millj. kr. á ári. En þá mætti annaðhvort endurskoða þetta gjald til lækkunar eða þá að Brunamálastofnun héldi þessu gjaldi og gæti þá aukið við sín verkefni og styrkt brunavarnaeftirlitið.

Að því er varðar það brunavarnaátak sem hv. þm. nefndi, brunavarnaátak Landssambands slökkviliðsmanna, er hér vissulega um mjög þarft framtak að ræða. Þetta brunavarnaátak hefur ekki verið kynnt sérstaklega af landssambandinu eða öðrum aðilum fyrir félmrn. þannig að mér er ekki alveg kunnugt um hvernig að þessu er staðið. Engu að síður hafa fulltrúar frá Landssambandi slökkviliðsmanna gengið á minn fund meðan ég hef verið í sæti félmrh. og kynnt fyrir mér að þeir hafi mikinn áhuga á að fræðsla og þjálfun slökkviliðsmanna verði verulega aukin sem þeir telja mikið á skorta. Brunamálastofnun hefur haft þetta með höndum. Það þarf vissulega að gera Brunamálastofnun betur kleift að sinna því mikilvæga hlutverki sem er fræðsla og þjálfun slökkviliðsmanna.

Þegar þeir gengu á minn fund kynntu þeir fyrir mér áhugavert átak, sem þeir hyggjast standa fyrir, sem er að auka fræðslu um brunavarnir í skólum. Höfðu þeir í huga að gefa út fræðslurit í því efni. Ég taldi hér um mjög þarft framtak þeirra slökkviliðsmanna að ræða sem mun kosta nokkra fjármuni. Félmrn. styrkti þetta framtak slökkviliðsmanna af fjárveitingu ráðuneytisins um 100 þús. kr., sem vissulega er hvergi nægjanlegt til að standa undir þessu verkefni, en engu að síður sýnir þetta ákveðna viðleitni í því efni að styrkja starf Landssambands slökkviliðsmanna sem vissulega er mjög mikilvægt.

Ég vænti þess einnig að þegar svigrúm Brunamálastofnunar eykst með því að hún fái auknar tekjur af iðgjöldum geti hún betur sinnt því starfi sem henni er vissulega ætlað skv. lögum, þ.e. að auka fræðslu og þjálfun slökkviliðsmanna og sinna í einu og öllu betur brunavarnaeftirliti en kleift hefur verið við þær aðstæður sem henni hafa verið búnar og hinn þrönga fjárhag stofnunarinnar til þessa.

Herra forseti. Ég ítreka í lokin að það er mikilvægt, eins og mörg önnur mál sem liggja fyrir þinginu, að frv. fáist afgreitt fyrir jólaleyfi þm. Við það er miðað í gildistökuákvæði frv. að það geti tekið gildi frá nk. áramótum, en það er mjög mikilvægt að þessi breytta innheimta á iðgjöldum geti einmitt hafist frá áramótum.