09.12.1987
Neðri deild: 20. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1701 í B-deild Alþingistíðinda. (1229)

188. mál, brunavarnir og brunamál

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Aðeins fáein orð. Ég tek það fram að ég tel mjög mikilvægt, eins og aðrir ræðumenn hafa tíundað, að tryggja vel hag Brunamálastofnunar og ég er alls ekki andvígur þessu máli, ég bið menn að taka það ekki svo, enda á ekki að gera það yfirleitt, að þó maður spyrji spurninga og og reisi spurningar um einstök efnisatriði þýði það sjálfkrafa að maður geti ekki verið fylgjandi viðkomandi máli. Ég taldi hins vegar rétt að fá betri upplýsingar og fá svör við ákveðnum spurningum um stöðu Brunamálastofnunar og það sama gerðu greinilega fleiri hv. þm.

Ég vil taka það fram að mér sýnist að stofnunin verði, með tilliti til þeirrar skuldastöðu sem hún er í, ekki ofhaldin af þessari prósentu næstu árin. Þvert á móti, ef ég reikna nú næstum að segja á fingrum mér 0,04% af 620 milljarða skattstofni, fæ ég út úr því tæplega 25 millj. kr. Í umsögn um 1. gr. frv. kemur fram að gert er ráð fyrir því að rekstur Brunamálastofnunar ríkisins kosti um 23 millj. kr. á næsta ári og þá eru ekki eftir nema tæpar 2 millj. til að greiða niður. (Gripið fram í.) Nei. Með leyfi forsefa segir: „Í frv. til fjárlaga ársins 1988 er reiknað með að rekstur Brunamálastofnunar ríkisins kosti um 23 millj. kr. Þessu til viðbótar er áætlað að 5 millj. kr. fari til að greiða niður skuld stofnunarinnar við ríkissjóð sem reiknað er með að nemi um 14 millj. kr. um næstu áramót.“ Það er þá annaðhvort að frv. er vitlaust eða orðið hefur prentvilla í þskj. eða hæstv. ráðherra hefur ekki nógu góðar upplýsingar um rekstrarkostnað stofnunarinnar og þær tekjur sem hún fær af þessari meintu prósentu því þarna stemmir ekki saman alveg greinilega. Miðað við þessar forsendur, sem gefnar eru upp í frv., hefur stofnunin tæpar 2 millj. umfram áætlaðan rekstrarkostnað til að greiða niður 14 millj. kr. skuld og þá tekur það meira en þrjú ár. Það eru alveg hreinar línur.

Ég hefði talið að það hefði ekki veitt af og verið skynsamleg ráðstöfun af hálfu ríkisins að slétta reikningana og leyfa stofnuninni engu að síður að hafa þessa prósentu því að varlá verður mikið gert að öðrum kosti í forvarnarstarfi. Ég tala nú ekki um ef þarf að koma því á framfæri með dýrum auglýsingum sem nú virðist nauðsynlegt, a.m.k. hjá Landssambandi slökkviliðsmanna. Þá gera menn ekki mikið fyrir upphæðir sem hlaupa á hundruðum þúsunda eða fáeinum milljónum.

Ég vil svo taka undir það sem hv. 1. þm. Reykn. sagði áðan í mjög athyglisverðri ræðu, að manni kemur í raun á óvart, með hliðsjón af þeim geysilegu verðmætum sem eru í fasteignum í landinu og brunatryggðum eignum í landinu, hvað umfang Brunamálastofnunarinnar, sem hefur svo veigamiklu hlutverki að gegna, er í raun og veru lítið. Ég tel að það sé mjög athyglisvert að efla þurfi Brunamálastofnunina og gera henni kleift að koma til að mynda á fót rannsóknardeild. Það er alveg ljóst að þeir miklu skaðar sem orðið hafa í brunum hér á landi, sérstaklega í ákveðnum greinum eins og fiskiðnaðinum, kalla á að þau mál séu rannsökuð, bæði fyrir og eftir, þ. e. gera jafnvel tilraunir með efni og brunaþol hluta og síðan að rannsaka á brunastað hvað gæti hafa farið úrskeiðis. Ég hygg að þessum þætti sé verulega ábótavant hjá okkur. Ég leyfi mér að segja að það sé ekki það hvað við höfum staðið vel að þessum málum sem gerir að verkum að brunatjón eru tiltölulega lítil á Íslandi miðað við önnur lönd heldur fyrst og fremst að hér eru aðallega byggð steinhús og hér er þéttbýli ekki eins mikið og víða annars staðar.