10.12.1987
Sameinað þing: 30. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1702 í B-deild Alþingistíðinda. (1231)

Vinnubrögð við undirbúning fjárlaga

Óli Þ. Guðbjartsson:

Hæstv. forseti. Það er ekki með glöðu geði sem ég kveð mér hljóðs um þingsköp í hv. Sþ. Tilefnið eru vinnubrögð og vinnulag þingsins við undirbúning fjárlaga og spurningar sem ég leyfi mér að beina til hæstv. forseta í því sambandi og enn fremur mjög áríðandi tilmæli sem ég leyfi mér einnig að beina til hæstv. forseta um þessi efni.

Fjárlagafrv. var lagt fram á hv. Alþingi í október eins og þingsköp og hefð krefjast. Frv. var vísað til hv. fjvn. að lokinni 1. umr. Skv. frv. var gert ráð fyrir margs konar nýrri lagasetningu jafnframt og samhliða afgreiðslu fjárlagafrv. í þinginu, ekki færri en 12 lagafrv. sem ýmist eru í meðförum þingsins ellegar enn ókomin þó langt sé liðið á aðventu. Flest snerta þau tekjuhlið frv. til fjárlaga og kem ég þá senn að kjarna máls míns.

Nú bregður svo við í þann mund sem fjölmiðlun hefst um áhrif þessarar væntanlegu lagasetningar á tekjuhlið fjárlagafrv. að fréttir berast um það og hæstv. ríkisstjórn borin fyrir hver búhnykkur þessar aðgerðir allar verði ríkissjóði. Að vísu voru fréttir þessar ónákvæmar eins og gengur í miklum aflahrotum, talað um 600 millj. kr. fyrsta daginn, 1000 millj. annan daginn, en jafnvel þrjá milljarða í munni þeirra sem töldu sig tölugleggsta.

En það sem mér þykir athygli verðast og er fyrsta tilefni til spurningar minnar til hæstv. forseta voru mjög nákvæmar fréttir, sem síðan var fylgt eftir með minnisblaði til hv. fjvn., um skiptingu á hluta þess fjár sem þarna var um rætt. Ekki fór milli mála að hæstv. ríkisstjórn hafði gert tillögu að skiptingu þessa fjár. Því vil ég spyrja, hæstv. forseti: Er það hlutverk hæstv. ríkisstjórnar að vinna að skiptingu fjár í frv. til fjárlaga sem hin sama hæstv. ríkisstjórn hefur þegar lagt fyrir þingið, þingið rætt við 1. umr. og vísað til hv. fjvn. eða er það hlutverk fjvn. Alþingis sem síðan leggur tillögur sínar fyrir hv. Alþingi til 2. umr.? Er eðlilegt að mati hæstv. forseta að hæstv. ríkisstjórn og einstakir ráðherrar hennar gangi fram á þann hátt sem hér var gert og tilkynni þessa skiptingu út í hörgul um gjörvallan fjölmiðlaheiminn á sama tíma sem fjárveitinganefndarmenn þurftu að stíga á stokk og sverja nær daglega trúnaðareiða um þagmælsku um nær hvaðeina sem um getur í störfum fjvn. og leggja við drengskap sinn? Hér er um grundvallaratriði að ræða, hæstv. forseti, sem snerta virðingu þingsins og spurninguna um rétt vinnubrögð og sanngirni í störfum.

Kem ég þá að öðrum þætti þessa máls. Dögum oftar hef ég upp á síðkastið beðið um nýjar upplýsingar til fjvn. frá þeim stofnunum sem þau störf annast um áhrif nýrra viðhorfa og forsendna á tekjuhlið frv. sem flest koma fram í frv. tólf, þ.e. frá Fjárlaga- og hagsýslustofnun og eða Þjóðhagsstofnun. Hér er um kjarna málsins að ræða sem fjvn. er alger nauðsyn að fá upplýsingar um og mat hinna virtustu sérfræðinga þessara og e.t.v. annarra stofnana. Enda þótt ýmsir ágætir fulltrúar þessara stofnana hafi komið til fundar við nefndina hefur enginn stafkrókur — ég endurtek: enginn stafkrókur borist nefndinni enn um þessi nýju viðhorf. Menn hafa unnið af öllu afli til útdeilingar gjaldahliðar frv. og mikilsverðir áfangar þess verks voru kynntir á fundum þm. kjördæmanna í gærkvöld, en hin hliðin hangir vægast sagt í lausu lofti og 2. umr. er ráðgerð á mánudaginn kemur. Því vil ég vinsamlega æskja þess við hæstv. forseta að hann beiti áhrifum sínum svo sem hann frekast má til þess að fjárveitinganefndarmönnum berist svo fljótt sem nokkur kostur er mat Þjóðhagsstofnunar og Fjárlaga- og hagsýslustofnunar á þeim nýju forsendum sem nú eru augljóslega uppi hvað varðar tekjur ríkissjóðs og fyrirtækja hans á næsta ári.