10.12.1987
Sameinað þing: 30. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1704 í B-deild Alþingistíðinda. (1232)

Vinnubrögð við undirbúning fjárlaga

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Mér bárust fréttir af því þegar átti að hefjast fundur með þm. Reyknesinga að þeirra ósk með formanni og varaformanni fjvn. að hér ætti að vera þingskapaumræða um upplýsingaskort í fjvn. sem hafin væri af einum fjárveitinganefndarmanni. Ekki hafði ég hugmynd um að þessi umræða ætti að fara fram fyrr en mér var borin fregn af því út á fundinn sem var að hefjast með þm. Reyknesinga. Síðast sat ég fund með þessum hv. samnefndarmanni mínum í fjvn. í gær og lét hann þess þá í engu getið að þetta stæði til.

Ég veit ekki til annars, herra forseti, en reynt hafi verið af fremsta megni að upplýsa fjárveitinganefndarmenn um öll þau erindi sem þeir hafa borið fram og beðið um upplýsingar um, vil taka sérstaklega fram að það hefur verið mjög góð samvinna í nefndinni, alveg eins við stjórnarandstöðuþm. og stjórnarsinna. Þess vegna kemur mér mjög á óvart ef núna er að hefjast þingskapaumræða um upplýsingaskort í þessari nefnd. Ég hef aðeins fengið eina kvörtun á starfstíma fjvn. frá fjárveitinganefndarmanni. Það var frá hv. fjárveitinganefndarmanni sem nú hefur kvatt sér hljóðs. Það var út af því að fundur hafði verið boðaður kl. fimm á þriðjudag til að hlýða á fulltrúa Þjóðhagsstofnunar fjalla um tekjuáætlun. Þessi fundur var boðaður með löngum fyrirvara eftir því sem gerist og gengur í hv. fjvn. þar sem fundir eru oft boðaðir með skömmum fyrirvara, engar athugasemdir komu um fundartíma, en svo stóð á hjá þessum hv. þm. að hann var í ræðustól kl. fimm, hafði ekki lokið ræðu sinni þegar fundur hófst, sem var boðaður með talsverðum fyrirvara, kom engum beiðnum til mín um frestun fundarins, sem hefði að sjálfsögðu verið samþykkt, en gerði athugasemdir við að fundurinn skyldi hafa verið haldinn án þess að hann gæti mætt á tilsettum tíma því hann stóð þá í ræðustól. Þetta er eina umkvörtunin sem ég hef fengið frá þm. í fjvn. um starfsemi nefndarinnar.

Á þessum fundi kom jafnframt fram að þá um morguninn, sama morgun og fundur var haldinn í nefndinni, hefði Þjóðhagsstofnun fengið í hendur frv. ríkisstjórnarinnar um tekjuöflun. Eins og allir hv. þm. vita gera þessi frumvörp, sem varða alla helstu megintekjustofna ríkisins, ráð fyrir mjög verulegum breytingum á þeim. Þjóðhagsstofnun hafði þá aðeins fengið hálfan dag til að leggja mat sitt á áhrif þessara frv. og lýsti því yfir að á þeim skamma tíma, hálfum degi eftir að hún hafði fengið umrædd frv. sem gera ráð fyrir gerbyltingu á tekjustofnum ríkisins, hefði hún enga möguleika haft til að leggja talnalegt mat á niðurstöðuna, en jafnframt lýsti forstjóri Þjóðhagsstofnunar því yfir að hann mundi vinna það verk eins fljótt og kostur gæfist, reiknaði með að því yrði lokið nk. laugardag, tveimur sólarhringum fyrir 2. umr., og ég tók það sérstaklega fram að ég mundi hafa samband við hann og kalla fjvn. saman til fundar til að hlýða á niðurstöður hans um leið og þær lægju fyrir, sem eftir hans sögn var áformað að gæti orðið á laugardaginn eins og ég segi.

Þetta þýðir það, miðað við mína þingreynslu, að ljóst er að meiri upplýsingar um þau efni ættu að geta legið fyrir við 2. umr. fjárlaga en oftast áður. Venjan er sú að umræddar upplýsingar um endurskoðaða tekjuáætlun liggja ekki fyrir í endanlegu horfi fyrr en fyrir 3. umr. fjárlaga. Það er vaninn. Slíkt hefur alltaf verið gert. Ef einhverjar breytingar eru í aðsigi núna eru þær í þá veru að upplýsa betur um þessa hluti við afgreiðslu fjárlaga nú en vaninn hefur verið í fjöldamörg ár.

Ég tel því skjóta mjög skökku við, herra forseti, ef ungur þm., þ.e. hvað starfsaldur varðar, sem hefur tæplega hálfs árs reynslu af störfum í fjvn. og allt hefur verið reynt að gera í nefndinni til að upplýsa um hvað eina sem hann hefur beðið um, er nú að gera athugasemdir um starfsemi nefndarinnar án þess að hafa látið formann nefndarinnar af því vita og án þess að hafa komið með nokkra einustu kvörtun í nefndinni aðra en þá að það skyldi hafa verið haldinn fundur á boðuðum fundartíma án þess að tillit hafi verið tekið til þess, sem enginn vissi í nefndinni, að hv. þm. var þá í miðri ræðu.