10.12.1987
Sameinað þing: 30. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1705 í B-deild Alþingistíðinda. (1234)

Vinnubrögð við undirbúning fjárlaga

Albert Guðmundsson:

Hæstv. forseti. Ég mótmæli því að hv. formaður fjvn. kemur hér upp og gerir mun á því hvort menn hafi verið hér deginum lengur eða deginum skemur, mánuðinum lengur eða mánuðinum skemur sem þm. Hér hafa þm. sama rétt hve lengi sem þeir hafa setið á þingi um leið og þeir hafa hlotið til þess traust fólksins í landinu.

Ég hef þekkt hv. fyrirspyrjanda tiltölulega stuttan tíma, en það eru fáir einstaklingar sem hafa unnið mitt traust eins gersamlega á eins skömmum tíma og hann þannig að ég dreg í efa að það sé að athuguðu máli sem hv. formaður fjvn. leyfir sér að láta þau orð falla að hans vinnubrögð séu að einhverju leyti ámælisverð sem nefndarmanns í fjvn. Ég segi það alveg eins og er, og er ég búinn að vera lengur fjmrh. en hv. formaður fjvn. var, að þau vinnubrögð sem nú eiga sér stað í fjvn. eru mér óþekkt og er ég þó búinn að vera þm. lengur en hann eða frá 1974 stanslaust. Við skulum ekki fara út í karp um slíka hluti. Ég veit ekki til þess þann tíma sem ég hef verið hér að tekjuhlið fjárlaga sé ekki þekkt þegar fjárlög eru lögð fram. Og þegar fjárlög eru lögð fram eru þau lögð fram sem þskj. ríkisstjórnar, sem stjfrv. En í þetta sinn eru þau ekki lögð fram sem stjfrv. Ég hef áður sagt það hér. Þetta er þmfrv. þeirra ráðherra sem sitja sem þm. í ráðherrastólum.

Um leið og þskj. er komið fram, frv. til l., og lagt fram í nafni ríkisstjórnar kemur athugasemd um tekjuhlið frá hæstv. landbrh. Það kemur athugasemd með yfirlýsingum í blöðum frá hæstv. iðnrh. um að ráðstöfunum sem gerðar eru við framlagningu og mótun fjárlaga muni hann beita sér fyrir að verði breytt í fjvn. Það kemur yfirlýsing frá hæstv. menntmrh. um að hann muni beita sér fyrir breytingarráðstöfunum hvað snertir þjóðarbókhlöðu. Svona gengur þetta fram og til baka.

Það er ekki nokkur leið að henda reiður á hvað er hvað í samstarfi ráðherranna um fjárlögin. Og svo eru menn hissa á því að menn úr öðrum flokkum en ríkisstjórnarflokkunum sem eiga að starfa í samstarfi við ríkisstjórnarfulltrúa í fjvn. og eru að dreifa útgjöldum á hina ýmsu liði, vilji fá að vita hvað þeir hafi mikið fé til ráðstöfunar. Það er ætlast til þess að útgjaldaliðir séu kláraðir þótt tekjurnar séu óþekktar. Hér kom á borðið í dag, skilst mér, það gæti þó verið að því hafi verið dreift í gær, plagg sem mér er sagt að þýði 14% vörugjaldsinnheimtu. En 14% á hvað? Á alveg nýjan stofn. Mér er sagt að það eigi að bæta við 25% heildsöluálagningu á innheimtustofn vörugjalda sem þýðir 25% hækkun á vörugjöldum. Þau eru þá ekki 14%. Þau eru 171/2%. Það er nokkuð mikil upphæð í umframtekjum.

Það er hörmulegt til þess að vita að eftir að ríkisstjórn leyfir sér með athugasemdum ráðherra að leggja fram fjárlagafrv. skuli þeir svo sjálfir, eftir að hv. Alþingi hefur tekið frv. til l. umr. og Alþingi hefur tekið málið til meðferðar og vísað því í nefnd Alþingis, leyfa sér að stíga fram fyrir löggjafarvaldið og taka til baka þetta falska plagg og breyta því svo þúsund milljónum skiptir. Hvaða vinnubrögð eru þetta? Það er staðfest af ríkisstjórninni að það frv. sem lagt var fram var falskt skjal, ekki marktækt.

Það er lagt fram í nafni ríkisstjórnar og ráðherrar gera athugasemdir við það. Hér hafa staðið upp þm. stjórnarflokkanna og gert athugasemdir við það og sumir lýst því yfir að þeir muni ekki fylgja því. Þetta er falskt plagg! Þetta er skjalafölsun frá ríkisstjórnarinnar hálfu, frv. eins og það leggur sig! Og þeir taka það til baka. Þeir eru að breyta þessu falska plaggi um þúsund milljónir nokkrum dögum áður en Alþingi á að afgreiða það endanlega. Og svo tala menn um að það sé óeðlilegt að stjórnarandstæðingar, sem eiga engan þátt í þessu falsaða skjali, vilji fá að vita: Hvaða tekjur höfum við til að dreifa á kostnaðarliði? Er það nokkur furða þó að kona sem er vön að vinna, sem er vön að fá vinnulaun miðað við vinnuframlag, sem kemur inn á Alþingi og sér þessi vinnubrögð, geri fyrirspurn eins og mér er sagt að frú Aðalheiður Bjarnfreðsdóttir hafi gert fyrir nokkrum dögum? Er það nokkur furða að þjóðin í heild missi trúna á þessi vinnubrögð Alþingis?

Ég undirstrika sem formaður flokks á hv. Alþingi: Ég krefst þess að stjórnarliðar svari því sem hér hefur verið spurt um og gerðar athugasemdir við. Ég krefst þess að fá að vita hvers vegna minn fulltrúi í fjvn. er bundinn þannig trúnaði að hann getur ekki samkvæmt drengskaparheiti talað við sína samþm. eða formann síns flokks, en á sama tíma koma ráðherrar úr ríkisstjórn og veita upplýsingar um trúnaðinn í fjölmiðlum. Hvers lags leikaraskapur er þetta?

Hæstv. forseti. Eitt af því fáa, næstum því það eina sem gerir það að verkum að mark er tekið á stjórnskipulagi þjóðarinnar er framkoma og staðfesta forseta, því að ríkisstjórnin, sundurlaus með fölsuð skjöl og upplýsingaskort, hefur misst allan trúnað, enda heyrist varla minnst á forsrh.utanrrh. sem eru forustumenn tveggja flokka í ríkisstjórn. Það heyrist ekki minnst á formenn þingflokka þessara flokka, Sjálfstfl. og Framsfl. Þeir eru týndir. Þeir eru faldir bak við alþýðuflokksforustuna. Og það er Alþfl. sem hefur forustuna í þessum fjármálum öllum, en Sjálfstfl. og Framsfl. láta sér nægja að fylgja eins og þægir rakkar.

Virðulegi forsrh. Það er mjög slæmt ef kýrin er búin að gleyma því að hún var einu sinni kálfur. — Nei, þið sleppið ekki. Ef þið viljið koma nokkru máli í gegn á þessu ári, fjárlögum eða öðru, skuluð þið veita þær upplýsingar sem við þurfum, sem við biðjum um, sem við eigum kröfu til að fá. Við það sleppið þið ekki því að hér verða lesnar upp Íslendingasögurnar ef ekki dugar annað til til að fá ykkur til að skilja að hér í gegn fer ekkert mál. Hér stend ég með bækur í hendi og sé um að það fer ekkert mál í gegn ef þið ekki veitið upplýsingar.