10.12.1987
Sameinað þing: 30. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1707 í B-deild Alþingistíðinda. (1235)

Vinnubrögð við undirbúning fjárlaga

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Það er vissulega illt að við skulum þurfa að nýta takmarkaðan starfstíma þingsins nú í jólaönnum til að ræða um starfshætti og þingsköp, en hjá því verður ekki komist í ljósi þess sem hefur verið að gerast síðustu dægrin og síðustu klukkustundirnar í sambandi við þingstörfin.

Hv. formaður Borgarafl., Albert Guðmundsson, sem talaði áðan, ræddi um að hann færi að draga fram Íslendingasögurnar, Víga-Glúms sögu og aðrar fleiri, til að lesa hér yfir til að halda mönnum við efnið, en ég held að svo ágæt lesning sem það er, þá hæfði betur að hún færi fram í jólahléi þingsins, menn gætu gluggað í þær bækur í jólahléi, en hefðu einhvern tíma til að kynna sér þau þinggögn, m.a. frá ríkisstjórninni, sem er verið að dreifa á borð Alþingis núna þessa síðustu starfsdaga þingsins fyrir jól, þar á meðal frv. til l. um breytingar á tollalögum upp á 340 bls. Ég hefði sem þm. kosið að hafa einhvern tíma og tækifæri til að kynna mér efni þeirra stjfrv. sem er að rigna hér inn og mér er sagt að sé skilyrði af hálfu samstarfsaðila í ríkisstjórn að verði afgreidd sem lög frá Alþingi fyrir jól.

Það var talað um að sumir ráðherrarnir skýldu sér á bak við Alþfl. í sínum störfum, þar á meðal hæstv. forsrh., en á sama tíma heyrum við í morgunfréttum útvarpsins að einn af ráðherrum Alþfl. í ríkisstjórn hefði tekið um það ákvörðun að mæta ekki á fundi og taka ekki þátt í störfum ríkisstjórnar Íslands á næstu dögum nema ákveðið frv. sem hann stendur að, sá ágæti ráðherra, hæstv. ráðherra Jóhanna Sigurðardóttir, verði afgreitt, afgreiðsla þess verði tryggð fyrir hátíðar, fyrir jólahlé þingsins. Þannig er nú ekki mikið skjólið í Alþfl. að þessu leyti. Það glittir a.m.k. í hina ráðherrana á bak við.

Herra forseti. Ég vildi ræða sérstaklega um það sambandsleysi sem er greinilega milli forustu þingsins, forseta þingsins, og formanna í þingnefndum. Það er verið að kveðja til nefndarfundi og reyna að halda uppi nefndarfundum um hin þýðingarmestu mál á sama tíma og boðað er til funda í sameinuðu þingi. Það var til þess ætlast af forustu ríkisstjórnarinnar í sjávarútvegsnefndum Alþingis í morgun að fram yrði haldið fundi á starfstíma Sþ. eitthvað fram undir hádegið ef svo skyldi verkast og búið að kveðja til stóran hóp manna utan úr bæ samkvæmt óskum nefndarmanna til viðræðna. Það tókst að ræða við hluta af því fólki sem þarna var komið og við urðum að biðja aðra um að mæta síðar því að formaður nefndarinnar, hv. þm. Karvel Pálmason, formaður sjútvn. Ed., tók tillit til ítrekaðra óska af minni hálfu og fleiri í nefndinni að við héldum ekki uppi fundahaldi á meðan væri fundað í sameinuðu þingi. Hér verður að gæta lágmarkssamræmis í störfum og verður að reyna að tryggja að nefndir fái tíma til starfa og það rekist ekki á við auglýsta fundatíma þingsins.

Ég vil helst ekki þurfa að rifja upp úr ræðustól þau orð sem maður heyrir falla frá sumum hv. stjórnarþm. um gildi þess að sitja á fundum í Sþ. undir fyrirspurnakarpi og öðru slíku. Ég ætla ekki að fara að hafa það uppi orðrétt, en það er heldur nöturlegt að verða vitni að því hvaða ummæli falla frá stjórnarliðum sem eru að reyna að keyra málin í gegn, ólesin og óathuguð, með þeim hætti sem við blasir. Ég treysti forustu þingsins til þess og forsetum að taka upp skipulegt samráð við formenn þingnefnda og reyna að tryggja að störf geti farið fram með eðlilegum hætti og það helst án þess að við brjótum vökulögin.

Ég vildi þá einnig nefna starfshætti fjvn. Alþingis sem komu hér til umræðu áður en ég kom til fundar fimm mínútur yfir tíu í þessari umræðu um þingsköp en heyrði að það var þar á dagskrá. Ég ætla ekki að taka afstöðu til þess sem þar var rætt vegna þess að ég gat ekki fylgst með því í öllum atriðum, en ég vil nefna eitt í því samhengi og það er sú staðreynd að við þm., sem er ætlað að fjalla um vissa þætti fjárlagaafgreiðslunnar, þ.e. skiptingu á vissum fjárlagaliðum til framkvæmda í kjördæmum okkar, fáum þær upplýsingar í hendur kl. sjö í gærkvöld, fyrstu upplýsingar um hvernig meiri hlutinn í fjvn. eða fjvn. í sameiningu eftir atvikum leggur til að skipt sé fjárveitingum til skóla, sjúkrahúsa, hafna og fleiri framkvæmdaþátta, og aðrir eru ekki enn fram komnir og yrðum að taka afstöðu til þess á því sama kvöldi án þess að hafa tækifæri til að fara yfir það og bera saman við óskir heiman að frá, til að gera sér grein fyrir því hvað þarna var á ferðinni því að málið yrði að fara í prentun í morgunsárið vegna starfshátta hér í þinginu. Síðar bárust mér fréttir af því síðla kvölds í gær að það ætti ekki eitt yfir alla að ganga í þessum efnum. Það væri búið að knýja það fram í sumum þingmannahópum, sem virðast ráða meira en aðrir í þessum efnum, og það er út af fyrir sig gott að það hefur tekist í hópum sumra þm. úr kjördæmunum að knýja fram lengri frest. En ég spyr: Hvaða samræmi er þetta í vinnubrögðum? Hvernig í ósköpunum á þetta að ganga upp? Hvernig eigum við að geta unað við það, fulltrúar sumra kjördæma, að eiga að skila af okkar nánast að óathuguðu máli afstöðu til skiptingar á framkvæmdafé á meðan aðrir taka sér eitt dægur eða heilan sólarhring í viðbót? Slíkt gengur að sjálfsögðu ekki og þetta er enn eitt dæmið um þau vinnubrögð sem hér eru uppi höfð síðustu dægrin.

Ég vil taka undir þau mótmæli sem hér hafa fallið frá fulltrúum stjórnarandstöðunnar og frá hv. þm. Albert Guðmundssyni áðan í sambandi við þessa starfshætti á Alþingi nú. Það verður ekki við þetta unað af hálfu stjórnarandstöðunnar. Það er aldeilis útilokað að við getum undir þessu setið. Og það er lágmarksatriði að forusta þingsins taki sér tak og taki sér tíma til að fara yfir það með formönnum þingnefnda hvernig er ætlunin að standa að vinnu hér á Alþingi, ég tala nú ekki um afgreiðslu þeirra doðranta sem verið er að leggja hér fyrir þingið á allra síðustu starfsdögum fyrir hátíðar.