10.12.1987
Sameinað þing: 30. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1709 í B-deild Alþingistíðinda. (1236)

Vinnubrögð við undirbúning fjárlaga

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að taka þátt í því karpi, um sumt lítt skiljanlegu karpi, sem hér hefur verið stundað úr ræðustól og mér finnst ástæðulaust. Ég tek undir það með hv. síðasta ræðumanni að menn ættu að fara heim til að lesa, hvort sem það eru Íslendinga sögur eða Gunnlaðar saga sem maður fer heim til að lesa, fremur en að þylja það hér á Alþingi. Ég held að það mundi ekki auka sóma hv. þm. Alberts Guðmundssonar þó að hann byrjaði að lesa úr Íslendingasögum fram undir jól. Það verður hann auðvitað að eiga við sig, hv. þm., hvort hann teldi að það væri sér og flokki sínum til framdráttar.

Ég vil taka fram í þessu sambandi að þær breytingar hafa orðið á starfsháttum Alþingis, þá sérstaklega fjvn., að erindum til nefndarinnar hefur fjölgað gífurlega á fáum árum. Það er ljóst í mínum huga og margra annarra að ef nefndin verður að halda sig við þá starfshætti sem hafa ríkt og ríkja enn, að hún á raunverulega ekki að geta hafið störf fyrr en þing hefur komið saman og kosið nefndina því að umboð hennar fellur niður við þinglausnir á hverju vori, mundi nefndin varla geta lokið sínu verki á tilsettum tíma. Menn hafa verið að reyna að lifa við þetta með ýmsum aðferðum, sem út af fyrir sig eru ekki í samræmi við lög um þingsköp, en það er niðurstaða okkar fjárveitinganefndarmanna allra, bæði stjórnarsinna og stjórnarandstæðinga, að við höfum óskað eftir því við forseta formlega í bréfi og formenn þingflokka að það verði tekið til skoðunar að breyta lögum um þingsköp þannig að fjvn. væri gert fært eins og utanrmn. að starfa allt árið. Þá gætum við létt af okkur mjög miklum störfum sem ella hlaðast á síðustu vikur fyrir jól og mundi það greiða mjög fyrir starfsemi nefndarinnar.

Í annan stað vil ég taka fram út af orðum hv. þm. Alberts Guðmundssonar að það hefur alltaf ríkt sú vinnuregla í fjvn. að á meðan nefndin fjallar um fjárlagafrv. ríkisstjórnarinnar eru þær upplýsingar sem þar koma fram og umfjöllun trúnaðarmál. Sá trúnaður hvílir jafnt á okkur stjórnarsinnum í fjvn. sem stjórnarandstæðingum. Og ég get fullyrt að stjórnarsinnar utan fjvn. fá ekki frekari upplýsingar um það sem verið er að vinna í fjvn. en stjórnarandstæðingar. Þar er jafnt á komið. Fjárveitinganefndarmenn virða þann trúnað sem ríkir í nefndinni hvort sem um er að ræða stjórnarsinna eða stjórnarandstæðinga. Sé erfitt að ljúka störfum í fjvn. á þeim skamma tíma sem er á haustmánuðum þar til fjárlög þarf að afgreiða get ég fullyrt að ef þessi trúnaður væri ekki, ef 63 þm. væru meira og minna að hafa afskipti af störfum fjvn. á meðan hún væri að vinna, mundi ekki veturinn endast til að ljúka því sem hún þarf að gera, hvað þá heldur að menn gætu lokið því á tilsettum tíma fyrir áramót.

Það er mjög algengt að menn ræði hér á Alþingi og utan Alþingis um að þm. skili ekki starfi. Þessu vil ég algerlega mótmæla. Menn hafa setið hér núna, eins og fram hefur komið, í störfum frá morgni og fram á rauðar nætur og menn gera það auðvitað ekki að gamni sínu að mæta ekki á þingfundum nema kannski í upphafi funda. Menn gera það vegna þess að vinnuálagið er svo mikið að menn eiga engan annan kost en þann að reyna líka að starfa í nefndum á þeim tíma sem menn ættu raunar að sitja hér og taka þátt í þingfundum, bæði tala og hlusta.

En það er annað sem er sérkennilegt við þingstarfið. Það er að þm. skapa sér að mjög verulegu leyti sína vinnu sjálfir. Menn geta setið á þingi og látið sér nægja að sitja á þingfundum og kannski taka þátt í nefndarfundum sem áheyrendur og hlustendur en lagt ekkert til þar fyrir utan. Það er alveg rétt að slíkir þm. leggja kannski ekki mikla vinnu fram og hafa kannski ekki laun í samræmi við sitt vinnuframlag, en allflestir þm. vinna þar fyrir utan mikið starf sem fram kemur t.d. í flutningi mála frá þeim sömu þm. hér á þingi. En auðvitað er svo um þm. eins og aðra að það eru mismörg málin sem þeir flytja. Sumir flytja aldrei mál.

Herra forseti. Aðeins í lokin. Það kom mér á óvart að þessi umræða skyldi hér hefjast. Við vorum á fundi í fjvn. síðdegis í gær, sátum á fundi til klukkan að verða sex. Þar á meðal var sá hv. þm. sem hóf þessa umræðu. Þá minntist hann ekki á að það stæði til að hefja þingskapaumræðu um upplýsingaskort í nefndinni. Hv. þm. hefur aðeins eina umkvörtun gert í þessari nefnd sem ég gat um áðan, sagði frá hver var ástæða þeirrar umkvörtunar. Ég hef líka sagt frá því að við höfum gert allt sem við höfum getað til að fullnægja ósk hv. þm. um að hann fái eins fljótt og verða má að vita um niðurstöður Þjóðhagsstofnunar úr athugun hennar á áhrifum þeirra nýju frumvarpa sem liggja fyrir Alþingi nú. Sú umræða sem hér fór fram kom mér því í opna skjöldu og ég held einnig öðrum fjárveitinganefndarmönnum. Og ég vek athygli á því, herra forseti, að enginn annar fjárveitinganefndarmaður, ekki heldur neinn fjárveitinganefndarmaður annar úr röðum stjórnarandstöðunnar, hefur séð ástæðu til að taka hér til máls og taka undir ummæli hv. þm. Óla Þ. Guðbjartssonar. Ég vil því leyfa mér að líta svo á og raunar tel mig vita það, að þó svo það sé margt athugavert við störf Alþingis nú eru ekki aðrir þm. í fjvn. á þeirri skoðun, sem virðist vera að hv. þm. Óli Þ. Guðbjartsson sé á, að menn hafi ekki reynt að gera það sem þeir hafa getað til að upplýsa fjárveitinganefndarmenn um þau atriði sem vitað er um í fjvn. (Gripið fram í.) Herra forseti. Væri nokkur möguleiki á því að fá vinnufrið fyrir hv. þm. Borgarafl.?

Ég vil aðeins láta þess getið út af ummælum hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar áðan að fjvn. lauk umfjöllun sinni um þessa framkvæmdalista kl. tæplega sex. Hálftíma síðar hófst fundur Austurlandsþingmanna um málið. Það rétt náðist að hægt væri að ljósrita fyrir þá upplýsingagögnin, sem fjvn. var að ljúka umfjöllun sinni um, nægilega snemma til þess að þeir gætu hafið sinn fund. Þeir fengu gögnin í hendur hálftíma eftir að þau lágu fyrir í fjvn.

Það er líka rétt hjá hv. þm. að ef við eigum að ná 2. umr. um fjárlög nk. mánudag þarf prentun tillagna fjvn. að hefjast nú eftir hádegið. Þess vegna, herra forseti, því miður, varð að leggja á það kapp við þm. að þeir reyndu að ljúka sinni umfjöllun í gær. Tveir þingmannahópar gátu hins vegar ekki af ýmsum ástæðum haft fundi sína í gærkvöld á sama tíma og við hinir. Þess vegna hafa þeir beðið um fundi með oddvitum fjvn. sem áttu að hefjast núna kl. tíu og hefðu staðið yfir ef ekki hefði komið fram þessi þingskapaumræða þannig að hún hefur enn orðið til þess að tefja framgang málanna vegna þess að ég hef ekki treyst mér til að vera fjarverandi á fundum með öðrum þm. út af þessu máli.

Í lokin þetta: Ég geri mér alveg fullkomlega ljóst að það er réttmætt, sem hv. þingflokksformaður Alþb. gat um í umræðum fyrir nokkrum dögum, að við erum komnir í mjög mikla tímaþröng með mjög mikilvæg mál. Til að ná þeim fram þarf að eiga sér stað gott samstarf við stjórnarandstöðu, ekki endilega um að stjórnarandstaðan fallist á mál ríkisstjórnarinnar heldur að stjórnarandstaðan fallist á að leggja á sig mjög mikla vinnu til að geta greitt fyrir afgreiðslu þessara mála. Ég held að það sé ekki bara æskilegt heldur nauðsynlegt fyrir ríkisstjórnina og stjórnarliðið að hafa gott samstarf við stjórnarandstöðuna svo að þetta sé hægt. Ég endurtek það, sem ég sagði áðan, að þessi umræða um upplýsingaskort í fjvn. er ekki á rökum reist. Hún kom mér á óvart og ég hafði ekkert af henni vitað fyrr en mér var tilkynnt úti í Þórshamri að hún væri að hefjast.

En ég tel ekki ástæðu til að halda þessari umræðu öllu meira áfram. Ég held að það sé meiri ástæða til þess að Alþingi fari nú að ganga að þeim verkum sem þingið þarf að vinna til þess að það geti lokið störfum á eðlilegum tíma.