10.12.1987
Sameinað þing: 30. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1714 í B-deild Alþingistíðinda. (1240)

Vinnubrögð við undirbúning fjárlaga

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég tek undir að það þarf svo sem ekki að sækja sér lestrarefni í fornsögurnar til að hafa nóg að gera hér fram að jólunum. Svo ítarleg er tollskráin og svo smáletruð að jafnvel Víga-Glúms saga og Sturlunga komast held ég ekki í hálfkvisti við hana hvað orðafjölda snertir. Ég veit ekki hvort menn hafa haft enn þá tíma til að fletta tollskránni og átta sig á hversu geysilega sundurliðað plagg þar er á ferðinni. Þar er t.d. allt að finna um hvernig tolla eigi að leggja á skriðdreka og búnað þeirra ef þeir skyldu verða fluttir inn til landsins, kjarnakljúfa og geislavirk efni til kjarnorkuvinnslu og svo má áfram telja, og inn á milli þessara gersema eru svo falin þau aðalatriði sem skipta okkur máli, þ.e. þær vörur sem almennt eru fluttar inn til landsins, þannig að það er hægara sagt en gert að vinsa úr því.

En herra forseti. Ég verð að segja að ég tel að það hafi tekist heldur miður en skyldi að skipuleggja þingstörfin þenna formiðdag. Ég nefndi þá hugmynd á fundi okkar þingflokksformanna með forsetum í gær að æskilegt væri að reyna að haga þingstörfum þannig að Sþ. hefði sinn fundartíma í friði, sem ævinlega á að vera, og þess í stað yrði reynt að gefa fundarhlé frá því að sameinað þing lýkur störfum og þangað til deildir kæmu þá saman seinni part dagsins. Þann tíma hefði síðan mátt nýta fyrir fundi þingnefnda og þingmannahópa. En nú skeður það á þessum morgni að það verður ekki annað séð en nefndarformenn keyri svo kolfastir í því sama fari sem þeir hafa átt að venjast væntanlega margir hverjir árum saman að þeir boða nefndarfundi rétt eins og hér hefðu engir þingfundir átt að vera fyrr en kl. 14. Ég vil bara nefna sem dæmi, virðulegur forseti, að það átti yfir undirritaðan að ganga að vera á þremur stöðum samtímis núna kl. 11, á fundi hér í Sþ., á fundi með fjh.- og viðskn. og á fundi með félmn. Nd. Þetta gengur auðvitað ekki. Það sjá allir menn að þingið skipuleggur ekki sín störf sem skyldi þegar mönnum er gert að vera á ekki færri en þremur stöðum samtímis á vegum þingsins eða í þingnefndum. Og ég ítreka og endurtek að ég tel vænlegast að reyna að haga störfum þannig að þegar Sþ. ljúki hér störfum verði gefið allvænlegt fundahlé þannig að þingmannahópar sem eftir eiga að fjalla um skiptingu ákveðinna fjárlagaliða og þingnefndir hafi þá nokkurra klukkustunda tíma til að starfa og deildafundir færist þá aftur eftir deginum.

En örfá orð til viðbótar, virðulegur forseti, um tilefni þessarar þingskapaumræðu og vil ég þá taka fram að ég ætla ekki að blanda mér í innri mál fjvn. eða störf hennar. Ég efast út af fyrir sig ekki um góðan vilja formanns fjvn., hv. þm. Sighvats Björgvinssonar, en hitt er öllum ljóst og hv. þm. þarf í raun og veru ekki að bera blak af þeim aðstæðum sem hv. 5. þm. Vestf. er gert að starfa við með sínu fólki. Það sjá allir þm. við hvaða aðstæður hv. fjvn. hefur mátt búa, hvenær mál koma fram, hvenær upplýsingar liggja fyrir. Ég held því að það sé fyllilega eðlilegt og réttmætt að rætt sé við hvaða aðstæður þm. búa síðustu sólarhringana áður en 2. umr. fjárlaga hefst, sem er að mörgu leyti sú mikilvægasta af þeim þremur sem fram fara að því leytinu til að þá er málið tekið aftur til umræðu eftir margra vikna skoðun í þinginu og síðan líður mjög stuttur tími þangað til málið er endanlega afgreitt.

Eitt vil ég sérstaklega undirstrika og taka þar undir með hv. 2. þm. Austurl., að það er alveg óviðunandi með öllu að einstakir þm. fái í hausinn upplýsingar um sundurliðun ákveðinna verkefnaþátta og eigi að taka til þeirra afstöðu á einum og sama fundinum sem stendur e.t.v. ekki nema eina klukkustund, eins og okkur þm. Norðurlands eystra var ætlað að mér skildist í gærkvöld. Það gengur einfaldlega ekki, virðulegur forseti, að menn hafi ekki meiri tíma en svo til þess að skoða málin. Sú vinna er gersamlega ómarktæk að mínu mati sem þannig á að fara fram.

Og að síðustu þetta: Það sem er verst við öll þessi vinnubrögð er sú lítilsvirðing sem Alþingi sem stofnun er sýnd með þeim hætti. Ég held að það sé óhjákvæmilegt að hæstv. ríkisstjórn skoði sinn gang þegar það gerist hvað eftir annað að verkefni sem eru Alþingis, eru í meðferð á Alþingi, eru tekin til sérstakrar umfjöllunar úti í bæ, þó að það sé hæstv. ríkisstjórn, jafnvirðuleg og hún er nú, og síðan er niðurstaða kynnt þjóðinni, niðurstaða af þeim störfum tíu hv. þm. sem eru mikill minni hluti hér á Alþingi eins og hv. þm. vita. En engu að síður er eitthvert samkomulag eða málamyndasamkomulag þessara tíu hæstv. ráðherra, sem eru ekki nema tíu atkvæði á hinu virðulega Alþingi, boðuð þjóðinni sem niðurstaða áður en nokkur annar þm. hefur fengið tækifæri til að fjalla um það. Sú framkoma við fjvn. Alþingis og alþm. sem birtist í kynningu á samkomulagi ríkisstjórnarinnar á dögunum um aukin útgjöld fjárlaga, þegar það var beinlínis boðað og tilkynnt sem ákveðinn hlutur að 550 millj. ef ég man rétt af þessum milljarði hefði þegar verið skipt með tilteknum hætti, það væri ákveðið að því sem eftir væri mætti fjvn. skipta en að vísu með alveg eindregnum tilmælum um að hún ætti að gera það á tiltekinn hátt, það er lítilsvirðing, virðulegur forseti, við Alþingi. Við þm. eigum ekki að láta slíkt viðgangast, við eigum ekki að gera það og við megum ekki gera það vegna þess að með því er verið að rugla saman verkaskiptingu þessara aðila og þjóðin fær smátt og smátt á tilfinninguna að það væri hægt að hafa einn gúmmístimpil í staðinn fyrir Alþingi sem stimplaði þá á þau plögg sem kæmu frá þessum tíu manna hópi hæstv. ráðherra. Stjórnskipun Íslands gerir ekki ráð fyrir því að þannig sé unnið. Ég legg það til, burtséð frá þeim önnum sem hér eru, burtséð frá því hvernig þinghaldinu reiðir af nú fyrir jólaleyfi, að þessi þáttur gleymist ekki í samtölum forseta Alþingis og annarra þeirra sem hér ráða ferðinni í liði hæstv. ríkisstjórnar á næstu dögum.