10.12.1987
Sameinað þing: 30. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1717 í B-deild Alþingistíðinda. (1243)

Vinnubrögð við undirbúning fjárlaga

Margrét Frímannsdóttir:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessa umræðu mikið, en mér finnst hún hafa snúist á dálítið annan veg en ætla mætti. Vissulega hefur verið erfitt fyrir fjvn. að starfa undanfarnar vikur, en þar er ekki að mínu mati við formann fjvn. að sakast og ég er sannfærð um að þó svo orð hans hafi verið skilin svo hér að honum þætti allt í lagi að ýmis kjördæmi hefðu stuttan tíma til að fara í sín mál er það ekki rétt. Okkur hafa verið búnar þær aðstæður, fjvn. allri, að annað vinnulag var ekki hægt, því miður, að viðhafa. Þar er ekki við fjvn. að sakast heldur hæstv. ríkisstjórn. Það er erfitt fyrir okkur stjórnarandstöðuþm. í fjvn. að sitja þarna inni við þær aðstæður sem okkur eru búnar, en það hlýtur, fjárinn hafi það, að vera enn erfiðara fyrir þá sem styðja þessa ríkisstjórn og þurfa að standa í því að verja hana því að það er ekki auðvelt verk.

Allt frá því að við hófum störf í haust hafa vinnubrögðin verið á einn veg. Fyrst er fjárlagafrv. kynnt fjölmiðlum, þá lagt fram á hv. Alþingi og síðan hafa allar þær ráðstafanir sem ríkisstjórnin hefur tekið ákvarðanir um verið kynntar fjölmiðlum áður en hv. Alþingi hefur fengið þær til umfjöllunar. Það á jafnt við þau erindi sem hafa farið út til fjvn. En það er ekki á nokkurn hátt við fjvn. að sakast, hvorki stjórnarþingmenn né stjórnarandstöðuþingmenn.

Þessi umræða er vissulega þörf, en við ætlum samt sem áður, vegna þess að tíminn er naumur fram að jólum, að halda okkur við efnið en eyða ekki löngum tíma í að fara út um víðan völl. Hér erum við að ræða vinnubrögð, sérstaklega hvað varðar hv. fjvn., og þær upplýsingar sem við fáum eða fáum ekki, þeir þm. sem þar sitja. Það verður erfitt fyrir okkur að taka fjárlagafrv. til 2. umr. nk. mánudag, en það er ekki við nefndarmenn að sakast því að það hefur vissulega verið reynt að fá upplýsingar fyrir okkur af formanni fjvn. En hann fær þær ekki frekar en aðrir nema í gegnum fjölmiðla. Og því miður vitum við ekki hversu marktækar þær eru. Þar er við ríkisstjórnina að sakast, hæstv. ríkisstjórn af mörgum.