10.12.1987
Sameinað þing: 30. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1720 í B-deild Alþingistíðinda. (1246)

Vinnubrögð við undirbúning fjárlaga

Skúli Alexandersson:

Herra forseti. Ég mun verða við óskum hæstv. forseta um að stilla orðum mínum í hóf, en ástæða þess að ég kom í ræðustól var ræða hæstv. sjútvrh. þar sem hann upplýsti okkur, þingheim og sjávarútvegsnefndarmenn um hversu miklar annir væru í ráðuneyti hans. Við vissum öll og vitum öll hve miklar annir eru á hv. Alþingi og að það eru vissir erfiðleikar að þoka málum áfram þó að mikill vilji sé fyrir hendi.

Hæstv. ráðherra var að réttlæta að hann taldi ástæðu til að kalla til umfjöllunar um reglugerð í sambandi við fiskveiðistjórn, áður en sú reglugerð yrði birt sjávarútvegsnefndum, einhvern hóp hagsmunaaðila sem hann taldi frekar nauðsyn á að færi yfir þessa reglugerð áður en sjávarútvegsnefndir sem höfðu óskað eftir því að fá að skoða reglugerðina. Hann taldi ástæðu til að kalla sérstakan hóp til að fara yfir reglugerðina og jafnvel í því augnamiði að breyta á þeim vettvangi tillögum ráðherrans, en þm. í sjávarútvegsnefndum máttu ekki fjalla um þetta áður, ekki líta á það. Þessi reglugerð er ekki enn komin í mínar hendur. Fulltrúi sem var á nefndarfundi hjá okkur úti í Þórshamri upplýsti að það væru enn einhverjar misfellur á reglugerðinni þannig að við fengjum ekki reglugerðina fyrr en síðar, en væntanlega líður að því.

Það eru miklar annir á hv. Alþingi og það er sagt að það séu líka miklar annir í sjútvrn. Þar séu svo miklar annir að það hafi orðið að vinna þar í alla nótt. Mér heyrðist hálfgerður vorkunnartónn í ræðu hæstv. ráðherra út af því að svo skyldi vera. Og ég er ekki hissa á því að það sé vorkunnartónn í hæstv. ráðherra út af því að það séu annir í sambandi við sjávarútvegsmál og í sambandi við fiskveiðistefnuna núna, aðfaranótt 10. des., þar sem þetta ráðuneyti tók þá ákvörðun 8. júlí í sumar að fara að vinna að undirbúningi þessa máls með undirskrift og yfirlýsingum í stjórnarsáttmála, að það skyldi verða unnið að undirbúningi fiskveiðistefnunnar þannig að þetta mál kæmi snemma fyrir Alþingi. Raunin varð reyndar sú að þetta mál kom ekki hingað fyrr en 7. þ.m. Og nú er lögð öll áhersla á að flýta málum í hv. sjávarútvegsnefndum. Formenn nefndanna hafa unnið að því og skipulagt að svo megi vera. Þá er þetta kveðjan úr ráðuneytinu. Vegna þeirra anna sem þar hafa verið þurfi að vinna si svona. Já, það eru skrýtin vinnubrögð.

Áður höfðum við reyndar heyrt að þingið hefði fengið upplýsingar um þetta mál, fiskveiðistefnuna, fyrir nokkru. Það væri búið að leggja fyrir hv. þm., þingflokka, frv. í mjög svipaðri mynd og það frv. sem nú liggur fyrir til umræðu á hv. Alþingi. Mikið rétt. En fyrst svo er og fyrst svo var, að það er búið að leggja þetta fyrir þingflokka og Alþingi fyrir nokkru, hvernig stóð á því að það var ekki farið að vinna að málinu í ráðuneytinu þannig að nóttina fyrir 10. des. þurfi ráðuneytismenn að standa í því að vera að semja reglugerðina og vera að kalla vini sína, þá útvöldu hagsmunaaðila, til að fara yfir þetta áður en hv. alþm. fái að sjá það? Mér finnast þetta furðuleg vinnubrögð og storkun við okkur, sem erum að reyna að þoka þessu máli áfram, að ráðherra komi hér upp í ræðustól og tilkynni að vegna anna í sínu ráðuneyti hafi orðið að vinna si sona, anna sem skapast af því að það hlýtur að vera stjórnleysi og ekkert annað. Málið hefur legið klárt fyrir ráðuneytinu, eins og við höfum verið upplýstir um, svo vikum skiptir. Það hefur verið vitað og við höfum fundið fyrir því, sem höfum verið að vinna í þessu máli, að ráðuneytið hefur haft mótaða stefnu í fiskveiðistjórninni. (HBI: Eins og rétt er.) Hvort sem það er rétt eða rangt átti ráðuneytið út frá því að vinna að undirbúningi málsins á breiðari grundvelli, undirbúa reglugerð og hafa til staðar upplýsingar fyrir þingnefndir sem á þurfti að halda, þurfa ekki að vinna á þann veg sem ráðuneytið hefur unnið nú.

Ég vona að þrátt fyrir þessi vinnubrögð ráðherra munum við í sjávarútvegsnefndum freista þess að fara yfir reglugerð og ræða við þá aðila sem við höfum kvatt til fundar og gátum ekki rætt við í morgun. Við munum freista þess að þoka áfram frv. um stjórn fiskveiða. Það er nauðsynjamál. Það fer ekki í gegnum Alþingi vegna þess að ráðuneytið hafi unnið vel. Það fer gegnum Alþingi þrátt fyrir að ráðuneytið hafi staðið illa að málum.