10.12.1987
Sameinað þing: 30. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1723 í B-deild Alþingistíðinda. (1248)

Vinnubrögð við undirbúning fjárlaga

Karvel Pálmason:

Virðulegi forseti. Ég skal ekki teygja mikið úr þessari umræðu. Ég ætla ekki að tala um fjvn. Ég þykist vita að hún hafi ekki betra hlutskipti átt nú en oftast áður að því er varðar starfshætti og ætta ekki að blanda mér í þá umræðu.

Hins vegar er það ekkert nýtt að umræða um starfshætti þingsins komi upp á þessum tíma. Þingheimur hefur yfirleitt staðið frammi fyrir því hvað snertir vinnubrögð. Þó kannski aldrei eins og nú og undir það tek ég.

Mér er alveg ljóst að það er miklum erfiðleikum háð að koma öllum þeim málum fram sem nú eru komin hér inn og eitthvað á eftir að koma enn. Það er alveg augljóst að samræma verður annars vegar vinnutíma þingsins og hins vegar nefndanna. Ég hlýt að tala svona og taka undir þetta vegna þess að ég ber sjálfur ábyrgð á starfi nefndar sem er talin eiga að skila miklu hlutverki með hvaða hætti sem það kann nú að verða. Það er um tómt mál að tala að mínu viti að búa við að það séu haldnir þingfundir á sama tíma og hópar manna úr þinginu eru á fundum í nefndum.

Hér bárust í tal sjávarútvegsnefndir beggja deilda, sem voru á fundi í morgun, og um það var talað í gær og ég er þeirrar skoðunar að það er ekki hægt að krefjast þess af nefndarmönnum að vera á þingfundum á sama tíma. Slíkt er útilokað. Þennan fund varð að leysa upp vegna fundar í Sþ. og reyndar líka, eins og hér hefur komið fram, vegna þess að mér fannst óskynsamlegum vinnubrögðum beitt. Það var út af reglugerðunum. Það er rétt, sem hér hefur komið fram, að hagsmunaaðilar lýstu því yfir á fundinum að þeir hefðu séð þessa reglugerð og fallist á hana áður en nefndarmenn í sjútvn. höfðu fengið hana í hendur. Hins vegar skal líka bætt við að starfsmaður ráðuneytisins var kominn með reglugerðina á fundinn, en í henni voru villur þannig að hann vildi ekki dreifa henni þar. Reglugerðin er komin til mín sem nefndarformanns. Hún kom eftir að fundurinn leystist upp. Ég taldi ekki rétt að dreifa henni nema þá á formlegum fundi eins og um var beðið. Hún er komin. En hitt var óæskilegt, a.m.k. undir þeim kringumstæðum sem ríkja í þinginu núna að því er varðaði vinnubrögð. Það þarf ekki mikið til að koma til að upp úr sjóði í því ástandi sem nú er innan þingdyra.

Ég beini þeim tilmælum til stjórnenda þingsins að það verði nú þegar ákveðin vinnubrögð annars vegar af þingsins hálfu um þingfundina og hins vegar þeim nefndum sem verða að starfa ef málum á að ljúka með eðlilegum hætti. Það eru ekki bara fjárlögin sem eru í deiglunni. Það er fullt af öðrum stórum málum sem eftir er að afgreiða og þau mál verða nefndir að fá tíma til að sinna ef ekki á að óvirða þingið sem slíkt.