10.12.1987
Sameinað þing: 30. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1725 í B-deild Alþingistíðinda. (1250)

Vinnubrögð við undirbúning fjárlaga

Óli Þ. Guðbjartsson:

Hæstv. forseti. Ég vil fyrir minn hlut þakka fyrir þær umræður sem hér hafa farið fram um þingsköp. Mér finnst hafa glögglega fram komið að það var þörf þessarar umræðu. Það sýnir í rauninni hversu víða var við komið.

En ég vil líka þakka fyrir þann stuðning sem ég verð var við undir þau atriði sem ég lagði áherslu á í upphafsorðum mínum í morgun. Hins vegar hlýt ég að harma á hvern hátt hv. formaður fjvn. tók ræðu minni og upphafi máls míns í morgun. Hann virtist taka máli mínu á þann veg að ég hefði verið að gagnrýna störfin í fjvn. Ef hann fær útskrift af ræðu minni getur hann hvergi fundið þess stað að ég hafi verið að gagnrýna þau eða hans störf sem formanns nefndarinnar. Sú var ekki ætlun mín. Sú viðkvæmni sem kom fram hjá hv. þm. bendir í rauninni ekki til þeirrar þingreynslu sem hann lagði verulega áherslu á, ég held oftar en einu sinni í ræðu sinni, að hann hefði fram yfir ýmsa aðra sem hér ættu hlut að máli.

En það sem er kjarni þess sem ég lagði áherslu á í morgun og upp úr stendur er að fjvn. og raunar þingheimur allur hefur ekki fengið eðlilegar upplýsingar á réttum tíma til þess að mál gætu gengið fram eins og þörf er á. Ég verð að segja að mér þykir vænt um að það kom fram í máli hæstv. forsrh. á ótvíræðan hatt, sem og hefur komið fram í ræðu hæstv. fjmrh. fyrr, að þeir fyrir hönd ríkisstjórnarinnar biðjast afsökunar á þessum vinnubrögðum.

En það sem mér finnst enn standa eftir er það sem ég lagði áherslu á í upphafsorðum mínum til forseta: Upplýsingaöflun og mat Þjóðhagsstofnunar og Fjárlaga- og hagsýslustofnunar á þessum nýju viðhorfum um tekjuhlið fjárlagafrv. eru þau aðalatriði að það er ekki hægt að ættast til þess á einn eða neinn hátt að stjórnarandstaða, ekki einu sinni innbyrðis stjórnarflokkar, geti náð þeirri samstöðu sem eðlilega er alger nauðsyn og fram kom í ræðu hæstv. forsrh. til þess að mál gangi hér fram á þann hátt sem við verður unað í þessum mánuði fyrir jólaleyfi.

Því ítreka ég það, hæstv. forseti, sem ég áður sagði, að upplýsingar frá þessum stofnunum þurfa að berast í fyrsta lagi fulltrúum í fjvn., í öðru lagi öllum þingheimi eins fljótt og nokkur kostur er, í þessari viku í síðasta lagi, ef 2. umr. um fjárlagafrv. á að geta farið fram á mánudaginn kemur.