20.10.1987
Sameinað þing: 5. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 179 í B-deild Alþingistíðinda. (126)

18. mál, viðskipti við Suður-Afríku

Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég get út af fyrir sig tekið undir það með hæstv. utanrrh. að miklum mun skemmtilegra væri ef hlutaðeigandi aðilar sýndu þann þroska að hafa án lagasetningar forgöngu um það eða beittu sér fyrir því að afnema öll viðskipti við Suður-Afríku. En staðreyndirnar tala sínu máli. Þrátt fyrir fögur fyrirheit, orð og yfirlýsingar ganga hlutir nú til öfugrar áttar, þvert gegn vilja og yfirlýstri stefnu stjórnvalda, þvert gegn þeim heitum sem við höfum gefið á vettvangi Norðurlandaþjóða, að reyna að beita okkur fyrir minnkandi viðskiptum við Suður-Afríku.

Ég verð að segja að ég get ekki annað en harmað það að Íslendingar skuli ekki lengur treysta sér til þess að fylgja fordæmi annarra Norðurlandaþjóða sem hafa komist að raun um að hvatningar og áróður duga ekki til. Ég held að það gæti nokkurs misskilnings hjá hæstv. utanrrh. þegar hann fjallar með þeim hætti sem hann gerði hér um haldleysi þess að setja lög vegna þess að þau séu brotin. Það er nú í fyrsta lagi þannig að ef menn ynnu samkvæmt þessari grundvallarreglu væri harla lítið um lög í heiminum. Mér er til efs að það væri mikilfengleg skattalöggjöf á Íslandi t.d. ef sami hugsunarháttur væri lagður til grundvallar, þ.e. að vegna þess að ýmsir brjóta skattalög þýði ekkert að setja þau. Það er einmitt þannig að Norðurlandaþjóðirnar hafa komist að þeirri niðurstöðu, og það er undanfari lagasetningar bæði í Svíþjóð og Noregi, að það þurfi að fá lagaheimildir til að geta lögsótt þá aðila sem ekki verða við tilmælum um að draga úr viðskiptum eða fjárfestingu í Suður-Afríku. Og það er á þeim grundvelli sem ég tel að nú sé óhjákvæmilegt að fara að ræða það hér í fullri alvöru á hv. Alþingi hvort við getum í orði verið með þá stefnu að við viljum draga úr viðskiptum við Suður-Afríku og reynt þannig að þrýsta á stjórnvöld þar þegar á borði gerist hið gagnstæða, hvort okkur sé þá ekki sæmra að falla frá þessum yfirlýsingum og segja að við treystum okkur yfirleitt ekki til þess að reyna að hafa einhverja sjálfstæða afstöðu til þess sem er að gerast í Suður-Afríku.

Ég í öllu falli, herra forseti, lýsi því yfir að ég tel að þessi mál hljóti að koma hér til umræðu þegar utanríkismál ber á góma næst á hinu háa Alþingi, annað sé ekki sæmandi.