10.12.1987
Sameinað þing: 30. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1735 í B-deild Alþingistíðinda. (1262)

105. mál, snjómokstur á fjallvegum á Austurlandi

Jón Kristjánsson:

Ég vil þakka hæstv. forsrh. svörin. Þegar þessar tölur eru komnar fyrir framan mann á blað verð ég að segja að þessi svör eru mjög athyglisverð. Í ljósi þess sem ég sagði um aðra samgönguþætti til þessara staða áðan þegar ég mælti fyrir fsp. getur hver sem er kannski, og þó, sett sig í spor íbúanna í þeim byggðarlögum sem búa við nær algjöra innilokun í mánuð og jafnvel upp í tvo mánuði á hverju ári eins og þessar tölur gefa til kynna. Það er áreiðanlega erfitt fyrir þá sem þekkja ekki slíkt að setja sig í þau spor. Þó er hér um mjög stór byggðarlög að ræða á mælikvarða okkar á Austurlandi. Þar er stærsta byggðarlagið, Neskaupstaður, á meðal þeirra byggða sem búa við þessar aðstæður. Ég held að þessar tölur sýni ljóslega að snjómokstursreglurnar þarf að endurskoða með tilliti til þessara staða, þær sýni það svo ekki verður um villst.

Það kom fram í svari því sem hæstv. forsrh. flutti að síðustu vetur hafa verið snjóléttir. Það er hárrétt. Síðustu vetur hafa verið mjög snjóléttir og snjóléttari en áður. Það sýnir í hnotskurn hvert þetta ástand getur orðið og hefur reyndar verið á undanförnum árum. Sú innilokun sem íbúar þessara byggðarlaga búa við er því alls óviðunandi.

Ég vænti þess fastlega að þau svör sem hér hafa fengist og sú ljósa mynd sem hefur verið dregin upp af þessu ástandi verði til þess að auka skilning á því að þessar reglur þarf að endurskoða. Og það þarf að gera meira en að endurskoða þær, það þarf að bæta eins og mögulegt er vegasambandið við þessa staði, því auðvitað sparast þær upphæðir sem hafa farið í snjómokstur og eru verulegar, þó að slíkar tölur hafi reyndar sést eins og þessar sem hér eru fram bornar í ýmsum samgönguþáttum.

Ég endurtek að ég þakka hæstv. forsrh. fyrir svörin sem hann flutti fyrir hönd hæstv. samgrh. og vona að þetta verði upphaf á úrbótum í þessum efnum.