10.12.1987
Sameinað þing: 30. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1735 í B-deild Alþingistíðinda. (1263)

105. mál, snjómokstur á fjallvegum á Austurlandi

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Sú mynd sem fram kemur í svörum hæstv. ráðherra við þessari þörfu fsp. sýnir okkur eitt stærsta vandamálið sem fjölmennar byggðir í landinu búa við, en það er staða samgöngumálanna og það ófremdarástand að byggðarlög með fleiri hundruð og jafnvel þúsundir íbúa búa við slíka einangrun að í góðu árferði, eins og talið er að hér hafi ríkt síðustu árin, er um að ræða innilokun svo skiptir mánuðum. Ég vek athygli á því, eins og hér kom fram, að á árinu 1986 þegar innilokun hefur verið hvað mest, þá er lokun á Neskaupstað rösklega mánuður, 31 dagur, og gagnvart Seyðisfirði 42 dagar á því ári. Þessar tölur tala sannarlega sínu máli.

Það verður að vænta þess, herra forseti, að þessi mál verði tekin hið fyrsta öðrum tökum en verið hefur á undanförnum árum. Þm. allra flokka hafa vissulega knúið á um úrbætur og rýmkun á þessum reglum en nú þegar þessu máli er hreyft hér á Alþingi og fram dregnar þessar upplýsingar þá ýtir það á eftir, það þakka ég, og ekki síst þegar stjórnarþingmenn, stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar eiga hlut að máli, þá verður maður að ætla að von sé á úrbótum fyrr en seinna.