10.12.1987
Sameinað þing: 30. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1738 í B-deild Alþingistíðinda. (1267)

145. mál, ólöglegur innflutningur myndbanda

Fyrirspyrjandi (Guðrún Agnarsdóttir):

Herra forseti. Í byrjun áttunda áratugarins var notkun myndbanda orðin nokkuð almenn hér á landi og ljóst að setja þurfti reglur til að tryggja hagsmuni rétthafa og notenda svo og annarra aðila er hlut eiga að máli. Menntmrh. skipaði nefnd til þessa verks á árinu 1981 sem ályktaði m.a., með leyfi forseta:

„Niðurstaða nefndarinnar er sú að hér á landi eigi sér nú stað stórfelld brot á höfundarrétti bæði með upptöku á myndbönd, leigu myndbanda og síðast en ekki síst dreifingu efnis af myndböndum um myndbandakerfi.“

Þetta var árið 1981. Þrátt fyrir ýmsar aðgerðir í þessum efnum virðist lítið hafa breyst og er ástæða til að ætla að verulegur innflutningur og fjölföldun eigi sér stað á ólögmætu efni en sumir halda því fram að ólöglegi markaðurinn sé reyndar jafnstór hinum löglega. Hingað til lands hefur a.m.k. tvisvar komið lögfræðingur bandarískra rétthafa til að leita réttar umbjóðenda sinna þar sem Ísland er álitið eitt af þremur mestu sjóræningjalöndum á myndbandamarkaðinum, eins og ég gat um áðan í fyrri fyrirspurn.

Hér er myndbandseign verulega almennari en í flestum nágrannalöndum okkar, en í könnun Félagsvísindastofnunar haustið 1986 kom í ljós að tæpur helmingur landsmanna átti myndbandstæki á heimilum sínum og talið er að þessi eign hafi farið vaxandi síðan.

Þann 18. febrúar 1985 gerði lögreglan könnun hjá myndbandaleigum á höfuðborgarsvæðinu með hliðsjón af myndbandalista frá Kvikmyndaeftirlitinu. Á honum voru um 70 myndatitlar sem Kvikmyndaeftirlitið hafði úrskurðað óhæfa til sýningar vegna ofbeldis eða kláms. Í þessari könnun munu hafa fundist hundruð bannaðra myndbanda. Þann 22. desember 1986 var síðan aftur gerð leit í myndbandaleigum á suðvesturhorni landsins af lögreglu og dómsmrn. Mun þá hafa fundist verulegur fjöldi myndbanda sem voru ólöglega innflutt og brutu í bága við lög um höfundarrétt, hegningarlög eða voru á bannlista Kvikmyndaeftirlitsins vegna ofbeldis eða kláms. Þau voru gerð upptæk og málsókn hafin á hendur þeim sem brutu gegn lögunum, að því er ég tel.

Starfsemi Kvikmyndaeftirlits ríkisins er lögboðin og því er ætlað að fylgjast með þeim myndböndum sem hér eru á markaði. Vegna fjárskorts, eins og kom glögglega fram í fyrri fsp. minni og svörum við henni, hefur það hvergi nærri getað annað öllum sínum verkefnum. Hins vegar hefur það þegar í samvinnu við lögreglu sýnt fram á að fjöldi ólöglegra myndbanda er hér í umferð og mörg þeirra þess eðlis að flestir foreldrar mundu ekki kæra sig um að börn þeirra hefðu aðgang að. Það er því ljóst að hér þarf heldur betur að taka í taumana til að hindra það að lög séu brotin og börn bíði skaða af. Ég hef því leyft mér að bera fram eftirfarandi fsp. til hæstv. dómsmrh. á þskj. 153.

„1. Hver urðu málalok þeirrar leitar sem dómsmálaráðuneytið og lögreglan létu gera á myndbandaleigum höfuðborgarsvæðisins 22. des. 1986?

2. Hve mörg myndbönd fann lögreglan þá sem talið var að brytu í bága við lög um höfundarrétt, hegningarlög eða lög um bann við ofbeldiskvikmyndum?

3. Hyggst dómsmálaráðherra beita sér fyrir slíkri skyndileit aftur?

4. Hvaða aðrar aðgerðir hefur dómsmálaráðherra á prjónunum til að hefta ólöglegan innflutning myndbanda?"