10.12.1987
Sameinað þing: 30. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1741 í B-deild Alþingistíðinda. (1270)

145. mál, ólöglegur innflutningur myndbanda

Fyrirspyrjandi (Guðrún Agnarsdóttir):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svör hans. Mér sýnist af máli hans að enn ríki í raun ófremdarástand í þessum málum og þurfi að taka mun fastari tökum, hvort sem það verður gert með skyndileitum eða á annan hátt. Mér finnst þetta óhóflega langur tími frá 1985 annars vegar og síðan frá árslokum 1986 og mér finnst það leiða athygli okkar að því hve mikilvægt er að reyna að flýta afgreiðslu mála í dómskerfinu almennt. Það hafa komið fram hér á þingi ýmsar tillögur um að flýta ákveðnum sérstökum málaflokkum, fíkniefnamálum, sifjaspellsmálum eða kynferðislegum áreitnimálum í garð barna, en það virðist vera almennt í dómskerfinu að mál ganga afskaplega hægt fyrir sig, þannig að það er löng bið eftir því að fá ákveðna viðmiðun til þess að nota til afgreiðslu þessara mála.

Ég vil benda hæstv. ráðherra á að í upphafi þessa áratugar, sem kom reyndar fram í máli hæstv. menntmrh., þá var svipað uppi á teningnum í þessum efnum á hinum Norðurlöndunum. Þar var bæði ólögmæt dreifing og fjölföldun á myndbandaefni í stórum stíl svo að nærri lá að um helmingur markaðarins væri í raun ólögmætur. En markvissar aðgerðir yfirvalda og samtaka rétthafa gátu þó stöðvað þessa brotastarfsemi og nú ku það heyra til undantekninga ef brot af þessu tagi finnast. Ég held að í Danmörku frekar en í Svíþjóð sé álitið að séu um 2% á markaðnum ólögmæt en var miklu stærri hluti hans áður.

Auk brota gegn þeim lögum sem ég nefndi áður í máli mínu má nefna að oft er einnig um að ræða brot gegn tollalöggjöf og undanskot frá söluskatti. Ef ólögmæti myndbandamarkaðurinn hérlendis er jafnstór hinum lögmæta, eins og sumir vilja meina, þá má ætla að ríkissjóður verði af stórum fjárupphæðum þar sem skotið er undan skatti. En öllu máli skiptir þó finnst mér að þau myndbönd sem eru í umferð og eru ólögmæt skaði ekki börn og unglinga sem á þau horfa.