10.12.1987
Sameinað þing: 30. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1744 í B-deild Alþingistíðinda. (1275)

162. mál, fangelsisvist geðsjúkra

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Hæstv. forseti. Á þskj. 175 er hreyft fsp. nokkrum sem varða fangelsisvist geðsjúkra. Er hér vissulega um að ræða viðkvæmt og vandmeðfarið mál.

Fsp. er í þremur liðum og fyrsti liðurinn hljóðar svo:

„Telur ráðherrann það samrýmast lögum um heilbrigðisþjónustu, nr. 59/1983, að geðsjúkt fólk sé vistað í fangelsum eins og tíðkað er?"

Til þess að fá heildaryfirsýn yfir þetta mál verður að líta aftur í tímann allt til vors 1973. Þá hafði Alþingi til meðferðar tvö mikilvæg lagafrumvörp, annars vegar frv. til laga um heilbrigðisþjónustu og hins vegar frv. til laga um fangelsi og vinnuhæli.

Hvor tveggja þessi lög voru samþykkt og afgreidd á Alþingi vorið 1973. Lög nr. 38, um fangelsi og vinnuhæli, voru afgreidd 24. apríl og lög nr. 56, um heilbrigðisþjónustu, voru afgreidd 27. apríl. Síðan þá hafa að vísu tekið gildi ný lög um heilbrigðisþjónustu en í þeim lögum hafa ekki orðið efnisbreytingar hvað varðar þá þætti laganna sem fsp. tekur til.

Í lögum um heilbrigðisþjónustu, nr. 59/1983, segir svo í 1. gr.: „Allir landsmenn skulu eiga kost á fullkomnustu heilbrigðisþjónustu, sem á hverjum tíma eru tök á að veita, til verndar andlegri, líkamlegri og félagslegri heilbrigði.“

Fjórði kafli þessara laga, 13.-35. gr., fjallar sérstaklega um sjúkrahús. Þar virðast hins vegar engin ákvæði að finna um vistun geðsjúkra afbrotamanna á heilbrigðisstofnunum.

Í lögum nr. 38/1973, um fangelsi og vinnuhæli, má hins vegar finna ákvæði um fangavist geðsjúkra. Í 3. gr. þeirra laga segir m.a. svo um ríkisfangelsi: „Því [ríkisfangelsinu] skal eftir nánari ákvörðun dómsmálaráðherra m.a. skipt í eftirtaldar deildir: Einangrunarfangelsi, öryggisdeild, geðveilladeild, varðhald, gæsluvarðhald og móttökudeild.“

Þá má benda á 16. gr. sömu laga en þar segir m.a.: „Meðan ríkisfangelsi er ekki fullbyggt skal vista þá sem vista ætti í hinum ýmsu deildum þess í þeim fangelsum sem til þess eru á hverjum tíma eftir því sem aðstæður leyfa.“

Þegar þessi lög eru lesin saman virðist ljóst hver var vilji Alþingis þá í sambandi við geðsjúka afbrotamenn. Það var hins vegar ekki gert ráð fyrir því við þessa lagasetningu að geðsjúkir afbrotamenn vistuðust á sjúkrastofnunum, samkvæmt lögum um heilbrigðisþjónustu, heldur var gert ráð fyrir því að í ríkisfangelsi, samkvæmt lögum um fangelsi og vinnuhæli, eigi að vera sérstök deild fyrir geðveila og sérstök öryggisgæsludeild, en slíkar deildir eru fyrir þá sem hafa verið dæmdir til öryggisgæslu en eru ósakhæfir

Sem svar við fsp. þingmannsins verður því að telja að það sé í fullu samræmi við gildandi lagaákvæði um heilbrigðisþjónustu og um fangelsi og vinnuhæli að geðsjúkt fólk sé vistað í fangelsum. Hitt er svo annað mál að yfirvöldum hefur því miður ekki tekist á þessu tímabili að framfylgja lögum eins og löggjafinn gerði ráð fyrir, svo sem að byggja ríkisfangelsi sem þjónað gæti þeim verkefnum sem lög kveða á um. Á það verður einnig að minna að heilbr.- og trmrh. skipaði nefnd í samræmi við þáltill. frá 1980 til að gaumgæfa skipulag geðheilbrigðismála og hv. fyrirspyrjandi vitnaði einnig til. Nefndina skipuðu Ingvar Kristjánsson læknir, sem var formaður hennar, Högni Óskarsson læknir, sem var ritari, Ásgeir Karlsson læknir, Hulda Guðmundsdóttir félagsráðgjafi, Margrét Hróbjartsdóttir hjúkrunarfræðingur, Oddur Bjarnason læknir og Sigríður Þorsteinsdóttir hjúkrunarfræðingur. Nefndin komst að þeirri sameiginlegu niðurstöðu í nefndaráliti sem dagsett er 1. júní 1982 að það bæri að stofna réttargeðdeild ríkisins, sem svo er kölluð í nefndarálitinu, sem heyrði undir dómsmrh. Nefndin gerði ráð fyrir að hlutverk hennar yrði í stuttu máli þannig:

1. Að skipuleggja og annast þjónustu við ósakhæfa afbrotamenn í öryggisgæslu og fanga með geðsjúkdóma.

2. Að annast rannsóknir, ráðgjöf og fræðslu á sviði réttargeðlæknisfræði.

3. Að undirbúa byggingu og rekstur geðdeildar ríkisfangelsisins.

Í þessum tillögum var gert ráð fyrir að réttargeðdeild ríkisins yrði undir stjórn sérstaks yfirlæknis sem væri starfsmaður dómsmrn. Það var því skoðun sérfræðinga á árinu 1982 að það fyrirkomulag sem lögfest var nærri 10 árum áður væri það æskilegasta og að því bæri að koma í framkvæmd.

Annar liður fsp. hljóðar svo: „Hve margir geðsjúkir einstaklingar eru nú vistaðir í fangelsum þó að þeir hafi verið úrskurðaðir ósakhæfir vegna geðveiki?"

Það er ljóst af því sem sagt hefur verið hér að framan sem svar við fyrsta lið fsp. að samkvæmt lögum er vistun geðsjúkra í fangelsum ekki á vegum heilbrigðisþjónustunnar heldur dómsmálayfirvalda. Hef ég því ekki upplýsingar um það hve margir einstaklingar hafa verið úrskurðaðir ósakhæfir vegna geðveiki og dveljast í fangelsum. Væntanlega getur fremur hæstv. dómsmrh. svarað þessari spurningu hv. þm.

Þriðji liður fsp. er síðan: „Eru einhverjar aðgerðir fyrirhugaðar til þess að geðsjúkir einstaklingar, sem gerast brotlegir við lög vegna sjúkdóms síns, fái nauðsynlega læknismeðferð?"

Fangelsi landsins fá í dag þá geðlæknisþjónustu sem um er beðið frá geðdeildum sjúkrahúsanna. Meðan lög eru óbreytt mun heilbrigðisstjórnin halda áfram að veita eins góða þjónustu og hægt er miðað við þessar aðstæður. Þess verður hins vegar að vænta að lögum um ríkisfangelsi verði framfylgt svo fljótt sem verða má eða aðstæður á annan hátt skapaðar til þess að ósakhæfir afbrotamenn í öryggisgæslu og geðsjúkir fangar fái þá þjónustu sem lög um fangelsi og vinnuhæli og lög um heilbrigðisþjónustu gera ráð fyrir. Vænti ég að um það geti orðið hið besta samkomulag við hæstv. dómsmrh.

Þessi mál eru viðkvæm og vandmeðfarin og því mikilvægt að um nauðsynlegar úrbætur fáist sem allra best samstaða allra þeirra aðila sem um málið þurfa og eiga að fjalla.