10.12.1987
Sameinað þing: 30. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1748 í B-deild Alþingistíðinda. (1278)

162. mál, fangelsisvist geðsjúkra

Fyrirspyrjandi (Guðrún Helgadóttir):

Herra forseti. Ég þakka báðum hæstv. ráðherrum svör þau sem ég hef fengið við þessari fsp. Sérstaklega fagna ég þeim orðum hæstv. dómsmrh. sem kynnti nýtt frv. um fangelsismál. Í fyrsta skipti heyrði ég hér í þingsölum menn gera greinarmun, skýran greinarmun, á sakhæfum mönnum og ósakhæfum. Ósakhæfur maður, hvort sem hann fremur afbrot eða ekki, er sjúklingur en ekki fangi, en maður sem fremur afbrot með fullu viti er sakhæfur. Ég er innilega sammála hæstv. dómsmrh. um mun á því að vista ósakhæfan mann og veita veikum fanga þjónustu. Þetta eru tvö ólík mál.

Ég þakka jafnframt orð hv. 7. þm. Reykv. og fyrrv. heilbrrh. og stuðning hans en í framhaldi af því sem hann sagði vil ég aðeins rifja upp að nefndin sem hann minntist á gerði margar góðar tillögur um úrbætur í heilbrigðismálum sem sumar hverjar hafa orðið að veruleika. Bráðageðheilbrigðisþjónustan í Reykjavík er m.a. hiklaust orðin til fyrir tilstilli þessarar nefndar. Þá unnu Ólafur Ólafsson landlæknir, Sigmundur Sigfússon geðlæknir og Jón Thors, deildarstjóri í dómsmrn., tillögur um lokaða sjúkrastofnun fyrir geðsjúka fanga á sínum tíma. Þessi vinna fór fram að beiðni þáv. hæstv. heilbrrh., Svavars Gestssonar, og þáv. hæstv. dómsmrh., Friðjóns Þórðarsonar. Þessar tillögur sáu dagsins ljós árið 1982 en með þær hefur því miður ekki mikið verið gert. Þessar hugmyndir voru í þá veru að byggt yrði eða keypt húsnæði fyrir lokaða stofnun sem gæti vistað allt að 12 sjúklinga. Sem betur fer er hér ekki um að ræða fjölmennan hóp. Þar skyldu þeir vistaðir sem úrskurðaðir væru ósakhæfir og þar gengjust þeir undir viðeigandi meðferð.

Á sínum tíma, eins og ég gat um áður, heimilaði Alþingi ríkisstjórninni að verja allt að 2 millj. kr. á árinu 1982 til athugunar og undirbúnings að stofnun slíkrar deildar en lítið hefur orðið úr framkvæmdum. Ég held að það sé því miður alveg rétt, og sorglegt að þurfa að segja frá því, að málið strandaði m.a. á ágreiningi milli heilbrigðisyfirvalda og dómsvalda. Ég vona að sá ágreiningur verði nú kveðinn í kútinn og einstakir valdamiklir embættismenn ekki látnir ráða því hvað Alþingi ákveður í þessum efnum.

Ég vil því skora á þá hæstv, heilbrrh. og dómsmrh. að taka höndum saman og skoða þessar umræddu tillögur að nýju og hrinda í framkvæmd þeim úrbótum sem hér eru nauðsynlegar.

Það er eins og ég sagði áðan sem betur fer ekki um fjölmennan hóp sjúklinga að ræða en ég held að fullyrða megi að hér sé tvímælalaust um þá að ræða sem allra manna mest þurfa á aðstoð okkar hinna að halda sem teljum okkur hafa fullt ráð og rænu. Meðferðin á þessu fólki eins og hún er í dag minnir mest á hinar myrku miðaldir. Ég held að mál sé komið til að við bætum úr því.

Ég þakka svo þeim sem tekið hafa þátt í þessari umræðu.