10.12.1987
Sameinað þing: 30. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1749 í B-deild Alþingistíðinda. (1279)

162. mál, fangelsisvist geðsjúkra

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Hæstv. forseti. Ekki dettur mér í hug að ætla að gera það að deilumáli eða ágreiningsefni hér og nú hvernig og hvar eigi að vista þetta fólk, sem svo hörmulega er ástatt um, það fólk sem við höfum verið að ræða um hér vegna þessarar fsp. hv. 13. þm. Reykv. Ég legg á það áherslu, eins og ég sagði reyndar í svari við fsp. áðan, að þetta eru viðkvæm og vandmeðfarin mál sem verður að reyna að ná sem allra bestri samstöðu um og ég treysti því og veit að það verður hægt að ná um það góðri samstöðu við hæstv. dómsmrh. Ég vænti þess einnig að við náum um það góðri samstöðu við hv. Alþingi og hv. alþm. að finna þessu máli farsælan farveg.

Ég ítreka að þau efnisatriði sem ég dró fram í svari mínu voru fyrst og fremst um staðreyndir og um þau lagaákvæði sem í dag eru í gildi og eins þá niðurstöðu þeirrar nefndar, sem starfaði á árinu 1981–1982 við það að leita úrlausna í þessu máli, að það bæri að undirbúa byggingu og rekstur geðdeildar við ríkisfangelsi, en ég dreg það ekkert frekar inn í umræðuna heldur lýsi yfir þeim vilja mínum að reyna að leita leiða að sem bestu samkomulagi til að leysa málið án þess að einhver hópur, sem síst á það skilið, lendi milli stóla í Stjórnarráðinu, eins og það var orðað áðan.

Það má reyndar nefna að því miður er það oftar sem slíkt gerist og bitnar þá venjulega á þeim sem síst eiga skilið. Við hæstv. félmrh. höfum t.d. verið að fjalla um það að undanförnu hvernig leysa megi mál fólks sem er mikið fatlað vegna sjúkdóma eða slysa. Þeirra vandamál eru mikil og þar virðist einnig vera um það að ræða að þessir sjúklingar geti lent á milli stóla, ef svo má taka til orða, vegna þess að það sé eitthvert vandamál hvernig eigi að skilgreina þeirra aðstæður. Það er auðvitað hörmulegt og ber að reyna að leita allra leiða til að losna við svoleiðis innbyrðis vandamál sem bitna á þeim sem síst skyldi.