20.10.1987
Sameinað þing: 5. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 181 í B-deild Alþingistíðinda. (128)

13. mál, framkvæmdir við Egilsstaðaflugvöll

Forsætisráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Í fjarveru hæstv. samgrh. ætla ég að greina frá svörum hans við fsp. hv. þm.

Svarið við fyrstu spurningunni er þetta:

11. mars sl. vor var samþykkt þál. um framkvæmdir við Egilsstaðaflugvöll. Þar var heimiluð 60 millj. kr. lántaka svo að unnt yrði að hefjast handa við framkvæmdir 1. áfanga flugvallarins. Hinn 7. júlí í sumar var flugmálastjóra heimilað að taka upp viðræður við véla- og tækjaeigendur á Héraði um þessar framkvæmdir þar sem kannað yrði hvort þeir gætu boðið það hagstæð verð að til útboðs þyrfti ekki að koma. Þetta var gert með sérstöku bréfi þáv. samgrh. og í bréfinu var skýrt tekið fram að viðræðurnar væru án skuldbindinga um að tilboði heimamanna yrði tekið. Ákvörðun um það yrði tekin af ráðuneytinu að loknum viðræðum.

Þessar viðræður Flugmálastjórnar og heimamanna á Egilsstöðum hófust nokkru síðar eftir að útbúin höfðu verið gögn svo að heimamenn mættu gera tilboð. Skömmu síðar kom tilboð heimamanna sem hljóðaði upp á rúmar 59 millj. kr., en það var leiðrétt strax og hljóðaði þá upp á rúmar 54 millj. kr.

Flugmálastjórn greindi frá þessu tilboði heimamanna í bréfi til samgrh. hinn 5. sept. sl., en flugmálastjóri var þá erlendis. Í bréfi Flugmálastjórnar kom fram að Almennu verkfræðistofunni hefði verið falið að meta tilboð Samstarfsfélags bíla- og tækjaeigenda á Fljótsdalshéraði og teldi stofan ekki ólíklegt að tilboð fengist samkvæmt almennu útboði á bilinu 42–45 millj. kr. Á fundi hinn 18. sept. sl. fól samgrh. flugmálastjóra að ljúka viðræðum við heimamenn, enda hafði samgrh. borist vitneskja um að heimamenn teldu viðræðum þá ekki lokið. Flugmálastjóri greinir frá þeim viðræðum í bréfi til samgrh. hinn 25. sept. þar sem fram kemur að hann hafi haldið fund með heimamönnum hinn 23. sept. og þeir boðist til að framkvæma verkið fyrir 45–50 millj. kr. Þá segir flugmálastjóri í bréfinu að hann telji viðræðum nú endanlega lokið af sinni hálfu.

Í kjölfar þessa var sú ákvörðun tekin af samgrn. að viðræðunum hefði lokið án sérstakrar niðurstöðu, enda hafi heimamönnum verið gefinn kostur á að koma með ákveðið tilboð í verkið. Það hafi reynst of hátt og síðari viðræður ekki leitt til raunhæfrar niðurstöðu. Af þessum sökum ákvað samgrh. að fram færi almennt útboð í 1. áfanga Egilsstaðaflugvallar og var það auglýst hinn 11. okt. Útboðsgögn voru tilbúin til afhendingar 14. okt. og tilboðin verða opnuð hinn 2. nóv. nk.

Varðandi aðra spurninguna er þetta að segja: Samkvæmt upplýsingum frá Flugmálastjórn verða framkvæmdir við 1. áfanga flugvallarins á Egilsstöðum fólgnar í uppgreftri og flutningi á lífrænum jarðvegi úr 600 metra kafla í flugbrautarstæðinu og gerð vegar frá námum í Mýneslandi meðfram bökkum Lagarfljóts að athafnasvæðinu. Þess skal getið að við gerð vegarins er fljótsbakkinn jafnframt styrktur. Skiladagar verksins eru tveir. Hinn 22. des. nk. skal gerð námuvegar lokið. Verkinu í heild skal að fullu lokið eigi síðar en hinn 30. mars á næsta ári og þann dag skal verktaki hafa lokið allri vinnu og frágangi á vinnusvæðinu. Verktaki skal miða við að geta hafið vinnu við verkið hinn 16. nóv. nk. og skulu bjóðendur leggja fram með tilboði sínu greinargóða tímaáætlun um gang framkvæmdanna. Verktaki skal gera sitt ýtrasta til þess að fylgja tímaáætluninni í verki og tilkynna jafnóðum ef út af bregður og þá af hvaða orsökum. Tímaáætlun verktaka verður yfirfarin reglulega á verkfundum og ber verktaka skilyrðislaust að gera ráðstafanir strax til að auka afköst ef framkvæmdir standast ekki gildandi tímaáætlanir að mati eftirlitsins.

Varðandi þriðju spurninguna er þetta svar: Samkvæmt flugmálaáætlun er gert ráð fyrir að framkvæmdir við nýjan flugvöll á Egilsstöðum muni taka um þrjú ár.